Lögmannablaðið - 2018, Page 23
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/18 23
Gerður Gestsdóttir
löggiltur skjalaþýðandi úr
spænsku á íslensku og túlkur
sími 823-0767 spaenskislenska@gmail.com
Löggiltar skjalaþýðingar
úr spænsku á íslensku
og túlkanir fyrir dómi.
Mikil reynsla.
SÍ
ÞÝÐINGAR OG TÚLKUN EHF
SPÆNSK - ÍSLENSKA
málsmeðferð, saman við annan dóm þar sem verjanda
var gerð réttarfarssekt. Í dómi Hæstaréttar í máli nr.
710/2012 var tekin til úrlausnar kæra vegna úrskurðar
um gæsluvarðhald. Með dómi Hæstaréttar var hinn
kærði úrskurður staðfestur en að auki var verjanda gert
að greiða 100.000 kr. í réttarfarssekt. Sakborningurinn
hafði framið alvarlega líkamsárás og verið úrskurðaður
ítrekað í gæsluvarðhald sem Hæstiréttur hafði staðfest
alls fimm sinnum. Gæsluvarðhaldið var byggt á því að
sterkur grunur léki á því að sakborningurinn hefði framið
afbrot sem varðað gæti 10 ára fangelsi og dregin yrði sú
ályktun af sakargiftum að maðurinn væri hættulegur
umhverfi sínu yrði hann látinn laus. Í fimmta dóminum
þar sem gæsluvarðhald var staðfest tók Hæstiréttur fram að
sakborningurinn (og þar með verjandinn) hefði hvorki við
meðferð málsins í héraði né fyrir Hæstarétti bent á nein ný
atvik sem gerst hefðu frá því að dómur í fjórða málinu var
kveðinn upp, sem réttlætt gæti að hinum kærða úrskurði
yrði skotið til Hæstaréttar. Að mati réttarins hefði kæran
því verið með öllu að ófyrirsynju. Í því máli sem hér er til
umfjöllunar var enn á ný verið að kæra gæsluvarðhald yfir
manninum, þ.e. í sjötta sinn. Í niðurstöðu Hæstaréttar
var framangreind forsaga þess rakin og svo sagði orðrétt
í dóminum:
„Þrátt fyrir þetta hefur úrskurður um framlengingu
gæsluvarðhalds til Hæstaréttar enn á ný verið kærður af
hálfu varnaraðila án þess að í greinargerð verjanda hans sé
að finna nokkra ástæðu til slíks málskots að undangengnum
áðurnefndum dómum Hæstaréttar. Er kæra úrskurðarins
því algjörlega tilefnislaus og verður verjanda varnaraðila því
gert að greiða 100.000 krónur í sekt í ríkissjóð samkvæmt
5. mgr. 223. gr. laga nr. 88/2008.“
Hvað sem manni kann að finnast um líkur þess að
úrskurðinum yrði snúið við í Hæstarétti þá var skjól stæð
ingurinn þrátt fyrir allt í fangelsi án þess að hafa hlotið
efnisdóm um afbrot sitt. Spyrja má hvað verjandinn
eigi að gera ef skjólstæðingur hans er úrskurðaður í sex
gæsluvarðhöld og óskar ávallt eftir því að þau verði kærð.
Hefði verið rétt af verjandanum að neita því að kæra?
Ekkert liggur fyrir um að kæran hafi verið í andstöðu við
óskir sakborningsins. Það má því segja að í málinu hafi
lögmaður verið dæmdur til þess að greiða réttarfarssekt
fyrir það eitt að gæta hagsmuna skjólstæðings síns. Þrátt
fyrir að vissulega hafi verið ólíklegt að niðurstöðunni yrði
hrundið þá er varla hægt að halda því fram að kæra á
úrskurði um frelsissviptingu teljist tilefnislaus.
Kröfur dómstóla til málsmeðferðar í þessu máli virðast alls
ekki þær sömu og í máli þeirra Gests og Ragnars. Í máli
hinna síðarnefndu sló Hæstiréttur því föstu að verjendurnir
hefðu brotið gegn skyldum sínum sem verjendur en þó
ættu þeir að sjálfsögðu rétt á því að fá réttláta málsmeðferð
þegar þeim væri dæmd sekt. Tók Hæstiréttur sérstaklega til
skoðunar hvort nægilegt hefði verið að málsmeðferð hefði
einungis farið fram í Hæstarétti og taldi svo vera enda hefðu
lögmennirnir getað komið að öllum sjónarmiðum við
málsmeðferðina þar. Í málinu þar sem gæsluvarðhaldið var
kært verður í fyrsta lagi ekki séð að verjandinn hafi brotið
skyldur sínar sem verjandi. Þá virðist engin málsmeðferð
hafa farið fram um réttarfarssektina og verjandinn hefur
að öllum líkindum ekki vitað af því að hún kæmi til álita
fyrr en hún var lögð á hann með fyrsta og endanlegum
dómi Hæstaréttar.