Tölvumál - 01.01.2016, Blaðsíða 29

Tölvumál - 01.01.2016, Blaðsíða 29
29 Mynd 1 – „blæðing“ frá þráðlausum netum á hæðum fyrir ofan og neðan. Á mynd 1 er sýnt hvernig merki þráðlausra beina getur borist á milli hæða þegar 2,4 GHz tíðnisviðið er notað. Gert var ráð fyrir því í líkaninu að deyfingin gegnum gólfplöturnar væri 30 dB en heimilisbeinar geta samt sem áður verið það sterkir að merki þeirra berst bæði gegnum gólf og loft og myndin sýnir hvernig merki frá fyrstu og þriðju hæð berst til annarrar hæðar. Í öllum tilvikum er gert ráð fyrir að beinarnir séu í eins metra hæð og hafi engar hindranir í kringum sig. Styrkleikurinn er stilltur eins og algengt er í beinunum og það dugar til að merkið komi á nokkrum styrk í gegn, eins og guli og græni litur myndarinnar sýnir. Æskilegt er að svo sé ekki til að minnka líkur á rásasamslætti. Stóri flekkurinn hægra megin við miðjuna sýnir hvað myndi gerast ef beinir á fyrstu hæð væri stilltur á mun meira afl en leyfilegt er á Íslandi. Hann gæti nánast einnig þjónað íbúðinni fyrir ofan. Það eru því talsverðar líkur til að við slíkar aðstæður fari rásir að lenda saman milli óskyldra aðila enda segir líkanið að talsvert sé um það. Með sameiginlegu þráðlausu neti væri hægt að hafa stjórn á sendistyrknum en jafnframt veita greiða þjónustu til íbúanna. Mynd 2 – ás gegnum hæðina vísar til staðsetningar nýju aðgangsstaðanna. Á mynd 2 er sýnt hvernig ímynduð lína fer þvert gegnum allar íbúðirnar á hverri hæð og það er á þessum ás sem nýir aðgangsstaðir væru staðsettir til að sinna húsinu. Gert er ráð fyrir að vera eingöngu með útsendingu á 5 GHz bandinu en þó slíkt sé ekki algjörlega raunhæft eins og tæknin er í dag er viðbúið að innan ekki langs tíma verði allur notendabúnaður með 5 GHz tíðnibandi og í kjölfarið verður engin þörf á að nota 2,4 GHz bandið. Þar með verður rásaskipulag auðveldara og mun auðveldara að hafa háan hraða og svigrúm til að auka hann enn frekar þegar tæknin þróast. Að auki kemur á daginn að með lausn sem þessari væri hægt að draga verulega úr sendiaflinu frá því sem venja er í dag. Aðgangsstaðirnir eru í 2,5 metra hæð í líkaninu, neðan á loftunum. Það var aðeins á einum stað á hverri hæð þar sem auka þurfti aflið í hámark til að ná alveg um húsnæðið. Allar stillingar í dæmunum hér á eftir miðast við 5 GHz rásir með 40 MHz bandbreidd og þriggja svokallaðra „spatial“ strauma, sem er fræðilega allt að 450 Mbit/sek. samkvæmt n­staðli en 600 Mbit/sek. samkvæmt ac­staðli. Líkanið sýnir að seinna mætti uppfæra bandbreiddina í 80 MHz án vandamála vegna rásanotkunar. Mynd 2 sýnir hvernig aðgangsstaðirnir eru staðsettir í íbúðunum. Hverri íbúð dugar einn aðgangsstaður fyrir dreifinguna en vegna burðarveggjanna er staðsetning þeirra oft á tíðum fínstillingaratriði en forhönnunin leyfir að sjá jafnóðum hvernig til tekst. Í einni íbúð, á fyrstu hæð lengst til hægri, er nauðsynlegt að setja tvo aðgangsstaði til að ná til allra herbergja. DREIFING FRÁ NÝJA KERFINU Mynd 3 – heildarmynd af dreifingunni frá sameiginlega þráðlausa netinu. Mynd 3 sýnir útbreiðsluna þegar búið er að „kveikja“ á öllum aðgangsstöðunum með nýja fyrirkomulaginu. Græni liturinn ber það með sér að dreifing um húsnæðið er í flestum tilfellum mjög góð. Einu svæðin sem eru í skugga er hluti stigaganganna. Mynd 4 – „blæðing“ milli hæða í nýja kerfinu. Mynd 4 sýnir síðan hvernig merki berast frá fyrstu og þriðju hæð gegnum loft og gólf til annarrar hæðar og ólíkt því sem gerðist á mynd 1 eru áhrifin afar lítil og styrkur alltaf það lágur, samanber gráa litinn, að ekki verða truflanir milli rása. Mynd 5 – útsendingasvið frá stökum beinum á 2,4 GHz. Mynd 6 – útsendingasvið frá aðgangsstöðum í nýja kerfinu á 5 GHz. Myndir 5 og 6 eru samanburður á því hvernig útbreiðslan myndi eiga sér stað þar sem hefðbundinn beinir er notaður með 2,4 GHz og svo hvernig útbreiðslan væri með sameiginlegu kerfi á 5 GHz. Á mynd 5 sést að merkið frá íbúðinni til vinstri berst á góðum styrk yfir stigaganginn og langt inn í næstu íbúð. Á móti kemur að eitt herbergjanna í íbúðinni með beininum er í skugga, það er þriðja rýmið frá vinstri, neðst, en í líkaninu er gert ráð fyrir að beinirinn sé staðsettur í stofunni. Mynd 6 sýnir breytinguna. Aðgangsstaður í nýja kerfinu væri staðsettur í loftinu í skálanum og næði inn í öll herbergin en ekkert út á stigaganginn og nánast ekkert í næstu íbúð. Í líkaninu er aflið aðeins tíundi hluti þess sem væri í tilfellinu á undan.

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.