Börn og menning - 01.09.2011, Qupperneq 6
6
Börn og menning
í þessum stutta pistli leyfi ég huganum
að reika nokkur ár aftur í tímann og deila
með ykkur vangaveltum um málefni sem
mér er hugleikið. Ég hef alltaf haft gaman
af heimspeki og hef lesið margar bækur
sem henni tengjast auk þess að sækja
heimspekinámskeið, bæði í námi mínu
erlendis og hér heima. Heimspeki snýst að
miklu leyti um gagnrýna hugsun sem ég er
mjög hlynntur og því sem af henni skapast.
Kennsluferill minn hófst i grunnskóla,
Viðistaðaskóla, þar sem ég starfaði í fimm ár.
í upphafi kennslu átti ég von á því að verða
var við gagnrýna hugsun meðal nemenda
enda skólastofan kjörinn vettvangur tii slíkrar
iðju. Á fyrsta starfsárinu fóru þó að renna á
mig tvær grímur. Ég átti mjög erfitt með að
virkja gagnrýna hugsun hjá nemendunum
þar sem námsefnið bauð ekki sérstaklega
upp á hana. Því þurfti ég sifellt að taka
kennsluefnið öðrum tökum en ætlast var
til svo að nemendur hefðu möguleika á að
vinna með efnið á gagnrýninn hátt. Nú má
ekki misskilja mig og halda að gagnrýna
hugsun sé hvergi að finna í grunnskólum
landsins því vissulega er hún þar, hún er bara
hvergi höfð sem aðaláhersla námsgreina.
Eftir þetta fyrsta ár mitt ákvað ég að ræða
við stjórnendur skólans og athuga hvort ég
mætti ekki skipuleggja valfag í heimspeki
fyrir 9. og 10. bekk þar sem höfuðáhersla
yrði lögð á gagnrýna hugsun. Þetta var
auðsótt og næsta skólaár hóf ég kennslu
í heimspeki. Ég renndi blint í sjóinn með
ákveðna hugmyndafræði sem ég síðan
mótaði áfram eftir þvi hvernig nemendur
mínir tóku efninu. (stuttu máli sagt byrjaði
ég á Sókratesi og færði mig síðan nær
og nær nútímanum og að endingu tók
ég fyrir núlifandi heimspekinga. Ég fór yfir
hugmyndafræði hvers heimspekings fyrir
sig og lét nemendur nálgast efnið á sinn
hátt og móta sínar hugsanir út frá þvi.
Þannig sköpuðust mjög líflegar umræður.
Þessi aðferðafræði sló í gegn hjá krökkunum
og áhuginn varð svo mikill að tilhlökkun
var að mæta í tímana. Á næsta skólaári
hafði nemendafjöldinn margfaldast og skipta
þurfti nemendum upp í nokkra hópa. Eins og
kennara er siður þróaði ég námsefnið áfram
meðan nemendur drukku það í sig, opnuðu
sig og tjáðu sig hver í kapp við annan.
Svona gekk þetta í þrjú ár og ég fullyrði
að flestir nemendur í 9. og 10. bekk tóku
umræddan heimspekiáfanga sem valfag. Nú
eru sex ár liðin síðan ég kvaddi þennan góða
grunnskóla og hóf kennslu i framhaldsskóla
en mér skilst að heimspeki sé enn kennd við
skólann.
En hver er tilgangurinn með þessari
upprifjun? Jú, að fá þig, lesandi góður, til
að velta fyrir þér hvort gagnrýnin hugsun fái
næga athygli og sé kennd á nógu markvissan
hátt í grunnskólum landsins. Undirritaður
er þeirrar skoðunar að skólinn væri í það
minnsta ekki verr settur ef nemendur fengju
þess notið, einhvern tímann á skólagöngunni,
að vinna eingöngu með gagnrýna hugsun.
Um þetta getum við væntanlega öll verið
sammála. Það eru nefnilega ótrúlegir hlutir
sem gerast í kollinum á þessum yndislegu
börnum, hugmyndir kvikna sem eiga rétt
á að fá útrás og skólakerfið á að vera
vettvangur slíkra hugmynda. Sem kennari
er frábært að fá að upplifa að vinna með
nemendum sem hugsa á gagnrýninn máta
og skapa með þeim umhverfi þar sem þeir
leyfa sér að gagnrýna stefnur og strauma í
samfélagi okkar, á uppbyggilegan hátt, því
gagnrýni ætti ávallt að skoðast sem rýni til
gagns. Börn eiga að fá að segja mér finnst...
Höfundur er framhaldskólakennari og
áhugamaður um heimspeki