Hinsegin dagar í Reykjavík - ágú. 2016, Blaðsíða 17
heildsölu og það fannst okkur sniðugt. Á
fundinum var sambýliskona mín, Stella
Hauksdóttir, kosin talskona félagsins og
tók sæti í húsráði Kvennahússins fyrir
hönd félagsins. Á stofnfundinum veltum
við fyrir okkur hvort við ættum að hafa
félagaskrá en það þótti ekki æskilegt því
margar voru ekki komnar svo langt í að
opinbera kynhneigð sína að þær vildu
vera á slíkri skrá þótt þær tækju þátt í því
sem við vorum að gera. Ári seinna voru 20
komnar á félagaskrá og fengu fréttabréf
sem ég sá um útgáfu á.
Kjarninn í félaginu var konur sem
þekktust vel og svo buðu þær öðrum
sem þær þekktu. Við auglýstum viðburði
okkar líka í Þjóðviljanum. Þetta var svona
hringur sem stækkaði og stækkaði. Svo
var auðvitað símaráðgjöf í Samtökunum
sem hópur sjálfboðaliða sinnti og var ég
í þeim hópi um tíma. Stundum hittum
við konur á kaffihúsi sem höfðu hringt í
ráðgjafasímann og langaði að ræða málin
betur. Sumar þeirra stigu skrefið áfram;
aðrar sáum við aldrei aftur.
Baráttan og sýnileikinn
Ég byrjaði með Stellu þegar ég kom út
árið 1984. Sonur minn var þá sex ára og
sonur hennar tólf ára. Þau fluttu til okkar
frá Vestmannaeyjum og á heimili okkar
varð fljótlega mikill gestagangur. Mörgum
fannst spennandi að fá að koma inn á
heimili þar sem tvær konur bjuggu saman
með börn og voru eins og venjuleg
fjölskylda. Við vorum staðfesting á því að
þetta væri hægt og það gaf mörgum von.
Við bjuggum á Lindargötunni, í næsta
nágrenni við hús Samtakanna ’78, svo það
var stutt að fara. Skólafélagar strákanna
lærðu líka að það væri hægt að eiga
tvær mömmur enda vorum við ekkert
að fela og krakkarnir voru velkomnir á
heimilið. Sonur minn sagði einhvern
tíma í blaðaviðtali að heimilið hefði verið
eins og félagsmiðstöð. Hann ólst upp
við að hitta nýtt fólk og fannst það bara
skemmtilegt. Stundum voru líka útlendir
gestir því þegar Kvennahúsið var við lýði
leituðu erlendar lesbíur þangað til að
komast í kynni við lesbíur á Íslandi. Ég
man eftir nokkrum sem komu til okkar og
fengu jafnvel að gista.
Við Stella fórum í viðtal í Mannlífi árið
1987 ásamt fleiri lesbíum og það vakti
mikla athygli. Þetta var í fyrsta skipti
sem lesbíur voru framan á tímariti og
blaðið seldist vel. Reyndar hafði birst
viðtal við Láru Marteinsdóttur og Lilju
Steingrímsdóttur í Helgarpóstinum árið
1983 og það var fyrsta opinbera viðtalið
við lesbíur á Íslandi. Greinin í Mannlífi
var virkilega vel unnin; þar var kafli um
sögu lesbía ásamt viðtölunum. Ég heyrði
konur segja eftir það hvað það hefði verið
mikilvægt fyrir þær að lesa þetta blað og
sjá að það væru í alvöru til lesbíur og að
það væri mögulegt að lifa opnu lífi.
Voru dæmi um að konur væru reknar út af
heimilum sínum þegar þær komu út?
Ég veit það nú ekki en þetta var löng og
ströng barátta og mörgum fannst erfitt að
segja foreldrum sínum frá eða koma út á
vinnustað sínum. Fólk gat átt á hættu að
vera rekið úr vinnu eða sagt upp húsnæði
fyrir það eitt að opinbera kynhneigð
sína. Sem dæmi um tíðarandann má
líka nefna að orðin hommi og lesbía
máttu ekki heyrast í Ríkisútvarpinu og
málfarsráðunautar reyndu að búa til orð
sem sæmdi þeirri virðulegu stofnun. Mig
minnir að það hafi verið orðið kynhverfur
og að orðið kynvís hafi verið notað um
gagnkynhneigð. Stundum rekst ég á þessi
orð enn í gömlum þýðingum í sjónvarpi.
Pólitísk áhrif
Tilvera Íslensk-lesbíska var bundin
herberginu í Kvennahúsinu. Þegar
íslenskar konur ákváðu að kaupa
húsin á Vesturgötu 3, sem þær skírðu
Hlaðvarpann, lokaði Kvennahúsið á Hótel
Vík og starfsemi kvennahreyfingarinnar
fluttist í Hlaðvarpann. Kvennalistinn flutti
reyndar á Laugaveg 17 ásamt tímaritinu
GREININ Í MANNLÍFI VAR
VIRKILEGA VEL UNNIN; ÞAR
VAR KAFLI UM SÖGU LESBÍA
ÁSAMT VIÐTÖLUNUM. ÉG
HEYRÐI KONUR SEGJA EFTIR
ÞAÐ HVAÐ ÞAÐ HEFÐI VERIÐ
MIKILVÆGT FYRIR ÞÆR AÐ
LESA ÞETTA BLAÐ OG SJÁ
AÐ ÞAÐ VÆRU Í ALVÖRU TIL
LESBÍUR OG AÐ ÞAÐ VÆRI
MÖGULEGT AÐ LIFA OPNU LÍFI.
Veru og við Stella vorum virkar þar. Sama
ár og Íslensk-lesbíska var stofnað lagði
Kristín Kvaran, þingkona Bandalags
jafnaðarmanna, ásamt fleirum fram
þingsályktunartillögu um afnám misréttis
gagnvart samkynhneigðu fólki. Sú tillaga
dagaði uppi í félagsmálanefnd en í
desember 1991 lagði Ingibjörg Sólrún
Gísladóttir ásamt fleiri þingmönnum fram
þingsályktunartillögu um skipun nefndar
til að kanna stöðu samkynhneigðs fólks.
Samþykkt þeirrar tillögu 19. maí 1992
olli straumhvörfum í réttindabaráttunni
en þar lýsti Alþingi yfir vilja sínum
til að tryggja að misrétti gagnvart
samkynhneigðum ætti sér ekki stað hér
á landi.
Árið 1988 fór stór hópur íslenskra
kvenna á norrænu kvennaráðstefnuna
Nordisk Forum í Ósló og þar á meðal
voru nokkrar úr okkar hópi. Þá nýttum
við meðal annars tækifærið og hlýddum
á danska konu segja frá starfi sínu við að
hjálpa lesbíum að verða barnshafandi.
Fjöldi barna hafði orðið til með
hennar aðstoð en hún notaði gjarnan
kampavínsglas til að flytja sæði á milli.
Þetta var alveg nýtt fyrir okkur og við
létum okkur dreyma um að íslenskar
lesbíur gætu eignast börn í framtíðinni,
eins og raunin hefur orðið.
Hvað varð um félagið þegar það hafði
engan samastað?
Það lagðist bara niður en kjarninn hélt
áfram að starfa innan Samtakanna. Árið
1989 varð Lana Kolbrún Eddudóttir
formaður, fyrst kvenna, og síðan tóku
fleiri konur við, Guðrún Gísladóttir og
Margrét Pála Ólafsdóttir. Málefni kvenna
urðu þar með sýnilegri en samt þótti
ástæða til þess nokkrum árum seinna að
stofna sérstakan kvennahóp, KMK (Konur
með konum), sem hélt uppi svipuðu
félagsstarfi og Íslensk-lesbíska gerði áður.
Trúarhópurinn
Árið 1991 fór ég að kynna mér
kvennaguðfræði, sem er femínísk
guðfræði á forsendum kvenna, og ég var
ein af stofnendum Kvennakirkjunnar árið
1993. Sú reynsla hvatti mig til að vinna
í trúnni á forsendum samkynhneigðar
sem er í raun sama hugsunin og í
kvennaguðfræði, það er að finna að Guð
elskar okkur eins og hún skapaði okkur.
Við megum vera eins og við erum og
eigum ekki að láta mótaðar hugmyndir
um kyn eða kynhneigð kúga okkur. Af
sama meiði er frelsunarguðfræði svartra
og annarra minnihlutahópa.
Árið 1993 var Haukur F. Hannesson,
sem hafði búið í Svíþjóð, búsettur
hér á landi og hann hóaði saman
áhugasömu fólki sem stofnaði Trúarhóp
Samtakanna ’78. Við héldum helgistundir
í húsnæði Samtakanna eða í kirkjum og
17