Rit Mógilsár - jún. 2002, Page 5
5
3 INNGANGUR
Í byrjun áttunda áratugarins var framkvæmd af Rannsóknastöð
Skógræktar ríkisins á Mógilsá fyrsta heildstæða landsúttekt á
skógræktarskilyrðum hérlendis (Haukur Ragnarsson 1977). Í ljósi
breyttra áherslna í skógrækt og aukins fjölda mælanlegra skógarreita
þótti tímabært að endurtaka slíka landsúttekt með það að leiðarljósi að
geta lagt fram nákvæmari niðurstöður um vaxtarskilyrði helstu
trjátegunda í skóg- og trjárækt hér á landi. Einn þáttur úttektar á
skógræktarskilyrðum er að afla upplýsinga um vöxt og viðgang
trjátegunda, en það er gert með trjámælingum.
Alls voru mældir 1940 reitir á öllu landinu og tóku trjámælingarnar þrjú
sumur.
Undirbúningur og mótun verkefnisins hófst veturinn 1997-98. Þá var
meðal annars ákveðið að takmarka úttektina við eftirfarandi
trjátegundahópa en innan þeirra eru allar þær trjátegundir sem mestu
máli skipta í nútíma skógrækt og skjólbeltarækt hér á landi. Þeir eru:
1. Ilmbjörk (Betula pubescens Ehrh.).
2. Alaskaösp (Populus trichocarpa Torr. & Gray).
3. Ilmreynir (Sorbus aucuparia L.).
4. Hraðvaxta víðir (alaskavíðir (Salix alaxensis Cov.) og viðja (S.
myrsinifolia Salisb.)).
5. Grenitegundirnar sitkagreni (Picea sitchensis (Bong.)Carr.),
blágreni (P. engelmannii (Parry), hvítgreni (P. glauca (Moench)
Voss.) og rauðgreni (P. abies (L.) Karst.).
6. Stafafura (Pinus contorta Dougl.).
7. Síberíulerki (Larix sibirica Ledeb) (þ.e. rússa- og síberíulerki).
4 EFNI OG AÐFERÐIR
4.1 Forúttekt
Sumarið 1998 var hafist handa við að safna almennum upplýsingum um
skógræktarreiti, trjáreiti og trjágróður í görðum utan stærri bæja. Safnað
var upplýsingum um allan trjágróður sem var gróðursettur fyrir 15 árum
eða fyrr, þ.e. fyrir 1985 eða var búinn að ná um 2 m hæð eða meira.
Fyrir skjólbelti með hraðvaxta víðitegundum voru mörkin sett við 5 ára
aldur frá gróðursetningu, þ.e. fyrir árið 1995 auk sömu hæðarmarka.
Auk starfsmanna á Mógilsá tók fjöldi annarra starfsmanna Skógræktar