Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2016, Page 12
úr stjórn því ég hafði ekki efni á þessu
lengur. En á því þingi komu skilaboð frá
Evrópusambandinu um styrkveitingar og
síðan þá hefur félagið verið rekið þannig
að stjórnin komi nokkurn veginn skaðlaus
út úr því. Ég var svo skoðunarmaður
reikninga í nokkur ár á eftir og fylgdist
með félaginu vaxa.
Þessi félagsskapur er aldeilis búinn
að sanna sig. Sjö árum eftir að félagið
var stofnað var rekstur þess farinn að
velta hundruðum þúsunda evra og síðast
þegar ég vissi voru starfsmenn félagsins
um tugur. Þetta er mjög mikilvægur
vettvangur. Þau vinna náið með
Evrópusambandinu og ILGA og hafa tekið
að sér ýmis verkefni eins og skráningu á
hatursglæpum gegn trans fólki.
Barátta fyrir lagasetningu
Hver voru helstu baráttumál Trans Íslands til
að byrja með?
Að koma á einhverri lagasetningu um
réttindi trans fólks og breyta afstöðu
heilbrigðiskerfisins. Það var til dæmis
engin aðgerð framkvæmd hér heima frá
2003 til 2009 og það var að hluta til út af
neikvæðni hjá heilbrigðisyfirvöldum.
Fyrstu lögin [lög um réttarstöðu
einstaklinga með kynáttunarvanda] voru
sett árið 2012 og á þeim tíma vorum
við fremst á Norðurlöndunum í þessum
efnum. Þau eru nú þegar orðin úrelt en
svona lagað byggist bara upp sem ferli. Þú
étur ekki allan kjötbitann í einu lagi. Þetta
verður að fá að þróast áfram og núna er
kominn tími á að taka næsta skref.
Eitt skref í einu
Í vinnunni við lögin ræddum við mikið
að bæta þriðja kynjavalmöguleikanum
inn í íslensk vegabréf. Það stóð í rauninni
ekkert í vegi fyrir því að þetta væri hægt
en það eina sem við óttuðumst var að
ef þetta yrði sett inn í frumvarpið myndi
það vekja of mikla neikvæðni á þinginu
og frumvarpið kæmist ekki í gegn. Það er
sannarlega ástæða til að berjast fyrir þessu
en það verður að taka eitt skref í einu.
Það sama á við um að losna við
sjúkdómsstimpilinn; að „kynáttunarvandi“
sé skilgreindur sem sjúkdómur. Ástæðan
fyrir því að við lögðum enga áherslu á að
reyna að fá þessu breytt var einfaldlega
að á þessum tíma var kreppa, það var
verið að skera niður á öllum sviðum og
við óttuðumst að ef transsexúal yrði tekið
út af geðsjúkdómaskrá yrði lokað á allar
aðgerðir. Þegar þessu atriði verður breytt
þarf að koma einhvers konar vernd í
staðinn.
Í öðrum löndum hefur þetta verið
leyst að hluta til með því að leyfa fólki að
breyta kyni í þjóðskrá án þess að það þurfi
sjúkdómsgreiningu. En samhliða þessu
hef ég heyrt að til dæmis í Danmörku
hafi myndast aukin neikvæðni gagnvart
leiðréttingaraðgerðum, svo þetta er ekki
einfalt mál.
Gjörbreytt umræða og sýnileiki
Gríðarlega margt hefur breyst á aðeins tíu
árum; stór hluti af ungliðum Samtakanna
‘78 eru trans og kynsegin og umræða um
þessi málefni hefur stóraukist. Hvað gerðist
eiginlega?
Þörfin fyrir sýnileika hefur alltaf verið fyrir
hendi en það vantaði andlit fyrir hópinn
og það vantaði félagsskap. Um leið og
þetta er komið fer fólk smám saman
að koma út úr skápnum og samfélagið
byggist upp. Til að byrja með voru til
dæmis engir trans strákar tilbúnir að koma
fram opinberlega. Ein aðalástæðan var sú
að þeir höfðu ekkert andlit hérna heima.
Nú er kominn nokkuð stór hópur af fólki
sem er andlit trans fólks á Íslandi og það
er stærsta breytingin, finnst mér.
Fólk veit líka miklu meira í dag en
það vissi þá. Umræðan hefur gjörbreyst
og hugmyndir fólks um trans fólk líka.
Leyndarhjúpurinn var versti óvinur okkar.
Þegar ég byrjaði að blogga fyrir mörgum
árum síðan heyrði ég til dæmis að fólk
hefði verið hissa á því að ég gæti skrifað
því það hélt að ég væri bara eitthvert fífl.
Þetta var almenna viðhorfið. Það var litið á
okkur sem eins konar rugludalla.
Búin að afhenda keflið til næstu
kynslóðar
Nú er komin fram ný kynslóð og áherslur í
transbaráttunni hafa breyst. Hvað finnst þér
um það?
Það er eins með transmálefni og allt
annað í íslensku samfélagi á síðustu
áratugum; þetta er bara þróun. Nú er
lögð aukin áhersla á ýmislegt annað en
transsexúal fólk og það er bara eðlilegt.
Við verðum að leyfa ungu kynslóðinni að
taka við; það veitir ekki af því. Ég er komin
á þann aldur að ég er farin að draga mig
út úr þessu. Ég lít svo á að mínum þætti sé
að mestu leyti lokið og er búin að afhenda
keflið til næstu kynslóðar. Nú sný ég mér
að öðrum hlutum.
Anna gengur með Samtökunum ‘78 í gleðigöngu Hinsegin daga árið 2011. Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson.
12