Hinsegin dagar í Reykjavík - aug 2016, Qupperneq 18
fengum til liðs við okkur ýmsa presta
úr þjóðkirkjunni sem um leið voru að
kynnast okkur. Það var mikilvægur
þáttur starfsins sem skilaði sér í góðu
stuðningsfólki innan kirkjunnar.
Meðfram helgihaldi var stefna
okkar að koma á formlegri samræðu við
kirkjuna um málefni samkynhneigðra sem
var stutt á veg komin á þessum árum.
Fyrir hönd kirkjunnar sá Ragnheiður
Sverrisdóttir, djákni og fræðslufulltrúi
á Biskupsstofu, um þetta samstarf sem
endaði með málþingi snemma árs 1996.
Það var mikilvægur áfangi að hlusta
á Björn Björnsson, siðfræðiprófessor
í guðfræðideild HÍ, taka afgerandi
afstöðu með okkar málstað á þessu
málþingi. Arftaki hans í starfi, Ólafur
Oddur Jónsson, prestur í Keflavík, var líka
ötull stuðningsmaður okkar á meðan
hann lifði. Um þetta leyti voru lögin um
staðfesta samvist að komast á lokastig og
kirkjan varð að horfast í augu við það sem
var að gerast.
Stór stund
Einn af eftirminnilegustu atburðunum
sem Trúarhópurinn stóð fyrir var
samvera í Fríkirkjunni kl. 23.30 þann
26. júní 1996. Þar fögnuðum við
saman þeirri stóru stund þegar lögin
um staðfesta samvist gengu í gildi
27. júní, á alþjóðlegum baráttudegi
samkynhneigðra. Hvað varðar þann
áfanga er mikilvægt að minnast þess
mikla starfs sem fulltrúar okkar í nefnd
um málefni samkynhneigðra, Lana
Kolbrún Eddudóttir og Guðni Baldursson,
lögðu af mörkum. Sú nefnd var skipuð
af Alþingi eftir þingsályktunina frá 1992
og lagði drög að lögunum um staðfesta
samvist. Það var stór stund þegar Lana og
Jóka, ásamt fjölda annarra para, gengu
í staðfesta samvist um leið og það var
leyfilegt. Þá var gaman að fagna með
Vigdísi forseta og Ingibjörgu Sólrúnu
borgarstjóra í Borgarleikhúsinu.
Samtalið við kirkjuna
Ég var blaðamaður á Mannlífi árið 1996
og fór til Stokkhólms til að vera viðstödd
þegar Haukur F. Hannesson gekk að eiga
sambýlismann sinn, Jörgen Boman, og
skrifaði um það í blaðið. Þeir fóru fyrst til
borgarfógeta en síðan í kirkju þar sem
prestur blessaði sambúð þeirra. Slíkar
athafnir höfðu þá ekki átt sér stað hér á
landi en skömmu seinna byrjuðu prestar
að blessa pör sem staðfestu samvist sína.
Fyrsta athöfnin sem ég vissi um var þegar
séra Auður Eir Vilhjálmsdóttir blessaði
Guðmund blómasala og Villa, sem einmitt
voru félagar í Trúarhópnum.
Eftir að Haukur flutti aftur til Svíþjóðar
kom það yfirleitt í minn hlut að tala fyrir
hönd Trúarhópsins. Ég kom bæði fram í
sjónvarpi og útvarpi þegar ræða þurfti
við presta í tengslum við ályktanir þeirra
á prestastefnu eða kirkjuþingi þar sem
seint gekk að samþykkja stuðning við
málefni samkynhneigðra. Ég talaði líka á
málþingum í HÍ og á öðru þeirra tókumst
við Karl biskup á um málin.
Tregðan innan kirkjunnar varð til þess
að margt samkynhneigt fólk varð henni
andsnúið og það bitnaði á Trúarhópnum.
Okkur tókst ekki að koma því nógu vel til
skila að við vorum sjálfstæður hópur sem
iðkaði trúna á eigin forsendum en bar
ekki ábyrgð á stefnu þjóðkirkjunnar. Fyrir
mér er trúin það mikilvæg að ég læt ekki
fordóma fólks innan kirkjunnar taka hana
frá mér. Það varð mér mikil upplyfting að
fara til New York árið 1999 og kynna mér
starf kirkju samkynhneigðra þar í landi,
Metropolitan Community Church (MCC),
sem heldur úti öflugu trúarstarfi víða um
heim. Árið 2001 fór ég á mót norrænna
trúarhópa samkynhneigðra í Gautaborg
ásamt Guðrúnu K. Guðfinnsdóttur og Jóni
Helga Gíslasyni. Það varð okkur hvatning
til að halda starfinu áfram hér heima
en þegar við fundum ekki hljómgrunn
meðal félaga okkar var félaginu sjálfhætt
nokkrum árum síðar.
Mikilvægt að við reynum að skilja
hvert annað
Á þeim rúmu 30 árum sem liðin eru
frá því ég gekk til liðs við Samtökin
’78 hafa ótrúlega margir sigrar unnist.
Stundum er eins og ekkert sé eftir –
við megum giftast, eignast börn og
höfum öll mannréttindi sem aðrir hafa í
samfélaginu. En það koma alltaf upp ný
mál sem takast þarf á við. Undanfarið
hafa mikil átök átt sér stað innan hinsegin
samfélagsins sem ég vona að leysist
farsællega. Þau snúast meðal annars um
það að eldri félögum finnst þau komin í
minnihluta eftir því sem fjölbreytileikinn
innan félagsins eykst. Í því efni finnst mér
mikilvægt að við dæmum ekki á sama
hátt og við vorum dæmd á árum áður.
Það eru ekki allir eins; það getur verið
erfitt að horfast í augu við þá staðreynd
en er um leið mikil áskorun. Við þurfum
að tala saman, kynslóðir hinsegin fólks, og
reyna að skilja hvert annað. Vonandi tekst
okkur það!
Hluti af Trúarhópnum í Skálholti árið 1996. Með þeim er Ragnhildur Sverrisdóttir djákni og fræðslufulltrúi á
Biskupsstofu og prestarnir Gunnar Rúnar Matthíasson og Auður Eir Vilhjálmsdóttir.
Forsíða Mannlífs sumarið
1996 þar sem ég skrifaði um
það þegar samband Hauks
og Jörgens var blessað í
kirkju í Stokkhólmi. Það
var stórt skref að fá birta
mynd af tveimur hommum
og presti á forsíðu blaðs á
þessum tíma.
18