Börn og menning - 01.09.2005, Qupperneq 22
Börn og menning
eru það línurnar í leikmyndinni sem minna
á hinar frægu pappírsútklippur Andersens;
kannski að fólk og viðburðir sem fyrir augu
ber leiði hugann að draumlyndum pilti með
viðkvæmt hjarta og frjóan huga.
Það hefur sennilega ekki verið auðvelt að
draga út nokkur ævintýri úr hinu geysimikla
safni Andersens en niðurstaðan er Eldfærin,
Næturgalinn, Hans klaufi, Svinahirðirinn,
Förunauturinn og Litla stúlkan með
eldspýturnar, auk þess sem Ljótiandarunginn
stiklar um inn á milli. Mikið vill auðvitað
meira en líklega má þó vel við una, hér er að
því er virðist allt sem þarf, þekkt og minna
þekkt ævintýri, glens og gaman á aðra síðu
og sorg og skuggar á hina. Handritshöfundar
hafa á ferli sínum brallað hitt og annað og
enda þótt hér væri frumraun í Þjóðleikhúsinu
er Ijóst að það voru engir byrjendur sem
bjuggu textann til leiks, allt gekk smurt
og lipurlega, og ærið oft sprakk eldri hluti
leikhúsgesta úr hlátri þegar vel og hnyttilega
var að orði komist. Sömuleiðis voru sönglög
þeirra félaga og söngtextar skemmtilegir og
við hæfi.
Ágústa Skúladóttir leikstjóri hefur
undanfarið vakið eftirtekt fyrir sýningar
sínar og má m.a. rifja upp að hún vann
eftirminnilega sýningu með Leikfélagi
Kópavogs upp úr safni Grimms-bræðra fyrir
nokkrum árum sem valin var Athyglisverðasta
áhugaleiksýning ársins 2002 og var bóðið að
sýna í Þjóðleikhúsinu. Ágústa hefur sýnt
að hún hefur einkar gott lag á að vekja
sköpunarkraft í hópnum öllum sem hún
vinnur með, og ekki bar á öðru en að sá
galdur lukkaðist líka hér, yfir öllu er einstakur
frískleiki og sprúðlandi hugmyndaauðgin ber
með sér að sýningin sé að verulegu leyti
sameiginlegt sköpunarverk margra en ekki
fárra.
ígrundað sprell
Leikhópurinn sýnir sig í að vera jafn og sterkur.
Hér er teflt saman margreyndum leikurum og
hinum sem hafa fengið færri tækifæri (og
skemmri starfsævi!) til að sýna sig og sanna.
Sigurður Skúlason leikur skáldið sem tengir
allt saman í eina heild af hófstillingu og
nærfærni, eins og vera ber. Hinir bregða sér
fimlega í hvert hlutverkið á fætur öðru. Allir
fá tækifæri til að skína og grípa það. Allir
fá að spreyta sig í miðpunktinum og skila
því með glans en oft voru líka örsmáir en
hárnákvæmir „núansar" aukahlutverkanna
hvað minnisstæðastir. Galgopaskapur og
galsi einkenna leikinn en það eru aldrei
innistæðulaus ærsl. Tvö dæmi: ég held að ég
hafi aldrei skilið hvað ekta prinsessa gat séð
við týpu á borð við Hans klaufa fyrr en ég sá
prinsessumyndina sem Unnur Ösp dró upp.
Og svínahirðir Björgvins Franz, með suðræna
flamingó-tregasöngva á vör, sýnir svo ekki
verður um villst ólgandi blóð og djúpstæðan
harm yfir ást sem ekki fæst endurgoldin.
Brúður Bernds Ogrodnik eru svo ávallt
aðalpersónur af sjálfu sér, hvar sem þær
koma. Brúðumeistarinn sjálfur verður hins
vegar ósýnilegur á sviðinu, sem er auðvitað
nokkur ráðgáta.
Leikmynd Frosta Friðrikssonar, búningar
Þórunnar E. Sveinsdóttur og lýsing Páls
Ragnarssonar fallast í faðma; búningarnir
litríkir og ýmsu tjaldað og leikmyndin spar-
en hugvitssöm og Ijósin slógu þá tóna sem
upp á vantaði til að skapa einmitt réttu
stemninguna - að viðbættum Ijúfum tónum
hljóðfæraleikaranna þriggja. Gilti einu hvort
sögusviðið var undir logandi Spánarsól, við
hirð Kínakeisara eða ískalt skotið hjá litlu
stúlkunni með eldspýturnar.
Þetta er með öðrum orðum leikhúsreynsla
sem mann langar að hafa um orð á borð við
„töfraheimur leikhússins", „leikhúsgaldur"
og þess háttar, og ætti kannski bara að gera
það.
Þegar ég gekk út af sýningunni fannst
mér ég hafa hlotið nokkra endurmenntun í
ýmsu sem vert að hafa stöðugt í huga, t.d.
um að dramb er falli næst (Svinahirðirinn,
Hans klaufi), um sam- og mannúð (Litla
stúlkan með eldspýturnar), um raunveruleg
verðmæti (Næturgalinn), um dómhörku (Ljóti
andarunginn) og að ástin sigrar (Eldfærin)
- allt partur af því að gera sígildar sögur
H.C. Andersens sígildar. En mest hafði ég
auðvitað verið minntur á það hversu gaman
er í leikhúsi þegar það er gaman.
Höfundur er ritstjóri og áhugaleikari.