Tölvumál - 01.01.2016, Blaðsíða 10
10
Samfélagsmiðilinn Facebook, eða Fésbók hefur verið vinsæll meðal
Íslendinga. Á Íslandi er varla til sá maður sem ekki hefur notað þessa
leið við að segja frá lífi sínu, eiga samskipti við aðra eða fylgjast með því
sem þeir fást við í daglegu lífi.
En hvað segja menn á Fésbókinni? Er íslenskan þar eins og venjulegt
ritmál? Eða er einhver munur á því? Atli Týr Ægisson kannaði málfar
Fésbókarnotenda árið 2012.1
Tungutak og orðafar netnotenda hefur verið kallað netlenska (netspeak).
Netlenskan byrjaði að þróast á tíunda áratug tuttugustu aldar, um það
leyti sem almenningur fékk aðgang að netinu. Sum einkenni hennar
hafa þó verið til lengur á öðrum vettvangi. Netlenskan er tungumál án
landamæra. Hægt er að tileinka sér hana á hvaða móðurmáli sem er því
hún lagar sig að tungumáli notandans.
Segja má að netlenska sé sambland ritmáls og talmáls. Hún er ekki jafn
formleg og ritmál og er því að mörgu leyti ritmál með talmálseinkennum.
Hún býður upp á margt sem hvorki er „leyfilegt“ í venjulegu ritmáli eða
talmáli og því er stundum rætt um hana sem þriðju tegund samskipta.
Samskipti á Fésbókinni fara vissulega að mestu leyti fram með ritmáli en
á því eru ýmis einkenni talmáls sem hér verða skoðuð.
MEÐ JÁKVÆÐNI AÐ LEIÐARLJÓSI
Skoðaðar voru 1000 stöðuuppfærslur á Fésbókinni til að komast að því
hvernig hin dæmigerða stöðuuppfærsla lítur út. Hún inniheldur 549
slög, 110 orð og er ekki lengri en ein til tvær setningar. Hún fjallar um
það sem notandinn er að gera, hugsa eða hefur nýlokið við að gera á
ritunartímanum. Hún kemur yfirleitt jákvæðum skilaboðum á framfæri. Í
það minnsta láta Fésbókarnotendur ekki bera mikið á neikvæðum
tilfinningum sínum og hugsunum.
SVVVOOOOOO MARGAR ÁHERSLUR!!!!
Í venjulegu ritmáli er alltaf ákveðin fjarlægð milli höfundar og lesanda,
bæði í tíma og rúmi. Því er ekki víst að lesandi skilji textann á nákvæmlega
sama hátt og höfundurinn. Höfundurinn hefur takmarkaða möguleika til
að leggja áherslu á einstök orð í textanum og því verður lesandinn
yfirleitt að ákveða hvar áhersluþunginn skuli vera. Netlenskan hefur
þróað fjölbreyttari aðferðir við að leggja áherslu á málið, því hægt er að
breyta útliti textans eða nota afbrigðilega stafsetningu til að gefa áherslu
til kynna.
Afbrigðileg stafsetning getur verið með ýmsum hætti. Til dæmis má
endurtaka ákveðna bókstafi í orðinu sem leggja skal áherslu á við
lesturinn. Fjöldi sömu tákna í röð er tilviljanakenndur og virðist oft fara
eftir því hversu lengi hnappinum á lyklaborðinu er haldið niðri.
• Þetta er svooo málið fyrir útilegurnar í sumar :)
• væri samt nææææstum því til í að skipta á því og nóa
páskaeggi!
Síðan þetta var rannsakað hefur tæknin breyst. Í nýrri stýrikerfum eru
bókstafir og tölustafir ekki endurteknir þegar viðkomandi hnappi er
haldið niðri, heldur verður að ýta á hann jafn oft og viðkomandi stafur á
að birtast.
Óhófleg notkun greinarmerkja gefur til kynna að auka skuli tilþrifin við
lestur textans. Því fleiri sem upphrópunarmerki eru, því meiri innlifun
skal lögð í upphrópunina. Því fleiri spurningarmerki sem notuð eru, því
stærri verður spurningin:
NETLENSKA ER
OKKAR MÁL
Atli Týr Ægisson, nemandi í vefmiðlun og hagnýtri
menningarmiðlun við Háskóla Íslands
1 Greinin er unnin upp úr ritgerð höfundar til BAprófs í íslensku, „Má ég fá nokkur læk hingað? – Um málfar og málnotkun á Fésbókinni“.
SAMSETT MYND: ATÆ/FACEBOOKBRAND.COM