Tölvumál - 01.01.2016, Blaðsíða 39
39
Sykkelkugle, Kameloso og Spisnykel. Þessi nýyrði í dönsku koma fyrir í
góðum grínþætti þar sem Norðmenn bera upp á danska frændur okkar
að þeir skilji ekki sitt eigið tungumál lengur. Danir vita upp á sig sökina.
Poul Dyssing orti í vísunni „vort muddermål“ að danskan væri gömul
hóra með drykkjunef og hræðilegan hljóm en endingargóð væri hún.
Danir eru sjálfir farnir að tala um að fá „en babysitter til weekenden“ og
svipaðir hlutir gerast í þýzku og frönsku. Tímarnir breytast og málin
með.
Ættu Íslendingar að hafa áhyggjur? Deyr íslenskan út? Ættu þeir að
fjárfesta í íslenskun á forritum og tölvukerfum sem aldrei fyrr til að
sporna við? Ég held sjálfur ekki að hættan sé mikil á þeirri víglínu.
Menntun hér er góð og við erum alin upp við að vera tvítyngd og að
rugla ekki málum (mikið) saman.
Það er mikilvægara en að pakka okkur inn í bómull og einangra okkur
frá erlendum málum. Tungumál telst vera í útrýmingarhættu ef málið er
ekki kennt í skólum, eða ef fólk skammast sín fyrir að tala það, eða það
er bannað af yfirvöldum eða orða og kennslubækur vantar. Ekkert af
þessu á við hér.
Það var ekki alltaf vandalaust að tölvuprenta íslensku því stafina vantaði
í prentara. Jóhann Gunnarsson sá til þess að allir íslensku stafirnir voru
studdir hjá IBM með JG stafasettinu. Seinna kom ISO stafasettið þar
sem var pláss fyrir nánast alla bókstafi mannkyns og íslenskan í öndvegi.
Við höfum alltaf verið dugleg að íslenska tölvuorð, enda eigum við mörg
góð nýyrði og tölum yfirleitt um örgjörva og þráðlaus net í stað CPU og
wifi eins og Danir. Bæði Windows og Mac stýrikerfin voru þýdd á
íslensku á sínum tíma en eftirspurnin var ekki mikil upplifði ég.
Heiðarleg tilraun var gerð til að skrifa íslenskt forritunarmál enda lærðu
margir að forrita í Fjölni sem Snorri Agnarsson hannaði. Það var
virðingavert en ég efast um að fleiri íslensk forritunarmál verði skrifuð.
Fjölni er hægt að sækja á netinu enn í dag.
Tölvur eru farnar að skilja og tala íslensku að einhverju marki þökk sé
átaki góðra manna hjá háskólunum og framfarir í máltækni erlendis skila
ávinningi hér einnig. Google hefur bætt íslenskunni inn í Google
Translate og Android símar eru glettilega góðir að skilja íslensku. Við
eigum ekki að vera upp á útlendinga komin en það er ekki víst að þarna
sé peningunum best varið.
Þótt íslenskan þurrkist ekki út mun hún breytast og skilningur á orðum
glatast. Það finnst mér sárt en ég veit ekki hvernig er hægt að forðast
það.
Jafnvel í tölvuheimum gerist þetta. Ég sýndi börnum ritvél og útskýrði
að þarna væru takkarnir Carriage Return, Shift og Tab í sínu upphaflega
umhverfi. Þau vissu heldur ekki hvað disketta var, þekktu þar bara
hnappinn í Word til að vista skjal.
Þegar ég réri báti urðu mörg orðatiltæki úr sjómennsku ljóslifandi. Það
borgar sig alls ekki að bíða boðanna, þar getur bátnum hvolft. Svo
verður að hafa eitthvað fyrir stafni því annars er róið í hringi, og ekki er
hægt að hafa næturvist á flæðiskeri þótt kannski sé í lagi að drekka þar
einn kaffibolla. En ef enginn er báturinn deyja þessi orðatiltæki.
Ég vil að við séum nógu vel menntuð til að kunna að hugsa á íslensku.
Það er sárt að sjá veitingastaðir heita erlendum nöfnum. Og hvað þýðir
að spyrja fólk „Hvernig bíll ertu“? Og hvernig „tekur maður bað?“ Ef við
hugsum ekki á íslensku verður hún ekkert nema orðrétt þýðing á
enskum hugsunum og þá er hún gagnslaus.
Hvar eigum við að beita kröftunum?
Höldum áfram að hlúa að menntakerfinu. Sá sem hefur lært íslensku í
góðum skóla er ekki á flæðiskeri staddur.
Gerum íslenskar bækur aðgengilegar á netinu. Orðabækur og aðrar
bækur hafa alltaf verið gerðar aðgengilegar á bókasöfnum í boði
yfirvalda. Í tölvuheimum eru engar ókeypis orðabækur og íslenskar
bækur eru varla til. Gerum eitthvað í því.
Mynd hönnuð af Freepik.com og fengin: <a href=“http://www.freepik.
com/freevector/humanavatarsilhouettes_789170.htm“>Designed by
Freepik</a>
EYÐUR