Morgunblaðið - Sunnudagur - 31.01.2021, Page 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 31.01.2021, Page 15
31.1. 2021 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15 „Við leigðum þá íbúð í Breiðholti og það var á laugardagskvöldi að við vorum stödd heima hjá vini okkar. Við höfðum verið þar í tvo sólarhringa á vökunni í neyslu. Þá hring- ir eigandi íbúðarinnar og segir okkur að íbúðin standi í björtu báli. Hann spurði hvort ég hafi gleymt að slökkva á kerti og ég neita því. Við fáum ekkert að fara inn fyrr en daginn eftir og þegar ég kom inn í íbúðina fékk ég taugaáfall. Það var allt farið. Ég lyppast niður og græt og græt; þetta var svo mikið áfall. Það var allt brunnið; allar mynd- irnar af börnunum litlum, öll fótsporin og handaförin úr gifsi sem börnin höfðu gefið mér. Þetta var gríðarlegt áfall. Okkur var boðin áfallahjálp en ég þáði hana ekki. Eftir þetta var ég aftengd og í miklu rugli í níu mánuði. Lífið var hræðilegt á þessum tíma,“ segir hún. „Alla okkar sambúð tók ég amfetamín í nef- ið. Ég svaf lítið. Mynstrið var þannig að ég vakti kannski þrjá sólarhringa og svaf svo einn,“ segir hún. Árið 2012 lauk loks þessu ofbeldissambandi. „Þegar við hættum saman breyttist neyslan mín og ég átti erfitt með að horfast í augu við raunveruleikann. Ég fór að taka inn róandi lyf og svefntöflur. Eins tók ég tímabil þar sem ég prófaði ýmis eiturlyf, en alltaf var amfetamínið til staðar. Lífið var hræðilega erfitt og ég sá börnin mín sjaldan. Þá var öllum orðið ljóst hvað ég var orðin veikur alkóhólisti og allir búnir að loka á mig. Ég umgekkst bara fólk í neyslu og kunni varla að eiga eðlilegar sam- ræður. Það snerist allt um fíkniefni og glæpi. Ég er bara komin inn í þannig líf,“ segir Anna María, sem leigði þá íbúð með meðleigjanda þar sem hún bjó næstu tvö árin. Fór að biðja til guðs „Á þessum tveimur árum er ég inn og út úr meðferð. Ég var alltaf svo búin á því, á svona tveggja mánaða fresti. Rúnturinn var inn og út, algjörlega buguð,“ segir hún. „Ég misbýð mér rosalega. Ég er orðin óvinnufær og misbýð mér til að verða mér úti um næsta skammt, annaðhvort með þjófnaði, sölu á fíkniefnum eða karlmönnum. Ég horfi til baka og trúi ekki á hvaða stað ég var komin miðað við hvar ég er í dag. Hvaða kona var þetta?“ segir hún. „Aðfangadagskvöld 2013 er ég ein heima. Börnin vildu ekki tala við mig. Ég var í mikilli sjálfsvorkunn en sjúkdómurinn hafði komið mér á þennan stað,“ segir hún. „Ég verð svo fertug milli jóla og nýars 2013 og fer inn í meðferð 13. janúar 2014. Gjör- samlega búin á því. Ég var mjög vonlaus og í mikilli vanlíðan. Ég fer upp á Vík og klára meðferðina. Þetta var langbesta meðferð sem ég hef farið í. Ég hef alltaf haft mína barnatrú og í þessari meðferð tók ég guð aftur inn í líf mitt og fer að biðja. Ég bað faðirvorið og bað guð að taka frá mér fíknina. Að ég fengi heimili þegar ég kæmi út úr meðferð. Ég átti ekkert heimili; var búin að missa íbúðina, en fékk inni á áfangaheimilinu Draumasetrinu. Ég kom út og var ofboðslega hrædd; ég kunni ekkert að vera edrú. Á Draumasetrinu upplifði ég mik- inn kærleika. Ég var svo tætt og brotin. Elín og Óli sem reka Draumasetrið umvöfðu mig kærleika,“ segir hún en Anna María bjó þar í þrjú ár. „Það bjargaði lífi mínu. Ég hélt í raun ekki að ég gæti orðið edrú en óskaði einskis heitar; ég þráði að verða heilbrigð móðir fyrir börnin mín.“ Saman eftir fyrsta rúntinn Mikil vinna var fram undan. Anna María tók edrúmennskuna föstum tökum og stundaði AA-fundi og fann sig fljótt á kvennafundum sem hún stundar enn vikulega og jafnvel oftar. Einnig fékk hún mikla hjálp hjá geðlækni. „Áður átti ég enga vinkonur en á þessum kvennafundum hef ég eignast mínar bestu vin- konur. Þær eru eins og systur mínar. Ég fer svo í þriggja ára endurhæfingu, í Grettistak sem er endurhæfingarúrræði fyrir fíkla, þaðan í Hringsjá, sem er starfs- og námsendurhæf- ing. Eftir það fékk ég vinnu á læknastöð og hef unnið þar í þrjú ár. Nú er ég í góðri vinnu og er virkur þjóðfélagsþegn,“ segir Anna María, sem fékk sér íbúð í Vesturbænum þar sem hún hefur búið síðustu fjögur árin. „Ég á fallegt heimili í dag,“ segir Anna María en á svipuðum tíma og hún var að klára endurhæfinguna kynntist hún núverandi unn- asta sínum, Ara Þorsteinssyni. „Ég kynntist honum á AA-fundi og varð svo heilluð af því hvað hann talaði fallega um mömmu sína. Ég sá hann aftur viku seinna og fann að mig langaði svo að kynnast þessum manni. Ég taldi í mig kjark og sendi honum vinabeiðni og svo skilaboð. Hann svaraði strax að hann nennti ekki að spjalla í gegnum tölvu og býðst til að sækja mig. Við fórum á rúntinn og við höfum verið saman síðan,“ segir hún en nýlega festi parið kaup á fallegri íbúð, þeirri fyrstu sem Anna María eignast. Við eigum allar séns Sjö ár eru nú liðin frá örlagaríka janúar- deginum 2014 þegar Anna María steig inn á Vog, buguð á sál og líkama. „Síðan þá hef ég verið í mikilli sjálfsvinnu, og það hefur alveg verið erfitt. Ég hef lagt mikið á börnin mín en vil trúa því að þau séu búin að fyrirgefa mér. Ég er þeim þakklát að hafa ekki gefist upp á mér þótt það hafi verið erfitt að vinna traust þeirra á ný. Ég á ynd- islega fallegt samband við þau í dag og á þess- um tíma hef ég eignast þrjár ömmustelpur. Það er ómetanlegt að geta verið edrú og til staðar fyrir þær og ég er mikið með stelpurnar mínar. Elsta ömmustelpan gistir mjög oft hjá mér,“ segir Anna María og ljómar þegar hún talar um litlu ömmustelpurnar. „Svo byrjaði ég fyrir tveimur árum að ganga á fjöll og það er mín ástríða. Ég fæ aldrei fíkn í eiturlyf, en ég fæ fíkn í að labba á fjöll,“ segir hún og brosir. „Það er von fyrir konur sem eru búnar að brenna allar brýr að baki sér. Við eigum allar séns. Líf mitt í dag er svo fallegt. Ég á risa- stóran guð sem ég tala mikið við. Ég er í góðu sambandi við allt mitt fólk. Áður átti ég ekkert bakland, nema systur mína, sem stóð alltaf með mér eins og klettur. Líf mitt var gjör- sneytt gleði en ég hef fundið aftur hamingju. Eftir allt þetta svartnætti í öll þessi ár er lífið ótrúlega bjart.“ Morgunblaðið/Ásdís Ari unnusti Önnu Maríu er duglegur að ganga með henni á fjöll. Það er hennar ástríða í dag.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.