Lögmannablaðið - 2018, Blaðsíða 21

Lögmannablaðið - 2018, Blaðsíða 21
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/18 21 RÉTTARFARSSEKTIR VERJENDA Nýlega kvað Mannréttindadómstóll Evrópu upp dóm er varðaði réttarfarssekt tveggja íslenskra lögmanna, Gests Jónssonar og Ragnars H. Hall. Til upprifjunar voru málavextir eftirfarandi: Lögmennirnir höfðu verið skipaðir verjendur tveggja manna sem ákærðir voru í sakamáli. Áður en aðalmeðferð málsins átti að fara fram rituðu þeir héraðsdómara bréf þar sem því var lýst yfir að þeir myndu ekki sinna frekari verjendastörfum í málinu þar sem þeir teldu að brotið hefði verið gegn rétti skjólstæðinga þeirra til réttlátrar málsmeðferðar. Óskuðu þeir eftir því að verða þegar í stað leystir undan starfanum, en þeirri beiðni synjaði héraðsdómari. Er aðalmeðferð átti að fara fram mættu verjendurnir ekki til þinghalds og voru þeir því leystir frá verjendastörfum í málinu og skjólstæðingum þeirra skipaðir nýir verjendur. Þegar dómur féll í sakamálinu voru lögmennirnir dæmdir til að greiða 1.000.000 krónur hvor um sig í sekt til ríkissjóðs. Dómurinn var kveðinn upp að þeim fjarstöddum og án þess að þeim hefði verið tilkynnt um að til greina kæmi að gera þeim réttarfarssekt. Lögmennirnir töldu sig ekki hafa notið réttlátrar málsmeðferðar þar sem þeim hefði annars vegar ekki verið gefinn kostur á að halda uppi vörnum áður en þeim var ákvörðuð sektin og hins vegar að þeir hefðu haft réttmætar ástæður til þess að segja sig frá verjendastörfum í málinu. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 37/2014 sagði m.a. að lögmönnunum hefði borið að mæta til þings við aðalmeðferð málsins og eftir atvikum viðhafa andmæli við málsmeðferðina. Hefði háttsemi þeirra hvorki verið í þágu skjólstæðinga þeirra né annarra ákærðu auk þess sem yfirlýsingar þeirra um að þeir létu af verjendastörfum hefðu falið í sér gróft brot á starfsskyldum þeirra sem verjendur í sakamáli. Hæstiréttur tók þó fram að þegar til álita hefði komið hjá héraðsdómara að beita verjendurna réttarfarssekt hefði verið rétt að boða þá til sérstaks þinghalds og gefa þeim kost á að reifa sjónarmið sín. Þrátt fyrir það, og þrátt fyrir að sekt þeirra teldist refsing, sagði Hæstiréttur að réttur lögmannanna til þess að halda uppi vörnum á áfrýjunarstigi af þessu tilefni sætti að lögum engum takmörkunum og þar hefðu þeir getað komið að öllum sjónarmiðum sínum við munnlegan flutnings málsins, eftir atvikum með því að þeir og vitni gæfu skýrslur fyrir dómi. Samkvæmt því fullnægði málsmeðferðin að mati Hæstaréttar ákvæðum laga og braut ekki í bága við regluna um réttláta málsmeðferð. Því hefði það ekki horft lögmönnunum til réttarspjalla þótt sérstakur málflutningur hefði ekki farið fram í héraði, áður en þeim var gerð réttarfarssekt. Þess ber þó að geta að í sératkvæði tveggja dómara af fimm var talið að brotið hefði verið gegn réttlátri málsmeðferð. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 30. október 2018 (mál nr. 68273/14 og 68271/14) var niðurstaðan í meginatriðum í samræmi við afstöðu meirihluta Hæsta­ réttar. Mannréttindadómstóllinn taldi að þegar litið væri á málsmeðferðina í heild sinni hefði hún ekki brotið gegn 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Dómstóllinn leit DANÍEL ISEBARN ÁGÚSTSSON LÖGMAÐUR HÆSTIRÉTTUR (BÆÐI MEIRI- OG MINNIHLUTI) TALDI AÐ LÖGMÖNNUNUM HEFÐI VERIÐ ÓHEIMILT AÐ MÆTA EKKI TIL AÐALMEÐFERÐAR FYRIR HÉRAÐSDÓMI OG AÐ MEÐ ÞVÍ HEFÐU ÞEIR BROTIÐ GEGN SKYLDU SINNI TIL ÞESS AÐ TAKA AÐ SÉR OG SINNA VERJENDASTÖRFUM.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.