Tölvumál - 01.01.2018, Blaðsíða 39
39
Árið 1989 var Póstur og Sími ennþá með einokun. Þá þurfti að bíða í
biðröð niðrí bæ til að sækja um síma og svo var beðið í lágmark viku eftir
að símvirki kæmi og tengdi símann sem hann hafði meðferðis því símtækið
var í eigu símans.
Þetta ár flutti ég til Bandaríkjanna og leigði hús. Ég spurði leigusalann
hvernig ég fengi síma. „Farðu út í búð, þar er sjálfsali frá AT&T“. Sjálfsalinn
spurði hvað ég héti og ætti heima? Ég sló það inn og sjálfsalinn svaraði:
„Númerið hefur verið tengt“. Þetta var mikið A-ha augnablik fyrir íslending.
Ég fór í Radio Shack, keypti síma fyrir tólf dollara, heim, stakk í samband
og hringdi í mömmu. Mér hefur verið ákaflega hlýtt til sjálfsala alla tíð
síðan. Fyrir mér eru þeir boðberar frelsis og ódýrrar og góðrar þjónustu.
Sjálfsafgreiðsla fyrir mér þýðir að einhver er búinn að gera afgreiðsluferlið
svo smurt að jafnvel tölva getur framkvæmt það. Hún þýðir líka yfirleitt
að einhver röð hverfur sem ég þurfti að standa í.
Einu sinni þurfti vegabréf (biðröð) og útprentaðan farmiða (biðröð) til að
mega fljúga. Svo þurfti ekki farmiðann. Svo þurfti ekki vegabréf þökk sé
Schengen. Svo hætti brottfararspjaldið að vera nauðsynlegt, í stað kom
strikamerki á símann.
Bensín er löngu orðið sjálfsafgreitt og þeim fækkar sem muna eftir
bensínstöðvaköllunum með tóbaksklút til taks.
Sjálfsalar virðast aðallega afgreiða gos og nammi á Íslandi enn sem komið
er en annars staðar hef ég séð þá afgreiða fimm lítra dunka af bjór,
rafhlöður, reiðhjólaslöngur og nærbuxur. Sjálfsali í skóla sonar míns selur
blýanta, reiknivélar og fleira þarflegt.
Sjálfsafgreiðslur á flugvöllum þar sem farþegar skanna töskuna sjálfir eru
farnar að virka ágætlega. Póstbox Íslandspósts virka mjög vel því
viðskiptavinir losna við að bíða í röð niðrí bæ milli 9-16.
Bankar eru óðum að loka útibúum og breyta þeim í þægilegar viðtalsstofur
þar sem fólk getur látið bankafulltrúann stjana við sig með konfekti og
kaffi - afgreiddu úr sjálfsala.
Gamlir sjálfsalar tóku skiptimynt en svo lærðu þeir að taka seðla – svo
visakort og nú eru viðskiptin snertilaus. Það hlýtur að vera orðið ódýrara
að búa sjálfsalana til, og ætti þeim þá ekki að fjölga enn frekar?
Sjálfsalar eru oft bara millibilsástand.
Á neðanjarðarlestarstöðvum notar maður ennþá pening til að kaupa
lestamiða en það hlýtur að vera spurning um tíma þar til maður gengur
inn í lest með ekkert nema farsímann og borgar snertilaust við inngönguna.
Þá er sá sjálfsali farinn.
Tölvubankar voru algengir en svo hurfu seðlarnir úr umferð og með þeim
hurfu tölvubankarnir. Reiðufé er ennþá til en ég skal veðja að það verður
farið fyrr en varir.
Reiknistofa bankanna var að kynna app í símann sem breytir honum
nánast í posa. NFC flaga er skrúfuð á afgreiðsluborð verslana. Síminn
les reikningsnúmer kaupmanns og millifærir beint - enginn posi og ekkert
greiðslukort. Milliliðunum fækkar og fækkar. Hlutverk banka er í algeru
uppnámi.
Starfsmenn gera mest gagn þegar einhverja þekkingu þarf á vörunni
sem verið er að selja. Á dögum netsins fara neytendur út í búð, skoða
vöruna og máta - en svo panta þeir vöruna á netinu og afgreiða sig sjálfir.
Siðlaust en óumflýjanlegt. Framtíðin liggur í að aðgreina þekkinguna frá
afgreiðslunni.
Bauhaus, BYKO og Húsasmiðjan gætu farið að einbeita sér að þekkingar-
miðlun og hætt að láta kennarana sem þeir ráða í vinnu ráfa um verslunina
og setja skrúfur í poka. Af hverju eru skrúfur ekki seldar í sjálfsala? Af
hverju þarf starfsmaður með sérþekkingu í smíði og pípulögnum að láta
horfa á sig skrifa niður tólf stafa númer fyrir hverja skrúfu sem ég kaupi
þar á plastpoka sem vill ekki láta skrifa á sig?
Sjálfsafgreiðsla mun bara færast í aukana. Milliliðir með sérþekkingu
hverfa síðast en þeir munu líka hverfa. Ykkur að segja held ég að lögfræði-
stéttin sé næst á gapastokkinn.
EYÐUR
VERÖLD SEM VERÐUR