Lögmannablaðið - 2018, Qupperneq 11

Lögmannablaðið - 2018, Qupperneq 11
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/18 11 samrýmast fullveldi landsins og hvort það rúmast innan óbreyttrar stjórnarskrár að gangast undir þær. Einn þessara samninga er EES­samningurinn, sem og ýmsar lagalegar gerðir sem af honum hafa leitt. III Þegar megindrættir EES­samningsins lágu fyrir var mikið rætt um að þær ráðagerðir sem þar birtust fælu í sér skerðingu á löggjafar­ og dómsvaldi og þær kynnu að fela í sér aðild að yfirþjóðlegum stofnunum, bæði að formi og innihaldi. Orðræða af þessu tagi hafði ríkuleg áhrif á frekari samningaviðræður um EES­samninginn og mótaði lagalega gerð hans. Mikil áhersla var á það lögð, einkum af hálfu Íslendinga og Norðmanna, að ná skyldi markmiðum samningsins án þess að EFTA­ríkjunum yrði gert að skerða sjálfstæði sitt eða fullveldi. Þessi ríka viðleitni kom þó ekki í veg fyrir að miklar deilur spruttu um hvort þetta hefði tekist nægilega vel þegar fullgilding og lögfesting EES­samningsins kom til meðferðar á Alþingi. Var af þessum sökum skipuð nefnd lögfræðinga til að meta hvort unnt væri að fullgilda samninginn og lögfesta að óbreyttri stjórnarskrá. Taldi nefndin að svo væri.1 Á þetta álitaefni hefur einnig reynt síðar við innleiðingu nýrra gerða.2 Nú síðast sprettur þessi umræða fram um þriðja orkupakka ESB sem svo er nefndur. Niðurstaða af lagalegum athugunum á þessu hefur verið sú að hinn almenni löggjafi geti að óbreyttri stjórnarskrá deilt valdheimildum ríkisins með alþjóðlegum stofnunum að vissu marki. Þar sem íslenska stjórnarskráin heimili þetta ekki berum orðum er byggt á reglu sem talin er hafa mótast í lagaframkvæmd og fræðilegum viðhorfum, en þekkt er að inntak og eðli stjórnskipunarreglna mótast tíðum þannig. IV Við mat á hvort einstaka gerðir, sem af EES­samningnum leiða og Íslandi er skylt að leiða í landsrétt sinn, samrýmast stjórnarskránni og þeim fullveldisfyrirvörum sem í henni verða taldir felast, er hollt að líta til megindrátta í þróun þjóðaréttar frá því Ísland varð fullvalda ríki. Má halda því fram að þetta atriði hafi ekki fengið það vægi í umræðu um EES og stjórnarskrána sem vert væri. Snemma á 20. öld, þegar Ísland fékk viðurkenningu á fullveldi sínu, var litið svo á að þjóðaréttur væri safn reglna sem lögbinda samskipti ríkja. Almennt var ekki talið að þjóðaréttur væri til þess að lögbinda samskipti borgara mismunandi ríkja eða samskipti borgara eins ríkis við yfirvöld í eigin ríki eða yfirvöld í öðru ríki. Aðilar þjóðaréttar voru í samræmi við þessi viðhorf fullvalda ríki, en ekki einstaklingar og lögaðilar. Algengt er í yfirlitsritum þjóðréttar að ganga í meginatriðum út frá þessari skilgreiningu á þjóðarétti. Hún á þó síður við nú á dögum en fyrir hundrað árum síðan. Ástæðan er vaxandi alþjóðasamskipti á öllum sviðum. Hafa þau leitt til aukinnar fjölbreytni þjóðréttarreglna sem hafa áhrif á réttindi og skyldur fleiri aðila en áður og á fleiri sviðum. Þetta hefur grafið undan hinni hefðbundnu skilgreiningu á hlutverki þjóðaréttar. Þjóðréttarreglur taka, beint eða óbeint, í vaxandi mæli til lögskipta alþjóðastofnana, alþjóðlegra fyrirtækja og alþjóðlegra samtaka af ýmsu tagi, þótt þau teljist ekki til alþjóðastofnana, og síðast en ekki síst til einstaklinga, þótt þeir teljist að formi til aðeins skuldbinda ríki til athafna eða athafnaleysis. Mannréttindasáttmáli Evrópu, og raunar alþjóðlegir mannréttindasáttmálar almennt, eru dæmi um þetta. Með mannréttindasáttmála Evrópu skuldbinda samningsríkin sig til að tryggja einstaklingum (og lögaðilum), sem staddir eru innan yfirráðasvæðis þeirra, þau réttindi sem sáttmálinn mælir fyrir um. Vegna hinnar hefðbundnu hugmyndar um að þjóðaréttur skuldbindi aðeins fullvalda ríki er litið svo á í formlegum skilningi að ríkin hafi sem slík skuldbundið sig gagnvart öðrum ríkjum til að tryggja réttindi eigin borgara. Þetta getur þó engu breytt um að þýðing reglna sáttmálans ræðst engu að síður af hinni áþreifanlegu vernd sem þær veita borgurum samningsríkjanna. Í samræmi við það gerir sáttmálinn ráð fyrir að einstaklingar geti átt aðild að þeim réttarsamböndum sem af honum leiða, enda mælir 1 Alþingistíðindi A 1992 (þskj. 30, fylgiskjal I), bls. 682–713. Höfundar álitsins voru Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari, Gunnar G. Schram prófessor, Stefán Már Stefánsson prófessor og Ólafur W. Stefánsson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Sjá fylgiskjöl II og III með frumvarpinu. Er annars vegar um að ræða lögfræðiálit Björns Þ. Guðmundssonar prófessors og hins vegar lögfræðiálit dr. Guðmundar Alfreðssonar, en báðir töldu þeir nauðsynlegt að breyta stjórnarskránni til að unnt væri að fullgilda EES-samninginn og lögfesta. 2 Sjá hér meðal annars Davíð Þór Björgvinsson: Álitsgerð um framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana í tilefni af innleiðingu reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1/2003 (samkeppnisreglur); Björg Thorarensen og Stefán Már Stefánsson: Álitsgerð um stjórnskipulegar heimildir landsréttar og möguleika á innleiðingu reglugerða ESB um eftirlit með fjármálamörkuðum í EES-samninginn og eftir sömu höfunda Álitsgerð um hvort innleiðing reglugerðar ESB nr. 1193/2011 um sameiginlegt skráningarkerfi fyrir losunarheimildir sé annmörkum háð með tilliti til ákvæða stjórnarskrárinnar; Skúli Magnússon: Álitsgerð um stjórnskipulegar heimildir til innleiðingar tiltekinna nýrra EES-gerða um fjármálaeftirlit.

x

Lögmannablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.