Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2013, Síða 53
53
vagninum sat svo föruneyti þeirra –
álfaprins og álfaprinsessa sem ætla mátti að
konungshjónin héldu til að gleðja hinsegin
hvatir sínar. Nú hafði væntanlegur álfaprins
skyndilega forfallast og þar sem ég stóð
þarna var ég beðinn um að hlaupa í skarðið.
Eftir stutta umhugsun sagði ég já og var
þegar í stað settur í hlutverkið og upp á
vagninn.
Tíminn var naumur og ég var allt
annað en undirbúinn. Ég passaði þó í
leikhúsbúninginn sem var úr þykku flaueli
en þurfti að mála mig sjálfur. Ég hafði ekki
mikla reynslu af slíku og var ótæpilega
lengi að því verki. Það fannst að minnsta
kosti þáverandi formanni Samtakanna ´78,
Þorvaldi Kristinssyni („Karlmenn eiga að
vera fljótir að mála sig“), sem var nærri
búinn að læsa mig inni í húsakynnum
Samtakanna þegar allir aðrir voru farnir út
úr húsinu og upp á Hlemm. Ég hefði að vísu
viljað hafa lengri tíma til að mála mig en
náði samt á Hlemm á síðustu stundu og upp
á vagninn.
Ingólfstorg, Nelly’s og Spotlight
Þetta var sólríkur og spennandi dagur –
ögrandi og afhjúpandi. Það var óvenju hlýtt
í veðri og ekki var búningurinn til að kæla
mig, úr þykku flaueli, en álfaprinsinn naut
engu að síður ferðarinnar niður Laugaveg,
Bankastræti og Austurstræti þar sem hann
sat sveittur á vagninum. Þegar gangan
kom á áfangastað hófust skemmtiatriði á
Ingólfstorgi og þar ávarpaði álfakóngurinn
gesti – og auðvitað með prinsinn dygga sér
við hlið. Mér hafði verið kastað út í djúpu
laugina, en það var bara hressandi og eftir
þetta þurftu engir minna vina, kunningja,
vinnufélaga og skólafélaga að velkjast í vafa
um kynhneigð mína.
Þegar ég var búinn að koma
búningnum í geymslu og kæla mig niður
tóku við kokteilar og kaffi hér og þar um
miðborgina, og eftir stutta viðkomu á
Nelly’s var endað á Spotlight sem þá átti
sitt blómaskeið á horni Hverfisgötu og
Ingólfsstrætis. Þar var hvorki sparaður
engisprettu- né kosmókokteillinn.
Ekki finnst mér langt síðan þetta var,
en samt eru liðin þrettán ár og margt getur
gerst – og hefur gerst – á þrettán árum.
Ég hef tekið þátt í ófáum gleðigöngum
síðan, í Reykjavík og Kaupmannahöfn þar
sem ég er búsettur, og svo sannarlega
finnst mér íslenska gleðin jafnast á þá
dönsku á þessum dögum. Danir státa þó
af fleira fólki og Kaupmannahafnargangan
og mannmergðin bera þess merki. Þó
verður andrúmsloftið og félagsskapurinn í
fyrstu gleðigöngunni minni sumarið 2000 í
Reykjavík ávallt efst í huga. Það var eitthvað
einstakt og ógleymanlegt.
Gleðilegan dag – og gleðigöngu!
In the year 2000
Húbert Nói recalls his first Pride Parade,
which also was the first Reykjavík Gay
Pride Parade, in August 2000. He was
barely twenty years old and it was a
year of many firsts. He came out, found
his first boyfriend, began his university
studies and worked as a bartender at the
hottest gay bar in town. At the parade he
suddenly found himself replacing an ill-
disposed participant on one of the parade
floats, dressed as a young fairy prince.
With such a prominent Pride debut, he
discovered that he never again needed to
inform friends and acquaintances of his
sexual orientation. Húbert Nói now lives
in Copenhagen, which boasts of its own
colorful and impressive Pride Parade, but
he can still smell the unique atmosphere
of his very first Reykjavík Pride.