Rit Mógilsár - jun. 2002, Side 2
2
1 SAMANTEKT
Arnór Snorrason og Stefán Freyr Einarsson. Landsúttekt á
skógræktarskilyrðum. Áfangaskýrsla 1997 – 2002 fyrir Suðurland og
Suðvesturland. Rit Mógilsár Rannsóknastöðvar Skógræktar nr.14/2002.
68 s.
Árið 1997 var hafist handa við nýja úttekt á skógræktarskilyrðum á
Íslandi. Markmið hennar er að geta lýst betur vaxtarskilyrðum helstu
trjátegunda í skóg- og trjárækt, en þær eru eftirtaldar:
1.Ilmbjörk (Betula pubescens Ehrh.).
2.Alaskaösp (Populus trichocarpa Torr. & Gray).
3.Ilmreynir (Sorbus aucuparia L.).
4.Hraðvaxta víðir sem eru alaskavíðir (Salix alaxensis Cov.) og viðja (S.
myrsinifolia Salisb.).
5.Grenitegundirnar sitkagreni (Picea sitchensis (Bong.)Carr.),
blágreni (P. engelmannii (Parry), hvítgreni (P. glauca (Moench) Voss.) og
rauðgreni (P. abies (L.) Karst.).
6.Stafafura (Pinus contorta Dougl.).
7.Síberíulerki (Larix sibirica Ledeb) (þ.e. rússa- og síberíulerki).
Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir frumniðurstöðum trjámælingahluta
úttektarinnar á Suðurlandi og Suðvesturlandi sunnan Mógilsár. Þegar er
búið að birta samsvarandi skýrslur fyrir Vestfirði, Vesturland, Norðurland
og Austurland (Arnór Snorrason ofl. 2001a, 2001b, 2001c og 2002).
Mælingarnar fóru fram sumarið 2001. Reynt var að leggja út net
mælistaða fyrir hverja tegund. Viðmiðunarfjarlægð milli mælipunkta var
15 km fyrir birki, alaskaösp, alaskavíði, sitkagreni, stafafuru og
síberíulerki en 20 km fyrir aðrar tegundir. Mælingar á sitkabastarði (Picea
x lutzii Little) falla undir sama flokk og sitkagrenimælingar. Mælingarnar
eru nokkuð hefðbundnar trjámælingar er gefa möguleika á útreikningi á
bolrúmmáli, meðalársvexti og árlegum vexti bolrúmmáls standandi trjáa.
Einnig var safnað upplýsingum um umhverfi hvers mæliflatar. Alls voru
gerðar 360 mælingar á 169 stöðum. Niðurstöður eru birtar fyrir þrjá
mæliþætti vaxtar, þ.e. yfirhæð, bolrúmmál standandi trjáa og
meðalársvöxt standandi trjáa á flatareiningu. Túlkun á niðurstöðum er
látinn liggja milli hluta en varað er við ýmsum hættum við oftúlkun
niðurstaðna. Fara verður varlega við áframhaldandi úrvinnslu
niðurstaðna og taka tillit til þess að mælifletirnir eru misjafnir varðandi
þætti sem hafa áhrif á bolrúmmál og vöxt standandi trjáa. Þetta eru
þættir eins og upphafsþéttleiki ræktunar, grisjanir og grisjunarstyrkur.
Lykilorð: trjámælingar, yfirhæð, bolrúmmál standandi trjáa,
meðalársvöxtur bolrúmmáls.