Lögmannablaðið - 2018, Síða 19
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/18 19
lögreglustöðina í Borgarnesi til að sækja einhverja krakka
sem höfðu verið tekin fyrir ölvun við akstur í umdæmi
lögreglunnar í Búðardal nóttina á undan. Það var engin
fangaklefi í Búðardal, svo „delikventar“ úr Dölunum, sem
þurftu að sofa úr sér, voru sendir í Borgarnes. Einhver bið
var í Borgarnesi og mér var boðið að bíða á kaffistofunni
og lögreglumennirnir spurðu hvort ég vildi ekki bara horfa
á vídeó með þeim og dembdu síðan klámspólu í tækið!
Hvað spólan var að gera á lögreglustöðinni í Borgarnesi
veit ég ekki. Þeir fylgdust síðan spenntir með viðbrögðum
mínum og ætluðu greinilega að ganga fram af mér. Ég
hugsaði með mér að ég skyldi sko ekki láta það eftir þeim
að sýna einhverja viðkvæmni fyrir þessu og sat sem fastast og
horfði á myndina. En þetta var auðvitað bæði kjánaleg og
óþroskuð framkoma hjá þessum lögreglumönnum. Þetta
er eina tilvikið þar sem ég hef fundið fyrir að ég var kona í
störfum mínum, nema að maður hafi verið svona blindur.“
Heiðarleikinn borgar sig alltaf
Þórunn er í prófnefnd lögmannanámskeiðanna og segist
alltaf leggja áherslu á það sama ef hún er beðin um að
halda útskriftarræðuna. „Eitt af því sem ég bendi á er að
vera heiðarlegur í starfi gagnvart sjálfum sér, kúnnanum,
gagnaðila og dómstólum. Aldrei að stytta sér leið og ekki
„fiffa“ hlutina. Það kemur alltaf í hausinn á manni. Svo
verður maður að læra að sætta sig við að tapa málum, þau
vinnast aldrei öll.“
Er nú hlynnt kynjakvóta
Þórunn hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja og
þegar fyrstu hugmyndir um kynjakvóta voru uppi var
hún alfarið á móti slíku fyrirkomulagi. „Ég var á móti
lagasetningunni um kynjakvóta, mér fannst fráleitt að velja
fólk í stjórnir út frá kyni og mér fannst þetta lítillækkandi
fyrir konur. Það má nefna sem dæmi að strax eftir að lögin
voru sett þá var hringt í mig því það vantaði konu í stjórn
og ég hafnaði boði um stjórnarsetu, ég væri á móti þessum
lögum og vildi ekki taka sæti bara af því ég væri kona. En ég
hef heldur betur skipt um skoðun. Ég tel þessa lagasetningu
hafa verið til mikilla bóta. Fyrirtækjamenningin hefur
breyst því konur hugsa og gera hlutina öðruvísi. Við erum
ekki eins áhættusæknar og ég held að það þurfi konur til
að vera dálítið á bremsunni. Fyrir utan það að það hafa
margar mjög færar konur komið fram á sjónarsviðið sem
stjórnendur og sennilega hefði það tekið fyrirtækin lengri
tíma að uppgötva þær, ef ekki hefði verið fyrir kynjakvótann.
„EITT AF ÞVÍ SEM ÉG BENDI Á ER AÐ VERA
HEIÐARLEGUR GAGNVART SJÁLFUM SÉR,
KÚNNANUM, GAGNAÐILA OG DÓMSTÓLUM.
ALDREI AÐ STYTTA SÉR LEIÐ.“