Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2016, Side 58

Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2016, Side 58
löngu seinna var ég farinn að taka þátt í skemmtanalífi og félagsstarfi homma og lesbía í Ósló. Fyrirmynd okkar og leiðtogi þar var einstök kona, Kim Friele, og af henni lærði ég þá afstöðu til lífsins sem lengi hefur dugað mér: „Homofili er en verdig livsstil!““ Upprennandi stjarna Árin liðu og mannlífið skipti um svip, líka á Hótel Borg. Nú áttu unglingar á Vesturlöndum sína sérstöku menningu og hennar sá sannarlega stað á Borginni. Gömlu danshljómsveitirnar hurfu smám saman af vettvangi og við tók diskótek unga fólksins. Nú varð staðurinn líka mikilvægur vettvangur upprennandi hljómsveita og í miðri viku hljómaði íslenskt rokk og pönk um sali. Skömmu fyrir 1980 var öll jarðhæðin opin á diskóteki helgarinnar og undirlögð ungu fólki úr öllum áttum. Athvarf hommanna innst í húsinu var þá orðið svipur hjá sjón en samt voru þeir þarna, talvert yngri en áður og skemmtu sér með öðrum gestum. Um svipað leyti urðu svo ungu lesbíurnar sýnilegar í sölunum. Bubbi Morthens var í hópi gestanna á Borginni og var farinn að troða þar upp öðru hvoru, upprennandi stjarna sem sendi frá sér sína fyrstu breiðskífu, Ísbjarnarblús, árið 1980: „Ég átti fína kunningja meðal hommanna og tók vel eftir því sem var að gerast. Þetta voru stundum vondir tímar, sérstaklega eftir að strákarnir tóku að svara fyrir sig. Ef hvolft var úr glasi yfir homma var hann dreginn á dyr, ekki sá sem skvetti úr glasinu. Þetta sá ég. Svo komu dagar og vikur þegar þeir gátu skemmt sér óáreittir og voru meira að segja farnir að dansa saman. Aftur komu þeir tímar þegar dyraverðir höfðu þá á hornum sér, neituðu að hleypa þeim inn, „allt fullt inni“, og strákarnir ekki í náðinni það kvöldið. Enn snerist vindáttin, aftur komu góðir tímar og mannúðlegri, nýir dyraverðir í gættinni og allir skemmtu sér vandræðalaust.“ Bubbi minnist sérstaklega tveggja slíkra liðsmanna: „Upp úr 1980 tóku Jón Páll Sigmarsson og Hjalti „Úrsus“ Árnason við dyravörslunni einn veturinn og höfðu allt annað viðhorf og nútímalegra til samkynhneigðu gestanna en maður átti að venjast. Ég þekkti einn ungan homma sem stundaði Borgina, ætli hann hafi ekki verið 17 ára þegar hann birtist fyrst, kjaftfor ef að honum var sótt, einn af þeim sem létu engan eiga neitt hjá sér. Ég var orðinn handgenginn starfsfólkinu um þetta leyti svo ég bað þá Jón Pál og Hjalta að hafa auga með stráknum, gæta hans svo hann kæmi sér ekki í óþarfa klandur og yrði fyrir barsmíðum. Og það gerðu þeir eins og góðir feður.“ Og þá varð til lag Hvað sem þessum sviptingum leið hafði Borgin sérstöðu meðal skemmtistaða á níunda áratugnum. Dyraverðirnir sýndu aldrei það ofbeldi sem þekktist á öðrum stöðum og gerði skemmtanalíf homma um tíma að hreinu helvíti. Það þótti ekkert grín að lenda í dyravörðunum á vinsælum stöðum eins og Óðali og Casablanca við Skúlagötu þegar þeir gengu í skrokk á mönnum og misþyrmdu þeim fyrir það eitt að stíga þar inn um dyr. Þeim fáu kærum sem bárust lögreglu var stungið ofan í skúffu. „Og það var einhvers staðar mitt í öllu þessu ofbeldi,“ segir Bubbi, „sem ég samdi sönginn um strákana á Borginni. Sumt í textanum átti þó reyndar frekar við hörkuna á hinum stöðunum en Borgina þekkti ég best og þá varð til lag, inspírerað af kabarettmúsík millistríðsáranna í Berlín.“ Lagið hefur lifað, minning um líf sem einu sinni var. „Strákarnir á Borginni“ reyndist þó eftir á að hyggja kveðjusöngur til fortíðarinnar því nú voru að renna upp nýir tímar. Barinn inn af Gyllta sal var ekki lengur sá vettvangur ættarmótsins og verið hafði. Samkynhneigðir fóru víða á næstu árum og laust fyrir 1990 lá leið þeirra flestra á Laugaveg 22. Þar var orðinn til staður sem bauð lesbíur og homma velkomin á þeirra á eigin forsendum, feluleikir á undanhaldi og auðmýkingar ekki lengur einkamál þeirra sem fyrir þeim urðu. Leyndur kraftur Barinn á Borginni er nú horfinn í sinni gömlu mynd og sjófuglarnir flognir, en ennþá lifa minningar um fortíð, bæði sæta og súra. Þótt menn ættu forðum daga oft undir högg að sækja þá kunna þeir líka að segja frá leyndum krafti sem kann að koma flatt upp á þá sem trúa því að heimurinn stefni stöðugt í eina og sömu átt – til framfara. Jón Þorsteinsson á síðasta orðið: „Auðvitað var lífið litað af feluleik þessara ára og það tók okkur ár og daga að finna útleiðina, það voru þeir tímar. En þegar ég hugsa til baka þá man ég líka mikla fegurð í nautninni sem fylgdi ástarlífinu og þessi fegurð nærðist, svo undarlegt sem það er, á öllu því sem við urðum að fela fyrir heiminum. Núna má hamingjan sjást utan á manni daginn eftir ástarnótt, ef hún er þá til staðar, en þarna var maður alltaf dauðhræddur við að hamingjan sæist á manni, að maður kæmi upp um hana. Og þá gerðist það furðulega, við það að fela hamingjuna þá óx hún innra með manni.“ Bubbi Morthens, Jón Þorsteinsson, Veturliði Guðnason og Þórir Björnsson eru helstu heimildamenn þessarar greinar. Höfundur þakkar þeim framlag þeirra. Bu bb i M or th en s á tó nl ei ku m á B or gi nn i 1 98 0 58

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.