Tölvumál - 01.01.2018, Side 2
RITSTJÓRNARPISTILL
Dr. Ásrún Matthíasdóttir, ritstjóri Tölvumála
Í myndinni Modern Times frá 1936 má sjá mörg skemmtileg myndskeið þar sem Charlie
Chaplin er að eiga við sjálfvirkni og sjálfsafgreiðslu. Þegar hann sem starfsmaður í
verksmiðju ætlar að taka sér hádegismatarhlé þarf hann að matast með aðstoð Billows
Feeding Machine til að missa ekki úr tíma frá vinnu. Rúmum 80 árum seinna erum við á
hraðri leið með að auka sjálfsafgreiðslu, ekki endilega við að mata fólk heldur við mörg
önnur störf.
Sjálfsafgreiðsla er þema Tölvumála á afmælisári og er margar áhugaverðar greinar að
finna í blaðinu. Fjallað er um hvernig tæknin eykur aðgengi að ýmiskonar aðstoð og
úrræðum, s.s. sálfræðimeðferð og nýtist við mælingar á heitu vatni svo eitthvað sé nefnt.
Tækifærin og vandmálin sem leynast í sjálfvirkninni eru dregin fram og áhugaverð viðtöl
má finna í blaðinu.
Bankar koma strax upp í hugann þegar sjálfsafgreiðsla er nefnd en þar hafa þróast hratt
ýmsar nettengdar lausnir, sem hafa um leið fækkað starfsmönnum og útibúum. Notandinn
sér um að vinna verk, sem áður voru unnin af starfsmönnum, með aðstoð appa og
heimabanka. Skatturinn er annað dæmi þar sem sjálfsafgreiðsla við framtal er einnig orðin
þróuð, margt er forskráð og flestir þurfa litlu við að bæta. Verst að við getum samt ekki
valið okkur skattprósentuna sjálf. Hvaða prósentu myndir þú velja?
Ekki má gleyma öllu því sem hægt er að panta í gegnum netið þegar farið er í ferðalag,
s.s. flug, gistingu, akstur, miða á söfn eða sýningar og borð á veitingastað. Við getum
líka greitt fyrir ótal hluti á netinu s.s. miða á viðburði, bílastæði og strætó. Síðan er það
sjálfsafgreiðsla í búðum. Var kannski IKEA fyrst með þann búnað hér á landi? Ég verð að
viðurkenna að í fyrstu var ég óörugg þegar ég var að afgreiða sjálfa mig en svo lærðist
þetta, verst að vélarnar í búðunum eru eins ólíkar og búðirnar eru margar. En á ekki að
vera svo gott fyrir hugann að vera alltaf að læra eitthvað nýtt?
Það nýjast sem ég hef upplifað var á veitingastað í Gautaborg þar sem ég þurfti að taka
mynd af skífu á borðinu sem ég settist við til að komast í FB-Messenger til að panta mat
og drykk og síðan að greiða í lokin með því að setja kortaupplýsingar á Messenger. Það
eina sem þjóninn gerði var að taka til drykkina og bera fram matinn.
Ég verð stundum hugsi yfir því hvort þessi tæknivæðing á allskonar afgreiðslu hafi skilað
sér í lægra verði á vöru og þjónustu til neytenda því við erum jú oft að vinna vinnu sem
starfsfólk þurfti til að vinna áður fyrr. Auðvitað kostar hugbúnaður og rekstur hans sitt, en
hefur þessi þróun ekki sparað neitt í rekstri fyrirtækja?
Að lokum langar mig að vitna í það sem Chaplin sagði við Gandhi forðum: I grant that
machinery with only the consideration of profit has thrown men out of work and created
a great deal of misery, but to use it as a service to humanity ... should be a help and
benefit to mankind.
Tímaritið Tölvumál
Fagtímarit um upplýsingatækni.
Tölvumál hafa verið gefin út frá
árinu 1976 af Skýrslutæknifélaginu.
Ritstjóri og ábyrgðarmaður
Ásrún Matthíasdóttir
Aðrir í ritstjórn
Ágúst Valgeirsson
Atli Týr Ægisson
Elín Granz
Eyjólfur Ingi Ásgeirsson
Sigurjón Ólafsson
Skýrslutæknifélag Íslands
Ský er félag einstaklinga,
fyrirtækja og stofnana á sviði
upplýsingatækni.
Starfsmenn Ský
Arnheiður Guðmundsdóttir,
framkvæmdastjóri
Linda Björk Bergsveinsdóttir, verkefnastjóri
Stjórn Ský
Guðjón Karl Arnarson, formaður
Snæbjörn Ingi Ingólfsson
Theódór R. Gíslason
Birna Íris Jónsdóttir
Kristján Ólafsson
María Ingimundardóttir
Díana Dögg Víglundsdóttir
Aðsetur
Engjateigi 9
105 Reykjavík
Sími: 553 2460
www.sky.is | sky@sky.is
Óheimilt er að afrita á nokkurn
hátt efni blaðsins að hluta eða
í heild nema með leyfi viðkomandi
greinahöfunda og ritstjórnar.
Blaðið er gefið út í 1.200 eintökum.
Áskrift er innifalin í félagsaðild að Ský.
Pökkun blaðsins fer fram í vinnustofunni Ás.
Prentvinnsla Litlaprent ehf.
Tölvumál eru skráð vörumerki hjá Einkaleyfastofu og eru
í eigu Skýrslutæknifélags Íslands. Öll notkun og vísun í
vörumerkin er óheimil án sérstaks leyfis eiganda.Í því
felst m.a. réttur sem settur er í vörumerkjalögum (sjá lög
m vörumerki nr. 45/1997 með síðari breytingum) gefur
eiganda vörumerkis einkarétt á að nota merkið hér á
landi og getur hann þá bannað öðrum að nota í
atvinnustarfsemi merki sem eru eins eða lík vörumerki
hans. Nánari uppl: http://www.els.is/merki/
vorumerki/
2