Morgunblaðið - 02.02.2021, Síða 27
AKUREYRI
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
KA/Þór er það lið sem hefur komið
einna mest á óvart í úrvalsdeild
kvenna í handknattleik, Olísdeild-
inni, á tímabilinu.
Liðið vann fjögurra marka sigur
gegn bikar- og deildarmeisturum
Fram, 27:23, í síðustu umferð úr-
valsdeildarinnar í KA-heimilinu á
Akureyri en liðið er í efsta sæti
deildarinnar með 10 stig líkt og
Valur.
Martha Hermannsdóttir er á
meðal reynslumestu leikmanna liðs-
ins en hún hefur ekkert leikið með
liðinu síðan keppni í deildinni hófst
að nýju í janúar vegna meiðsla.
Martha, sem er á 38. aldursári,
er bjartsýn á framhaldið hjá Ak-
ureyrarliðinu og spennt fyrir kom-
andi verkefnum.
„Við settum okkur markmið síð-
asta haust um að við ætluðum okk-
ur í úrslitakeppnina,“ sagði Martha
í samtali við Morgunblaðið.
„Við gerðum okkur ekki alveg
grein fyrir því hvar við stæðum
gagnvart Fram og Val til dæmis og
þá höfðu bæði Stjarnan og ÍBV
styrkt sig mikið fyrir tímabilið. Við
vissum þess vegna að þetta yrði
erfitt en við ætluðum okkur að
reyna að nálgast bæði Fram og Val
að styrkleika á tímabilinu. Við lögð-
um svo Fram að vell í Meist-
arakeppni HSÍ í ágúst og þótt það
hafi vissulega vantað sterka leik-
menn í þeirra lið þá töldum við
okkur vera komnar aðeins styttra
en við héldum.
Eins þá gerðum við okkur ekki
almennilega grein fyrir því hversu
stór partur Rut yrði af liðinu og
hversu langt hún gæti farið með
liðið. Varnarleikurinn hefur smollið
á þessari leiktíð og eins hefur
markvarslan verið betri núna en í
fyrra. Ég held að það sé því alveg
óhætt að segja að gengið á tíma-
bilinu, enn sem komið er, hafi farið
fram úr okkar björtustu vonum,“
bætti Martha við.
Þjálfarinn alltaf glaður
Andri Snær Stefánsson tók við
þjálfun KA/Þórs fyrir tímabilið og
hefur innkoma þjálfarans breytt
miklu fyrir Akureyringa.
„Sjálfstraust er ótrúlega stór
partur af íþróttum og maður þekkir
það af eigin raun. Ef maður skorar
úr fyrstu tveimur skotunum sínum
er allt í blóma en ef maður klikkar
á fyrstu tveimur þá er allt eins lík-
legt að maður eigi slæman leik.
Þetta snýst allt um að hafa trú á
sér og sjálfstraustið við að vinna
Fram gaf okkur þvílíkt mikið. Það
er einhvern veginn allt skemmti-
legra þegar maður er að vinna og
þessi gleði sem fylgir því að vinna
er svo mögnuð. Æfingarnar verða
skemmtilegri og hlutirnir verða
einfaldari fyrir vikið.
Eins erum við með jákvæðasta
þjálfara í heimi. Hann er alltaf
glaður og tilbúinn að peppa mann
áfram. Það er ekki til neikvætt bein
í honum og auðvitað er það líka
stór partur af þessu hversu vel
hann og þjálfarateymið hafa komið
inn í þetta. Hann var búinn að
fylgjast mjög vel liðinu áður en
hann tók við því og hann lagði
strax mikla áherslu á að við yrðum
fljótari að skila okkur til baka. Við
höfum lagt upp með að spila góða
vörn og keyra svo upp hraðaupp-
hlaupin.
Hann kemur inn með þennan
aukakraft sem hefur kannski aðeins
vantað og þeir sem hafa fylgst vel
með liðinu í vetur hafa tekið eftir
því hversu mikið við fögnum inni á
vellinum. Við eigum að fagna þegar
vel gengur og þá er líka leyfilegt að
gera sín mistök. Þú ert ekki
skammaður ef þú klikkar á færi eða
átt lélegt skot. Ungu stelpurnar eru
þess vegna ekki hræddar við að
taka af skarið því þú færð þitt svig-
rúm til þess að gera mistök.“
Gefur mikið af sér
Landsliðskonan Rut Arnfjörð
Jónsdóttir sneri heim úr atvinnu-
mennsku og gekk til liðs við KA/
Þór fyrir tímabilið en hún hefur
verið einn besti leikmaður deilda-
innar á tímabilinu.
„Innkoma Rutar hefur breytt
þvílíkt miklu og ég vissi að hún
væri góð áður en hún kom hingað
en ég vissi ekki að hún væri svona
góður leikmaður. Hún er heilinn í
sóknarleiknum okkar og það er
klárt mál að hún verður þjálfari
þegar skórnir fara á hilluna hjá
henni. Hún er ekkert smá klár í
handbolta og hún og Andri fara
saman yfir kerfin sem við spilum.
Hún kemur líka inn með þvílíkt
mikið flæði á boltann sem er mjög
mikilvægt fyrir okkur því boltinn
gekk sem dæmi ekki nægilega vel
hjá okkur í fyrra. Við vorum mikið
að dripla í sóknarleiknum en hún
hefur komið sóknarleiknum okkar í
hærri gæðaflokk.
Við erum með lágvaxið lið og höf-
um þess vegna þurft að stóla aðeins
meira á þessi gegnumbrot og línu-
blokkeringar. Hún er ótrúlega mik-
ilvæg og ef hún myndi meiðast
myndi leikur liðsins breytast mikið.
Á sama tíma erum við með leik-
menn sem eru tilbúnir að koma inn,
stíga upp og hjálpa liðinu og við
förum líka langt á því. Rut hefur
líka verið frábær með ungu stelp-
urnar og hún er oft lengur eftir æf-
ingar með þeim að kenna þeim og
sýna allskyns hluti. Hún gefur því-
líkt mikið af sér og yngri stelp-
urnar njóta svo sannarlega góðs af
því að hafa Rut með sér í liði.“
Óttaðist hið versta
KA/Þór er með 10 stig í öðru
sæti deildarinnar eftir fyrstu sjö
leiki tímabilsins, jafn mörg stig og
Valur, en Fram og Stjarnan koma
þar á eftir með 8 stig eftir sex leiki.
„Deildin er jafnari en undanfarin
ár. Ég var skíthrædd fyrir tímabilið
þar sem margir leikmenn virtust
vera á leið í Fram og Val og ég var
þess vegna virkilega ánægð þegar
bæði Stjarnan og ÍBV styrktu sig
líka. Minni lið deildarinnar eru að
nálgast þessi topplið sem hafa verið
sigursælust í deildinni undanfarin
ár og þannig á þetta auðvitað að
vera. Það er hundleiðinlegt að fara
inn í nýtt tímabil og það vita allir
hvaða lið verður bikar-, deildar- og
Íslandsmeistari.
Á sama tíma eiga bæði Fram og
Valur eftir að verða sterkari eftir
því sem líður á og þær eiga helling
inni í bæði Karenu [Knútsdóttur]
og Þóreyju Rósu [Stefánsdóttur]. Á
sama tíma vonumst við líka til þess
að verða sterkari eftir því sem líður
á og ég sé þess vegna fram á mjög
spennandi tímabil í efstu deild
kvenna. Ég vonast sjálf til þess að
vera orðin klár í slaginn í vor en ég
er búin að vera að glíma við meiðsli
í hæl að undanförnu.
Ég missteig mig í október og fór
að beita mér eitthvað vitlaust. Þá
kom upp tognun í liðbandinu undir
hælnum og ég gat nánast ekkert
gert. Ég gat varla hlaupið en ég er
búin að fara í tvær sterasprautur
og vonast til þess að vera komin af
stað eftir þrjár vikur vonandi. Ég
veit ekki hversu góð ég verð og
stefnan er þess vegna að koma inn
af fullum krafti í úrslitakeppninni
þegar hún hefst því við ætlum okk-
ur að vera þar,“ bætti Martha við í
samtali við Morgunblaðið.
Ótrúlegur handboltaheili
KA/Þór hefur byrjað tímabilið með látum í úrvalsdeild kvenna í handknattleik
Rut Jónsdóttir hefur gjörbreytt sóknarleik Akureyringa með innkomu sinni
Morgunblaðið/Þórir Tryggvason
Liðstyrkur Rut Arnfjörð Jónsdóttir skoraði sjö mörk gegn Fram og hefur
gert 44 mörk í fyrstu sjö leikjum Akureyrarliðsins á tímabilinu.
Morgunblaðið/Þórir Tryggvason
Ánægðar Leikmenn KA/Þórs höfðu ástæðu til að fagna vel í leikslok á laugardaginn eftir sannfærandi sigur gegn Fram, 27:23.
ÍÞRÓTTIR 27
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 2. FEBRÚAR 2021
Andrúmsloftið hjá FC
Barcelona er væntanlega raf-
magnað í upphafi þessar vinnu-
viku eftir tíðindi helgarinnar.
Ekki er annað að sjá en að samn-
ingi félagsins við fyrirliðann
Lionel Messi hafi verið lekið og
birti Mundo Deportivo mikla
skúbbfrétt á sunnudag.
Þar komu fram tölur og upplýs-
ingar úr samningi Messis og
upphæðirnar eru vafalaust slá-
andi fyrir marga. Ekki síst þá
sem standa félaginu nærri. Á
þessu eina samningstímabili,
2017-2021, virðist sem FC Barce-
lona borgi Messi álíka mikið og
Cleveland Cavaliers, Miami Heat
og Los Angeles Lakers borga Le-
Bron James á tveimur áratugum
í NBA-deildinni.
Forráðamenn FC Barcelona
neita því alfarið að hafa nokkuð
með lekann á gögnunum að gera
en gera ekki athugasemdir við
tölurnar í fréttinni eftir því sem
ég best veit. Félagið og Messi eru
að skoða möguleikana á lögsókn
á hendur blaðinu.
Hafi einhver í herbúðum félags-
ins lekið gögnunum veltir maður
því fyrir sér hvort það sé til að
koma höggi á Messi. Hvernig ætli
þessi tíðindi leggist í stuðnings-
menn liðsins?
Félagið er í fjárhagserfið-
leikum í kjölfar efnahagskrepp-
unnar sem fylgt hefur heims-
faraldrinum og fólkið í borginni
fór ekki vel út úr baráttunni við
veiruna. Ætli það sé mikil stemn-
ing fyrir því að fyrirliðinn, sem
virðist vilja fara frá félaginu, sé á
þvílíkum ofurlaunum að dáðir
menn hjá félaginu eins og Johan
Cruyff hefðu litið út eins og fá-
tæklingar í samanburðinum?
Þess vegna veltir maður því
fyrir sér hvort lekinn sé hluti af
átökum félagsins og Messis.
Þessar upplýsingar gætu skaðað
ímynd fyrirliðans.
BAKVÖRÐUR
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
HANDKNATTLEIKUR
Úrvalsdeild kvenna, Olísdeildin:
Eyjar: ÍBV – Haukar ................................ 18
TM-höllin: Stjarnan – Fram................ 19.30
Í KVÖLD!
Dominos-deild karla
Keflavík – ÍR......................................... 86:79
Grindavík – Stjarnan............................ 93:89
Staðan:
Keflavík 7 6 1 637:575 12
Grindavík 7 5 2 634:630 10
Stjarnan 7 5 2 670:604 10
Þór Þ. 7 4 3 710:645 8
Njarðvík 7 4 3 611:606 8
KR 7 4 3 646:657 8
ÍR 7 4 3 621:630 8
Valur 7 3 4 583:596 6
Tindastóll 7 3 4 667:665 6
Þór Ak. 7 2 5 641:680 4
Haukar 7 1 6 591:647 2
Höttur 7 1 6 614:690 2
1. deild karla
Álftanes – Selfoss ................................. 84:67
Breiðablik – Hrunamenn................... 113:75
Staðan:
Álftanes 6 4 2 549:508 8
Breiðablik 5 4 1 504:446 8
Hamar 4 3 1 386:364 6
Sindri 5 3 2 458:426 6
Vestri 6 3 3 536:564 6
Hrunamenn 5 2 3 424:483 4
Skallagrímur 6 2 4 516:512 4
Selfoss 5 1 4 386:420 2
Fjölnir 4 1 3 345:381 2
NBA-deildin
Indiana – Philadelphia ..................... 110:119
Toronto – Orlando ............................ 115:102
Washington – Brooklyn ................... 149:146
Minnesota – Cleveland..................... 109:104