Lögmannablaðið - 2018, Page 35

Lögmannablaðið - 2018, Page 35
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/18 35 Fyrst var staðnæmst við gamla Landsyfirréttarhúsið í Austurstræti 22 og rifjuð nokkuð upp saga hússins sem Ísleifur Einarsson yfirdómari reisti 1802 en var síðan aðsetur stiftamtmanna á árunum 1805­1820 (og Jörundar hundadagakonungs í byltingu hans 1809). Landsyfirréttur, sem stofnaður var 1800, fékk svo inni í þessu húsi 1820 og var þar í stofunni hægra megin til 1873. Vinstra megin var Bæjarþingstofa Reykjavíkur en uppi á lofti var svarthol fyrir sakamenn. Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg er svo eitt merkasta húsið í Reykjavík og var rifjuð upp saga þess en það var byggt á árunum 1761­1771 sem tukthús og gegndi því hlutverki til 1813. Þar sátu bæði karlar og konur sem fangar og var haldið að vinnu. Húsinu var gjörbreytt 1820 og fékk þá það hlutverk að verða æðsti embættisbústaður Íslands, þar sátu eftir það stiftamtmenn landsins, oftast ungir danskir aðalsmenn á framabraut, og síðan landshöfðingjar Íslands til 1904. Þá var framkvæmdavaldið flutt heim og húsið gert að Stjórnarráði Íslands. Þar hafa verið skrifstofur ráðherra Íslands og forsætisráðherra frá Hannesi Hafstein til Katrínar Jakobsdóttur. Margir sögulegir atburðir hafa gerst í húsinu og við húsið og nægir aðeins að nefna valdaskiptin 1. desember 1918 þegar Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Aðeins var staðnæmst við hús Stefáns Gunnlaugssonar landfógeta sem hann reisti á svokallaðri Bernhöftstorfu 1836 (Amtmannsstíg 2). Stefán var áhugasamur um lýð­ og þjóðréttindi og var frægur fyrir að hafa verið maðurinn sem íslenskaði Reykjavík. Nú var orðið ansi kalt og var því skundað upp í Hegningarhús við Skólavörðustíg þar sem hópurinn fékk inngöngu. Þetta steinhlaðna hús sem fullgert var 1873 var hugsað sem Dóm­, ráð­ og tukthús Reykjavíkur. Fyrst var farið upp á loft og skoðaðir tveir salir sem þar eru. Vestan megin í framanverðu húsinu er salurinn sem hýsti Landsyfirrétt frá 1873 þar til hann var lagður niður 1919 og Hæstiréttur Íslands tók við en hann var hér til húsa allt til 1947. Austan megin er svo Bæjarþingssalur en í honum fóru m.a. fram bæjarstjórnarfundir til 1902. Eftir að hafa skoðað þessi húsakynni var farið niður í fangelsisganginn og skoðaðir fangaklefar sem notaðir voru allt til 2017. Einnig var farið út í fangelsisgarðinn og niður í þvottakjallara. Guðjón Friðriksson

x

Lögmannablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.