Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2016, Page 65
E: Galdurinn er að sníða sér stakk eftir
vexti og eiga góðan gjaldkera sem er
skynsamur. Sum árin hafa verið mögur og
þá hefur hátíðin þurft að herða mittisólína
og til dæmis þurft að útiloka alþjóðlega
skemmtikrafta. Í þessu samhengi er
mikilvægt að muna að Reykjavíkurborg
styrkir okkur um fimm milljónir króna
á hverju ári sem skiptir miklu máli hvað
varðar rekstur hátíðarinnar. Við skilum því
til baka með þakklæti og aukinni starfsemi
í miðborginni. Það væri áhugavert að
setja hátíðina upp í Excel og skoða hvað
hún í raun og veru kostar í ólaunuðu
sjálfboðaliðastarfi og hvaða tekjur hún
halar inn.
Svo lengi sem gangan er
grasrótarhreyfing mun hún halda velli.
Ef markaðsskrifsstofur fara að stýra er
voðinn vís. Það sem gerir Hinsegin daga
öðruvísi er að við leyfum ekki auglýsingar
í gleðigöngunni. Þetta er það fallega við
göngudaginn; þar fá mannréttindi okkar
og baráttan fyrir þeim að skína. Ég man
dæmi frá 17. júní eitt árið þar sem ég fór
með frændsystkini mín að hoppa í KFC-
hoppukastala og ég hugsaði með mér: „vá
hvað ég er fegin að hátíðin okkar er ekki
uppblásinn hamborgari.“
Hvaða merkingu hefur hátíðin fyrir
ykkur?
H: Hinsegin dagar og gleðigangan eru jól,
áramót og afmæli allt í senn. Ég tók þátt í
því að búa þessa hátíð til og er gríðarlega
stoltur af því. Ég segi oft að við sem sáum
um skipulagningu hátíðarinnar höfum
gert okkur grein fyrir að við værum búin
að ná til allra þegar heldri frúrnar voru
byrjaðar að mæta í gönguna. Oft gengur
fólk upp að mér og segir að Hinsegin
dagar hafi bjargað lífi þeirra. Þá finn ég að
ég hef gert eitthvað sem er ekki bara fyrir
mig, heldur hef ég gert eitthvað fyrir aðra,
fyrir samfélagið, og að ég hef tekið þátt í
að gera samfélagið á Íslandi aðeins betra
en það var.
Þ: Ég skal játa að eftir því sem hátíðin
varð stærri og glæsilegri og samstarfið
öruggara þá fór mér stundum að leiðast
þetta ævintýri. Ég nærist meira á mótlæti
en ég vil stundum viðurkenna og mér
finnst ég vera til á jörðinni þegar ég er á
leiðinni upp brekkuna. En lífið sér maður
ekki fyrir og mitt í þessum leiða varð
mér eitt árið litið til hliðar á gangstéttina
þar sem við göngufólkið fórum hjá og
sá þar mann sem ég hafði einu sinni átt
við trúnaðarsamtöl um ástir og hneigðir
sem hann leyndi eins og mannsmorði og
þjáðist fyrir. Einn af þeim mönnum sem
alla tíð hafði haldið sig víðsfjarri samfélagi
okkar hommanna. En þarna var hann
mættur og kannski slóst hann í hóp þeirra
sem að lokum mynduðu hala göngunnar
þann daginn, ég veit það ekki. En þá
vissi ég að Hinsegin dagar höfðu breytt
einhverju sem skiptir mig máli.
E: Í hverri einustu gleðigöngu verður
til ákveðið augnablik þar sem allar
tilfinningar hátíðarinnar hellast yfir
mig og ég enduruppgötva af hverju ég
er að þessu og af hverju þetta starf er
svona mikilvægt. Ég held að það mesta
sem hátíðin gefi mér sé að vera virkur
þátttakandi í því að gera heiminn að betri
stað og ef ég get gert eitthvað til að við
tökum tvö skref áfram en ekki aftur á bak,
þá er það skylda mín sem manneskja
að gera það. Þetta er okkar hjartans mál
sem er ástæða þess að ég er formaður
Hinsegin daga í dag.
65