Tölvumál - 01.01.2018, Blaðsíða 18

Tölvumál - 01.01.2018, Blaðsíða 18
18 Traust er undirstaða allra góðra samskipta, bæði persónulegra og faglegra. Traust er grunnur góðra viðskipta og ástæða þess að við getum fengið lán og fyrirgreiðslu. Allir vita að traust þarf að ávinna sér og það er ekki gert á einni nóttu. Eins og oft hefur verið sagt þá tekur áraraðir að vinna sér inn traust, nokkrar sekúndur til að glata því og heila eilífð að byggja það upp. Í lánaviðskiptum og þegar kemur að því að veita fólki eða fyrirtækjum fyrirgreiðslu gera lánveitendur yfirleitt kröfu um góðar tryggingar fyrir lánveitingu. Á síðari tímum hefur notkun á gögnum bæst við sem leið til að meta lánshæfi. Oftast hafa verið um eigin gögn lánveitanda að ræða í bland við gögn frá fjárhagsupplýsingastofum (e. credit bureau), þ.e. fyrirtækjum sem sérhæfa sig í miðlun fjármálaupplýsinga milli banka og annarra lánveitenda líkt og Creditinfo. Það er nefnilega að ýmsu að huga þegar kemur að því að taka ákvörðun um hvort veita eigi einstaklingi eða fyrirtæki lán. Lánveitandi þarf að spyrja sig hversu mikið hann getur lánað, hver á að fá lánið, gegn hvaða skilmálum á lánið að vera veitt og hver áhættan er fyrir lánveitandann. Góðar og traustar upplýsingar um lántakann skipta höfuðmáli til að taka ákvarðanir um lánveitingu. En hvað þarf til þess að taka góða ákvörðun byggða á upplýsingum? Í fyrsta lagi þurfa upplýsingar að vera viðeigandi. Það er til lítils að taka ákvörðun um t.d. bílafjármögnun ef þú hefur bara upplýsingar um hvað viðskiptavinur eyðir miklu í grænmeti á hverjum mánuði. Upplýsingar þurfa í öðru lagi að vera réttar og áreiðanlegar. Það segir sig sjálft að rangar upplýsingar leiða af sér rangar ákvarðanir. Í þriðja lagi þurfa upplýsingar að vera aðgengilegar. Það þýðir ekki aðeins að það sé tæknilega fært að nálgast upplýsingarnar heldur líka að réttu leyfin séu fyrir hendi svo hægt sé að nota þær. GÓÐ GÖGN TRYGGJA GÓÐAR ÁKVARÐANIR Á síðustu árum hefur þrennt gerst sem hefur haft mikil áhrif á hvernig hægt er að taka upplýstar ákvarðanir í krafti gagna. Í fyrsta lagi þá hafa komið fram lög og reglugerðir frá Evrópusambandinu sem hafa verið innleiddar eða stendur til að innleiða bæði hérlendis og í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við. Tilgangur þessara laga er m.a. að búa til umgjörð í kringum meðhöndlun persónuverndaðra gagna í tilviki GDPR reglugerðarinnar og að opna fyrir gagnaflæði í greiðslumiðlun í tilviki PSD2. Í öðru lagi hafa tækniframfarir síðustu ára gert það af verkum að magnið af fáanlegum gögnum hefur stóraukist og í þriðja lagi höfum við færi á mun betri aðferðum og tólum til að greina gögn. Eins og áður sagði þá þurfa góðar ákvarðanir að vera byggðar á góðum gögnum. Í gegnum tíðina hafa til dæmis ákvarðanir um lánveitingu verið byggðar á tiltölulega hefðbundnum fjárhagsupplýsingum um lántakann. Lánveitendur hafa yfirleitt horft til eignastöðu, greiðsluhegðunar og lánshæfiseinkunnar svo dæmi séu tekin þegar kemur að því að taka ákvörðun um hvort veita eigi einhverjum lán. En hvað ef lántakandinn hefur ekki slíkar upplýsingar fyrir hendi? Þó að við séum að stofna til nýs samband við lánveitanda þá erum við ekki fædd í gær og eigum okkur kannski langa sögu annars staðar frá. Af hverju ættum við ekki að geta tekið með okkur upplýsingar um orðspor okkar og nýtt okkur í nýju sambandi? TÆKNIN TEKUR VÖLDIN Nú er svo komið að tækniframfarir hafa ekki aðeins veitt okkur aðgang að auknum gögnum og betri leiðum til að greina þau – heldur er hægt í auknum mæli að taka ákvarðanir út frá þeim gögnum án þess að mannshöndin komi nærri. Sjálfvirk ákvarðanataka er farin að gegna stærra og stærra hlutverki í daglegu lífi fólks og mun koma til með að breyta því verulega hvernig við stundum viðskipti og tökum ákvarðanir. Ágætt dæmi um skilvirka notkun gagna til að taka sjálfvirkar og upplýstar ákvarðanir er ferlið við afgreiðslu bílafjármögnunar hjá Lykli. Áður fyrr krafðist þetta ferli töluverðs tíma og vinnu fyrir hverja og eina lánaumsókn. Viðskiptavinir þurftu að skila inn pappírum sem manneskja þurfti að yfirfara til þess að geta svo tekið ákvörðun um það hvort hægt væri að veita viðkomandi lán. Í dag tekur þetta ferli nokkrar mínútur vegna þess að Lykill hefur gert gagnaöflunina og lánaákvörðunina sjálfvirka. ÓHEFÐBUNDIN GÖGN En líkt og minnst var á hér að ofan þá er möguleiki á að taka upplýstar ákvarðanir um lántökur með öðrum gögnum en hefðbundnum fjármálagögnum og það er hægt að taka þær ákvarðanir með sjálfvirkum hætti. Gott dæmi um svæði þar sem aðgangur að fjármagni hefur verið takmarkaður vegna gagnaskorts eru ýmis lönd í Afríku. Skortur á fjármálagögnum hefur verið alvarlegt vandamál á því svæði þegar kemur að því að veita fyrirgreiðslu og því er mikil þörf á að finna óhefðbundnar leiðir til að liðka fyrir því ferli. Í Afríku hafa sprottið upp mörg fyrirtæki sem veita lán til einstaklinga og smærri fyrirtækja svo þau geti stækkað við starfsemi sína. En til þess að taka ákvarðanir um slíka lánveitingu er ekki hægt að sækja upplýsingar til hefðbundinna fjármálastofnanna þar sem lítið er um að fólk hafi yfir höfuð bankareikning. Fjártæknifyrirtækið Shika í Kenía hefur t.d. boðið upp á þjónustu þar sem ákvarðanir um lántöku eru teknar sjálfvirkt í gegnum smáforrit. Til þess að afla upplýsinga um lánshæfi einstaklinga er stuðst er við gögn frá fjártæknifyrirtækinu M-Pesa sem sérhæfir sig í millifærslum í gegnum farsíma auk þess sem allur sími notenda er skrapaður af gögnum, t.d. símaskráin, hvaða smáforrit viðkomandi notar, hringimynstur og fleira. Þannig geta einstaklingar sótt sér fjármögnun jafnvel þótt þeir hafi aldrei á ævi sinni átt bankareikning. Önnur fyrirtæki nýta samhliða hefðbundin og óhefðundin gögn í sjálfvirkri ákvarðanatöku. Coremetrix, fyrirtæki í eigu Creditinfo Group, hefur t.d. þróað sérstakt persónuleikapróf sem dregur fram líkurnar á því að einstaklingar fari í vanskil út frá því hvernig persónugerð þeirra er. Slík gögn geta gefið færi á því að fleiri einstaklingar geti sótt sér fjármögnunar og lánveitendur nálgast dýpri gögn til að geta tekið upplýstari ákvarðanir en ella. Traust er, eins og áður sagði, lykilatriði í öllum viðskiptum. Með tilkomu nýrrar tækni og fjölbreyttari gagna er nú hægt að ávinna sér traust með mun skjótari hætti en áður. Þessi þróun er enn á frumstigum og því verður spennandi að sjá hvernig sjálfvirkar og upplýstar ákvarðanir út frá fjölbreyttri flóru gagna munu koma til með að breyta fjármálaheiminum á næstu árum. SJÁLFVIRKAR ÁKVARÐANIR UM ALLAN HEIM Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo Lánstrausts og svæðisstjóri Creditinfo Group í N­Evrópu

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.