Börn og menning - 01.09.2005, Side 17
Ekki ætlað börnum
15
Hér er reyndar komið ieiðarstef í „notkun"
fullorðinsleikhússins á börnum. Þau virðast
helst koma við sögu í þeim tilgangi að deyja
eða þola hörmulegar þjáningar. Þetta er
nokkuð merkileg staðreynd, því börn hafa
eins og allir vita afgerandi áhrif á líf, viðhorf
og samskipti allra sem að þeim standa og
það án þess að neitt sérstakt ami að. Þessa
hlið mannlífsins hefur leikhúsið að mestu
látið órannsakaða þótt ótrúlegt megi virðast.
Um leið og barn birtist á sviðinu er eins víst
að illa eigi eftir að fara fyrir því.
Vissulega er ekkert eins átakanlegt og
dauði barns og leikhúsið er ekki alltaf vant
að meðulum þegar kemur að þvi að kreista
tárakirtla eða velta við hneykslunarhellum.
En oft skilja slík atriði eftir óbragð í munni
og þá tilfinningu að höfundur hafi gripið
til þess arna sem tækis til að hafa sem allra
sterkust áhrif. Barnadauði er sterkt krydd og
skyldi ekki notast til að breiða yfir annars
bragðdaufan rétt.
Á tilraunastofunni
Sennilega er langt síðan hér hefur sést verk
þar sem jafn langt er gengið í þessa átt og
f Koddamanninum eftir Martin McDonagh
sem Þjóðleikhúsið frumsýndi síðasta vor.
Sýningum verður um það bil að Ijúka þegar
þetta blað kemur út og þvi óhætt að Ijóstra því
upp að leiksagan hverfist um hroðaleg morð
á börnum sem virðast vera framin að forskrift
smásagnahöfundar nokkurs sem fyrir vikíð
liggur undir grun um aðild að málinu. En
þó morðin séu hin viðbjóðslegustu falla þau
eiginlega í skuggann af fortíð höfundarins
og bróður hans en hinn síðarnefndi var
pyntaður af foreldrum sínum næturlangt í
læstu herbergi um sjö ára skeið til þess eins
að athuga hvort vein hans yrðu ekki til að
efla ímyndunarafl hins sonarins, sem eins og
leikritið leiðir í Ijós gekk eftir.
Verkið er listilega skrifað, hrollvekjandi
og, þótt ótrúlegt megi virðast, bráðfyndið.
McDonagh er af mörgum talinn einhver
hæfileikaríkasti höfundur sinnar kynslóðar
á Bretlandseyjum og þó honum sé gjarnan
legið á hálsi fyrir að grípa til ódýrra bragða
blóðs og ofbeldis til að skemmta áhorfendum
þá er samt greinilegt að þörf hans til að
heilla áhorfendur inn í sagnaheim sinn er
sönn, bak víð tæknilega fágunina leyníst
einlægni sem gefur honum á endanum
rétt á að segja þær hörmungarsögur sem
hann kýs. Þrátt fyrir allt eru örlög barnanna
í Koddamanninum ekki ódýrar brellur til
að hreyfa við okkur, þótt greinilegt sé að
McDonagh hefur unun af svoleiðis löguðu.
Þau eru óhjákvæmilegir hlekkir í sögunni sem
sögð er. Koddamaðurinn er sennilega fyrst
og fremst hugleiðing um galdur sögunnar,
framreidd í formi listilega fléttaðrar frásagnar
af hörmulegum atburðum. Sýningin er
ekki við hæfi barna en breytir þess í stað
„hörnuðum" éhorfendum sínum í stóreyga,
opinmynnta krakka sem skríkja af kátínu
milli skelfingarandkafanna.
„Smábarnaleigan, góðan dag"
Að sumu leyti er söngleikurinn Annie mest
sjokkerandi af þessu öllu. Samt er hún eina
sýningin af þeim sem nefndar hafa verið
sem er beinlínis ætluð börnum. En er ekki
dálítið erfitt að kyngja sýningu þar sem rösk
kona í dragt mætir á hæli fyrir munaðarlaus
stúlkubörn og biður um að fá eins og eitt
að láni yfir jólin fyrir milljónamæringinn
sem hún vinnur hjá? Ég er hræddur um að
engum dytti í hug að skrifa slíkt og þvílíkt
í dag.
En enn og aftur sannast að ætlun
höfundar talar til okkar í gegnum það sem
hann skrifar. Og orðið sem best lýsir viðhorfi
höfundar Annie er sakleysi. Það er svo
augljóst að það hvarflar ekkí að honum að
nokkuð vafasamt búi að baki því að einmana
karl fái að leigja sér smástelpu til að lífga
upp á hversdaginn. Og það vottar ekki fyrir
kaldhæðni þegar sjálfur Bandaríkjaforseti
birtist eins og Guð úr vélinni í leikslok og
úthlutar öllum hæfilegri hamingju. Þessi
saklausitónn bjargar verkinu. Þó svo leikstjóri
sýningarinnar treysti honum ekki alltaf þá
skilar hann sér samt.
Kannski er það lærdómurinn sem draga ber
af afdrifum barna í leikritum fyrir fullorðna.
Það er aldrei erfitt að greina hvenær
höfundur hefur rétt á að láta barn deyja
og hvenær hann er að svala lægstu hvötum
sínum og áhorfenda. Rödd höfundarins er
alltaf skýr, og þess vegna blasir alltaf við
hvort um er að ræða dramatíska nauðsyn
eða ódýra brellu.
En það þarf ekki sérlega vitran mann til að
sjá að fátt er óhollara ungum börnum en að
gerast persóna í fullorðinsleikriti.
Höfundur er textasmiður og
leiklistargagnrýnandi.