Tölvumál - 01.01.2018, Qupperneq 36
36
Á aðalfundi félagsins í febrúar 2018 voru teknir inn 5 nýir heiðursfélagar
og óskum við þeim innilega til hamingju. Heiðursfélagar eru tilnefndir fyrir
óeigingjarnt starf fyrir félagið og/eða brautryðjendastarf í upplýsingatækni
á Íslandi. Þau eiga það öll sameiginlegt að hafa komið að því þrekvirki
að taka saman sögu tölvuvæðingar á Íslandi sem kom út þann 6. apríl
2018 auk þess að hafa hvert með sínum hætti verið í tölvugeiranum í
áraraðir.
Anna Ólafsdóttir Björnsson er sagnfræðingur og tölvunarfræðingur
að mennt. Hún lauk BA prófi í sagnfræði og almennri bókmenntasögu
frá Háskóla Íslands 1978 og cand. mag. prófi í sagnfræði frá sama skóla
1985. Hún starfaði við blaðamennsku og þáttagerð í útvarpi á árunum
1978-1989 og hefur tekið stök verkefni að sér á því sviði æ síðan. Hún
settist á þing fyrir Kvennalistann 1989 og sat þar í sex ár til 1995. Meðal
þingmála hennar var þingsályktunartillaga um að þingskjöl og umræður
á alþingi yrðu opin almenningi í tölvutæku formi og ókeypis, svo og lög,
reglugerðir og alþjóðasamningar. Á þeim tíma er málið var flutt (1994 og
1995) þótti síður en svo sjálfsagt mál að bjóða slíkan aðgang ókeypis
og einkaaðilar voru farnir að huga að því að sjá um þessa þjónustu fyrir
borgun. Um svipað leyti skrifaði hún sína fyrstu grein í Tölvumál.
Hún hefur látið sig varða hlutverk kvenna í tæknisamfélaginu. Á árunum
1995-2000 helgaði Anna sig sagnfræðirannsóknum og skrifaði meðal
annars nokkrar bækur, bókakafla og útvarpsþáttaröð á sviði sagnfræði,
en samhliða því fetaði hún sig inn á svið upplýsingatækninnar. Frá árinu
2001 til dagsins í dag (febrúar 2018) hefur hún starfað nær óslitið að
hugbúnaðargerð, fyrst í stað samhliða námi. Hún útskrifaðist með MSc
gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands 2008 og fjallaði lokaverkefni
hennar um allumlykjandi tölvutækni (ubicomp/ubiquitous computing) –
það hvernig tölvutækni rennur smátt og smátt saman við allt daglegt
umhverfi fólks og verður sífellt ósýnilegri. Önnur hugtök, sem leyst hafa
ubicomp af hólmi, eru meðal annarra internet hlutanna, (IoT/Internet of
Things).
Áhugasvið Önnu er allt sem lýtur að samskiptum fólks og tölvu (HCI).
Starfsvettvangur hennar í hugbúnaðargerð á Íslandi og erlendis hefur
einkum verið á sviði tækniskrifa og hugbúnaðarprófana. Sem
tæknihöfundur hefur hún fyrst og fremst lagt áherslu á að auka upplýsinga-
flæði innan fyrirtækja og milli forritara og annarra sérfræðinga og
hagsmunaaðila, skilgreina og setja upp ferli og miðla tæknilegum
upplýsingum.
Hún hefur oftar en ekki fengið það hlutverk að móta starfsvið sitt hjá
upprennandi fyrirtækjum (og fyrirtækjum í umbreytingarferli) á borð við
Betware, INNN, LS Retail, MainManager, Kreditech í Hamborg og Qlik
DataMarket. Um mitt ár 2015 fékk Anna það verkefni að taka við ritun
sögu tölvuvæðingar á Íslandi á vegum Ský, verkefni þar sem hún gat
sameinað sagnfræðirannsóknir og -skrif og brennandi áhuga á tölvu-
væðingu í fortíð, nútíð og framtíð. Sagan fjallar ekki síst um þau gífurlegu
áhrif sem tölvutæknin hefur haft á allt daglegt líf fólks og hvert einasta
svið samfélagsins.
Þótt fimmtíu ár séu ekki langur tími í augum sagnfræðinga þá hafa þau
umskipti sem orðið hafa á þeim áratugum, sem liðnir eru frá komu fyrstu
tölvunnar til Íslands, gjörbreytt svip samfélagsins. Það eru ómetanleg
forréttindi fyrir sagnfræðing að fá að fjalla um þetta efni og tala við fólkið
sem mótaði þetta tímabil og fyrir tölvunarfræðing að skilja betur grunninn
sem nútímatækni hvílir á.
Arnlaugur Guðmundsson lauk prófi í útvarpsvirkjun 1966 og í
rafmagnstæknifræði frá Københavns Teknikum, nú DTU, árið 1972. Á
námsárum sínum starfaði hann m.a. hjá Raunvísindastofnun HÍ og
Rafagnatækni við viðgerðir, nýsmíði og einnig uppsetningu fyrsta kerfiráðs
Hitaveitu Reykjavíkur. Eftir starf á eðlisfræðideild Landsspítala og hjá
Geislavörnum ríkisins lá leiðin til Orkustofnunar þar sem hann vann við
landgrunnsrannsóknir og síðan hönnun og smíði á sérhæfðum
mælitækjum hjá rafeindastofu Jarðhitadeildar, sem hann jafnframt veitti
forstöðu.
Árið 1978 stofnaði Arnlaugur, ásamt tveimur félögum sínum, fyrirtækið
Örtölvutækni sf. sem hannaði og smíðaði margskonar mælitæki, t.d. fyrir
fiskiskip og tók að sér hönnun á ýmsum sértækum rafeindabúnaði. Meðal
annars hannaði fyrirtækið og smíðaði fyrsta kerfiráð Hitaveitu Suðurnesja
í samvinnu við Verk- og kerfisfræðistofuna.
Skýrslutæknifélagið hafði mikil áhrif á starfsferil Arnlaugs. Grein sem birtist
í 1. tölublaði 3. árgangs (1978), Tölvumála: „Drög að Íslenskum stöðlum
fyrir 7-bita kóða, 8-bita EBCDID kóða og ganaskráningarborð“ lagði
grunninn að íslenskun tölvubúnaðar. Byggt á þessum tillögum aðlagaði
Örtölvutækni tölvuskjái og prentara að íslensku ritmáli fyrst fyrirtækja á
Íslandi. Í framhaldi þess þá vann Arnlaugur að gerð staðla og var í tveimur
tækninefndum á vegum Fagráðs í Upplýsingatækni / Staðlaráðs Íslands
um íslenskt lyklaborð fyrir tölvur.
Megin starfsvettvangur hans var sem forstöðumaður upplýsingatæknimála,
fyrst hjá Vatnsveitu Reykjavíkur og síðar Orkuveitu Reykjavíkur eftir
sameiningu VR og OR. Með vinnu hefur Arnlaugur stundað ýmiss konar
sjálfboðaliðastörf. Innan skátahreyfingarinnar hefur hann auk margvíslegra
foringjastarfa gegnt hlutverki framkvæmdastjóra landsmóts skáta,
undirbúðastjóra alheimsmóts skáta, verið mótsstjóri á fjölþjóðlegum
skátamótum eldri skáta og verið fararstjóri innanlands og utan fyrir hópum
skáta auk þess að vera félagsforingi fyrir skátafélagið Landnemar í
Reykjavík síðan 1995.
Hann var kjörinn í Endurmenntunarnefnd TFÍ árið 1979 og varð formaður
hennar tveimur árum síðar. Á þeim árum átti sú nefnd frumkvæði að
stofnun sameiginlegrar Endurmenntunarnefndar TFÍ, VFÍ, BHM, HÍ, TÍ
og KÍ, nú Endurmenntun Háskóla Íslands. Átti Arnlaugur sæti í fyrstu
stjórn þeirrar nefndar. Hann sat í stjórn Undirbúningsfélags rafeinda-
iðnaðarins og var í fyrstu stjórn Fagráðs í Upplýsingatækni sem sett var
á stofn innan SÍ, nú SKÝ, og fluttist síðar til Staðlaráðs. Arnlaugur átti
vinningstillögu að merki fyrir 25 ára afmæli Skýrslutæknifélagsins en
tillagan byggði á þáverandi merki félagsins. Arnlaugur gegndi ýmsum
trúnaðarstörfum fyrir Tæknifræðingafélag Íslands og sat meðal annars í
stjórn Kjarafélags TFÍ.
NÝIR HEIÐURSFÉLAGAR Í SKÝ