Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2016, Side 62
Hvernig varð fyrsta gleðigangan til?
Heimir Már (H): Það má rekja upphaf
Hinsegin daga til sumarsins 1999 þegar
Samtökin ‘78 stóðu fyrir svokallaðri Hinsegin
helgi á Ingólfstorgi. Sú hátíð var haldin að
frumkvæði forsvarsmanna Samtakanna
‘78 sem vöknuðu upp við það einn
morguninn að 30 ár voru liðin frá Stonewall-
uppreisninni og vildu minnast þess með
veglegum hátíðahöldum fyrir opnum
tjöldum.
Þorvaldur (Þ): Það tiltæki átti sér raunar
merkilegan undanfara því að 27.
júní 1993 skipulagði hópur fólks úr
Samtökunum ´78 göngu niður Laugaveg
frá húsi félagsins á Lindargötu 49. Ári
síðar tók félagið höndum saman við Félag
samkynhneigðra og tvíkynhneigðra um
sams konar göngu en það hafði verið
stofnað árið áður eftir átök um það hvort
nefna skyldi tvíkynhneigða í undirheiti
Samtakanna 78. Þrátt fyrir blöðrur,
blístrur og fána höfðu þessar göngur
fyrst og fremst yfir sér kröfugöngusvip
og líktust einna helst þeim göngum
sem ég hef gengið með félögum okkar
í Austur-Evrópu, það er að segja þeim
sem komast leiðar sinnar án ofbeldis.
Þetta voru friðsamar göngur, líklega allt
of friðsamar og illa „markaðssettar“ enda
töldu þær hvor um 70 manns. En þær
gerðu viðstöddum afskaplega gott því
leiðina til sjálfsvirðingar tökum við alltaf
skref fyrir skref.
Svo varð sá áfangasigur í sögunni árið
1996 að lög um staðfesta samvist tóku
gildi og allt í einu urðum við miðlæg í
þjóðfélagsumræðunni. Samkynhneigðir
voru ekki nálægt því eins óttaslegnir
og áður, ættingjar okkar fóru að sýna
stuðning í stað þess að blygðast sín
fyrir afkvæmin og smám saman varð til
jarðvegur fyrir annars konar hátíð og
fyrirferðarmeiri.
H: Hinsegin helgin 1999 var stórglæsileg
og vakti mikla athygli. Þá var engin
ganga en haldin var stór útiskemmtun á
Ingólfstorgi og stjórnmálamenn úr öllum
flokkum mættu til að taka þátt. Það var á
þessu augnabliki sem ég gerði mér grein
fyrir að nú væri kominn vendipunktur í
íslensku samfélagi varðandi viðhorf til
samkynhneigðra. Ég sá viðburð, sem hafði
einungis verið auglýstur á samskiptaneti
samkynhneigðra, draga til sín 1500
manns til að syngja og gleðjast saman
og mikla fjölmiðlaathygli. Þarna var
enginn mættur til að gera grín að okkur.
Aðstæður í þjóðfélaginu höfðu greinilega
breyst; við vorum dýpra inni í skápnum en
við þurftum að vera.
Skömmu eftir Hinsegin helgina
talaði ég við forsvarsmenn viðburðarins
og sagði að við þyrtum strax að hefja
undirbúning fyrir risahátíð á næsta ári og
að á þeirri hátíð þyrfti að vera „parade“
eða gleðiganga eins og ég lagði til að
hún yrði kölluð á íslensku. Viðbrögðin
voru blendin og sumir spurðu hvort ég
væri orðinn brjálaður! Undirbúningur
Hinsegin helgarinnar hafði tekið margar
vikur og þau sem höfðu staðið að henni
voru svo uppgefin að þau voru ekki öll
tilbúin að ræða frekari hátíðahöld. Ég
taldi hins vegar að þetta væri verkefni af
þeirri stærðargráðu að undirbúningur
yrði að hefjast undir eins. Fljótlega þar á
eftir boðaði ég til undirbúningsfundar í
Samtökunum ‘78.
Hvernig gekk undirbúningurinn að
fyrstu gleðigöngunni?
H: Fyrsti undirbúningsfundurinn var
haldinn haustið 1999. Margir trúðu
einfaldlega ekki á að í svona fámennu
samfélagi eins og Íslandi myndi takast
að halda nægilega stóra göngu, með
vögnum og atriðum, að erlendum sið.
Menn sögðu að íslenskir hommar og
lesbíur myndu aldrei fást til að klifra
upp á vagna og láta draga sig niður
Laugaveginn, syngjandi og trallandi með
regnbogafánann. Svo mikil var hræðslan.
Hræðsla við að við yrðum aðhlátursefni
62