Börn og menning - 01.09.1999, Page 28
BÖRN OG /vAENNiNG
barna- og unglingabókahöfundi horfði hann hissa á mig
og spurði svo á móti:
„Af hverju ekki?“
Ég horfði niður í gólfið og það var ekki laust við að ég
skammaðist mín íyrir að spyrja svona ...
Þessi viðhorf komu mér á óvart og hugurinn
hvarflaði til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Allir sem
fylgjast með bókmenntaumræðu vita hvað þar hefur
verið að gerast á undanförnum árum. Bókaforlögin eru
því sem næst hætt að leggja fram barna- og
unglingabækur en án þess verða þær ekki tilnefndar til
bókmenntaverðlaunanna og komast því aldrei upp á
borðið á þeim vettvangi. Á því leikur enginn vafi að
barna- og unglingabækur standa á traustum grunni í
Noregi og staða þeirra sem skrifa fyrir þessa hópa er
mun sterkari en hjá okkur.
Það kom mér á óvart að sjá hve margir höfundar sem
skrifa fyrir þessa aldurshópa skrifa jöfnum höndum
bækur fyrir fullorðna. Hér er því öfugt farið, einn og
einn fullorðinshöfundur gefur út barnabók á nokkurra
ára fresti en þeir sem skrifa fyrir börn að staðaldri skrifa
nálega eingöngu fyrir þann hóp. Er þetta til
umhugsunar?
í Þrándheimi er Rithöfundasamband norður og suður
Þrændalaga. Þangað var mér boðið á fund og endaði
meira að segja með því að ganga í sambandið. Þetta
samband er félag allra þeirra sem eru að skrifa á
svæðinu en ekki einskorðað við höfunda ákveðinna
bókmenntategunda. Og af því að það er nú stundum
sagt að sviptingar séu með íslenskum rithöfundum á
fundum — eða hafi verið hér í eina tíð — get ég
fullvissað lesendur mína um að félagsfundir í
Rithöfundasambandi íslands eru líflausir með öllu
miðað við þennan. Fundurinn var haldinn á krá í
lokuðum sal. Þar fóru fram heiftarleg skoðanaskipti
sem enduðu með hurðaskellum og fundurinn leystist
upp!
En ég var stödd á borgarbókasafninu í Þrándheimi
og hvernig leist mér nú á bækurnar sem norskir
starfsfélagar mínir voru að skrifa?
Þegar ég var búin að lesa í nokkrar vikur fannst mér
lesningin um margt ólík því sem ég hafði fylgst með á
íslandi undanfarin ár. Það var kannski heldur ekki við
öðru að búast — og þó, ekki eru þessar þjóðir svo
ólíkar.
í hverju lá þá munurinn? Var það efnisval, tök, útlit
eða titlar?
Efnisvalið var kannski ekki svo frábrugðið því sem
við sjáum hér þótt segja megi að efnið sé oft ívið
alvarlegra en hjá okkur. Það voru fremur efnistökin
sem ollu mér umhugsun. Mér fannst eins og
lesendunum væri gefinn meiri tími til upplifunar en ég
átti að venjast og frásögnin var ekki í fyrirrúmi á
kostnað annars. Við kynntumst hugarheimi persónanna
ekki síður en áformum þeirra og gjörðum. Hér hefði
verið gaman að geta brugðið upp ýmsum nýlegum titlum
málinu til stuðnings en fæstir hafa verið þýddir á
íslensku. Þó má nefna Kapalgátu Jostein Gaarders og
Markús og Díönu, Ijósið frá Síríus eftir Klaus Hagerup.
Frásögnin sjálf situr í fyrirrúmi í mörgum íslenskum
bókum og er oft bráðskemmtileg. En þarf hún ekki
helst að vera bæði grípandi og drepfyndin með titil sem
slær í gegn og bókarkápu í neonlitum sem fangar
athygli kaupandans um leið og hann kemur inn fyrir
þröskuld bókaverslunarinnar?
Mér hafa fundist þetta vera þau skilaboð sem
höfundar hafa fengið á undanfömum árum og ekki bara
mér heldur mörgum starfsbræðrum mínum og -systrum.
Það er eins og okkur sem skrifum fyrir þessa hópa sé
ætlað að keppa við myndbönd, tölvuleiki og kvikmyndir.
En bók getur aldrei orðið myndband eða tölvuleikur, eðli
hennar er annað. Getur verið að norskir höfundar fái
önnur skilaboð? Bókakápurnar og titlarnir bentu til
þess. Ég gat nú stundum ekki varist brosi þegar ég leit í
kringum mig og mér varð hugsað heim!
Getur verið að kappið við að koma framvindunni til
skila sé svo allsráðandi hjá okkur að það verði á kostnað
þess hvernig við segjum söguna, lýsum söguhetjunum
og gefum lesendunum færi á að upplifa þær?
Þetta varð mér til umhugsunar. Og ég held að það sé
gott fyrir okkur að staldra við. Hvert erum við að fara —
hvert viljum við fara?
Titlarnir og neonútlitið eru nokkuð séríslenskt
fyrirbæri sem er forlagsvandi fremur en höfunda.
Langar mig að minna á að við eigum marga góða
listamenn sem leggja metnað sinn í listræna
kápuhönnun ef áhugi er fyrir hendi.
Aldursmörkin á milli barna- og unglingabóka eru
fljótandi í Noregi eins og hér. Barnið verður unglingur
tólf til þrettán ára og þá taka við tveir flokkar á
bókasöfnunum; unglingabækur eitt og tvö. Unglinga-
bækur eitt eru eins og þær sem við sjáum helst hér, tvö
eru fyrir eldri unglinga og hefðu þær bækur upp til hópa
geta verið skrifaðar fyrir fullorðna. Þarna fannst mér
munurinn á okkar bókum og þeirra vera afgerandi.
Efnisvalið var margbreytilegt en ekki einskorðað við
hversdagsraunSæi. Þarna var lífið í sinni óbreyttu mynd,
gott og vont í bland, stundum var hægt að leysa úr
málunum og stundum ekki. Það voru engar billegar
lausnir og ekki talað niður til neinna. En þetta voru
lifandi persónur úr mannlegri tilvist á jörðinni.
Ég hef margheyrt á krökkum í efri bekkjum grunn-
skólans hérna að þeir lesi ekki unglingabækur. Þeir lesi
„alvörubækur“ eða séu hættir að lesa, einkum strákarnir.
26