Morgunblaðið - 08.03.2021, Qupperneq 15
Segja má að greinin
sem hér birtist dragi
saman í stuttu máli
margt það sem ég hef
gert að umtalsefni í
fyrri greinum um
Mannréttindadómstól
Evrópu (MDE) og
stöðu Íslands innan
EES. Umfjöllun sú
sem hér birtist er þó
að stórum hluta end-
ursögn á nýrri grein eftir Andrew
Tettenborn, prófessor við lagadeild
háskólans í Swansea, sem birt var í
Spectator 4. mars sl. (The EU is
sliding into a United States of Eu-
rope). Á vissan hátt endurómar
grein hans það sem ég hef viljað
vekja Íslendinga til vitundar um.
Tettenborn fjallar um atvik sem
eiga sér nokkra samsvörun við mál
Guðmundar Ástráðssonar gegn ís-
lenska ríkinu, sem yfirdeild MDE
taldi viðeigandi að ráða til lykta með
úrlausn sem birt var fullveldisdag-
inn 1. desember sl. Ef menn sjá
sannleikskorn í því sem Tettenborn
segir um stöðu ríkja sem formlega
hafa gengið í ESB, þá hlýtur að
vera full ástæða til að velta fyrir sér
réttmæti þess að MDE blandi sér í
innanríkismál hér á landi og grípi
fram fyrir hendurnar á fólki sem Ís-
lendingar hafa, í lýðræðislegum
kosningum, veitt umboð til að stýra
þeim málum.
Við Tettenborn erum sammála
um mikilvægi þess að sem flestir
sjái og gagnrýni slík utanaðkomandi
inngrip sem standa á ótraustum eða
engum lagalegum og lýðræðislegum
grunni. Það hef ég fengið staðfest
frá honum sjálfum.
Pólland og ESB
Öfugt við Íslendinga hafa Pólverj-
ar formlega skuldbundið sig til að
hlíta grundvallarsáttmálum ESB,
þ.m.t. Lissabon-sáttmálanum sem til
varð eftir að stjórnarskrá ESB var
hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum í
Frakklandi og Hollandi. Þriðjudag-
inn 2. mars sl. urðu þau tíðindi að
dómstóll ESB kaus, á grundvelli al-
mennra meginreglna Lissabon-
sáttmálans, að blanda sér í það
hvernig Pólverjar standa að skipun
dómara í Hæstarétt Póllands.
Samkvæmt stjórnarskrá Póllands
eru hæstaréttardómarar skipaðir af
forseta landsins að fenginni tilnefn-
ingu KRS (Dómstólaráði Póllands)
sem aðallega er samsett af dóm-
urum. Fram til ársins 2019 voru
dómarar í stjórn KRS kosnir af
fulltrúum dómsvaldsins og umsækj-
endur sem ekki hlutu embætti áttu
málskotsrétt til stjórnsýsludómstóls.
Pólsk stjórnvöld
breyttu þessu fyrir-
komulagi 2019 eftir að
stjórnlagadómstóll
Póllands, sem er
ótengdur Hæstarétti
landsins, hafði talið
framangreint kerfi
brjóta gegn stjórn-
arskrá Póllands.
Eins og komið hefur
fram í fréttum hafa
þessar aðgerðir
pólskra stjórnvalda
kallað fram víðtæka
gagnrýni. Hið nýja fyrirkomulag
hefur leitt til þess að dómarar í
KRS eru nú ekki lengur kjörnir af
dómurum heldur þingmönnum. Auk
þess hafa ákvarðanir KRS um út-
nefningu hæstaréttardómara verið
gerðar endanlegar, án möguleika á
málskoti. Þessar breytingar á kerf-
inu hefur ESB gagnrýnt með þeim
rökum að þær skapi „augljósa
hættu á alvarlegum brotum gegn
réttarríkisfyrirkomulaginu“.
Fimm umsækjendur sem ekki
höfðu hlotið náð fyrir augum KRS
fóru með sín mál fyrir Hæstarétt
Póllands sem bað dómstól ESB um
ráðgefandi álit um það hvort hið
nýja fyrirkomulag samrýmdist rétt-
arreglum ESB. Og nú hefur dóm-
stóll ESB gefið það út að hvað svo
sem pólsk löggjöf og jafnvel stjórn-
arskrá Póllands kunni að segja þá
beri pólskum stjórnvöldum að taka
aftur upp eldra fyrirkomulagið við
val á dómurum.
Andrew Tettenborn segir að
þetta veki mikilvæga spurningu:
Meðan ESB gefur sig út fyrir að
virða aðildarríkin og rétt þeirra til
að viðhalda eigin stjórnskipulagi,
hvernig getur þá staðist að slíkt
álitamál um pólskan rétt sé ákvarð-
að á grundvelli ESB-réttar?
Tettenborn segir að svarið megi
finna í Lissabon-sáttmálanum sem
hafi plantað jarðsprengjum og
tendrað langan kveikiþráð sem hef-
ur nú náð í tundurhleðsluna. Sátt-
málinn hafi geymt almennt orðaðar
meginreglur um mikilvægi lýðræðis
og réttarríkis innan aðildarríkja,
sem dómstólum í hverju landi fyrir
sig bæri að verja. Í umræddu máli
Póllands opinberist hvernig þessum
almennu meginreglum ESB-réttar
er beitt af dómstól ESB til að ryðja
burt öðrum réttarheimildum, þ.m.t.
pólskum lögum.
Samkvæmt niðurstöðu dómstóls
ESB brjóta pólsk stjórnvöld gegn
Evrópurétti með því að gera full-
trúa dómsvaldsins áhrifalausa við
val á nýjum dómurum. Ef nauðsyn
ber til mun dómstóll ESB skera úr
um skipun í dómaraembætti því
möguleg innanríkisógn við sjálf-
stæði dómstóla telst nú varða ESB í
Eftir Arnar
Þór Jónsson »Mönnum leyfist ekki
að daufheyrast við
tilburðum sem leiða til
þróunar valdakerfis sem
reist er á veikum og
ófullnægjandi laga-
legum grunni
Arnar Þór Jónsson
Höfundur er héraðsdómari.
Lagalegir og lýðræðislegir áhættuþættir
heild, en ekki aðeins borgara þess
ríkis sem í hlut á. [Hljómar þessi
rökstuðningur að einhverju leyti
kunnuglega í eyrum þeirra sem les-
ið hafa langsóttar lagatæknilegar
rökfærslur MDE í máli Guðmundar
Ástráðssonar?]
Hvar býr valdið?
Tettenborn telur að þeir sem enn
lúti ESB-rétti ættu að hafa þríþætt-
ar áhyggjur af því sem hér hefur
gerst. Hann tekur fram að þær
áhyggjur standi óháðar því hvort
menn telja áðurnefndar lagabreyt-
ingar Pólverja vera góðar eða lög-
mætar. Þessar áhyggjur lúti að því
hvar valdið býr í raun og veru.
Tettenborn segir að unnt sé að
byrja á því sem heita má augljóst:
Lissabon-sáttmálinn hafi falið í sér
dulda aðför að sjálfstæði aðild-
arríkja ESB. Ákvæði sáttmálans
hafi miðað að því að gera ESB að
yfirþjóðlegu sambandsríki þar sem
dómstóll ESB skæri úr um það
hvort aðildarríki sýndu stjórnskipun
sambandsins viðunandi hollustu.
Tettenborn segir að þetta hafi nú
raungerst. ESB kunni að básúna
stuðning sinn við nálægðarregluna,
þ.e. það sjónarmið að ákvarðanir
skuli taka sem næst vettvangi, en í
reynd sé stjórnskipun ESB hægt og
bítandi að taka á sig bandarískt
svipmót, þar sem Hæstiréttur
blandar sér í það sem áður taldist til
innri mála hvers ríkis. Í tilviki ESB
sé þetta réttlætt með því að segja að
verið sé að verja „evrópsk gildi“
sem séu þó í reynd aðeins pólitísk
markmið fámenns en útvalins hóps í
stærri vesturevrópskum aðildar-
ríkjum.
Að mati Tettenborns er þessi þró-
un líkleg til að halda áfram. Óljós
hugtök í Lissabon-sáttmálanum
kallist nú óhagganlegar réttarreglur
ESB, þar á meðal yfirlýsingar eins
og sú að gildin sem liggi ESB til
grundvallar séu „virðing fyrir
mannlegri reisn, frelsi, lýðræði,
jafnrétti, réttarríkið og virðing fyrir
mannréttindum“. Tettenborn telur
að almenningur ætti að hafa allan
vara á þegar dómstóll ESB hefur
fengið leyfi til að ákvarða, út frá eig-
in túlkun slíkra óljósra hugtaka,
hvað teljast megi stjórnskipulega
viðeigandi í hverju ríki fyrir sig.
Tettenborn bendir í því samhengi á
að dómstóll ESB sé ekki aðeins mun
pólitískari en Hæstiréttur Bret-
lands, heldur skorti jafnframt úr-
ræði til að tempra áhrif hans með
því að halda almennar kosningar.
Þriðja vandamálið er að sögn Tet-
tenborns enn augljósara, þ.e. sjálfs-
ákvörðunarréttur. Margir tortryggi
mjög aðfarir pólskra stjórnvalda og
telji – mögulega með réttu – að
þessar aðgerðir séu í raun grímu-
laus viðleitni til að skipa í Hæstarétt
fólk sem er hliðhollt sitjandi stjórn-
völdum þar í landi. En eitt af þeim
gildum sem lýðræðisleg stjórn-
skipun þjóðríkja hefur grundvallast
á er geta þeirra til að leysa sjálf úr
þeim pólitísku vandamálum sem
upp kunna að koma. Tettenborn tel-
ur að úrlausn ESB-dómstólsins,
sem vafalaust njóti velþóknunar yf-
irvalda í Brussel, sé til marks um þá
staðföstu trú hæstráðenda í ESB að
þetta sé rangt. Þjóðríkjunum leyfist
ekki að leysa sjálf úr sínum póli-
tísku verkefnum. Í framhaldinu lýk-
ur Tettenborn grein sinni með þess-
um orðum: „Í Bretlandi treystum
við lýðræðinu fyrir þeim pólitísku
ákvörðunum sem máli skipta. Það
gerir ESB, hreint út sagt, ekki.“
Samantekt
Hvað sem okkur kann að finnast
um framangreindar aðgerðir
pólskra stjórnvalda þá er mikilvægt
að almenningur greini straumana
sem að baki búa. Ef rökin fyrir inn-
gripi gagnvart Pólverjum eru þau
að Pólverjar hafi við inngöngu mátt
sjá að ESB stefndi hraðbyri í átt til
sambandsríkis, þá blasir við að slík-
um rökum verður ekki beitt til að
réttlæta afskipti MDE af skipun
dómara á Íslandi. Öfugt við dómstól
ESB, sem virðist vera raunveruleg-
ur dómstóll, stendur MDE vart
undir slíku nafni. MDE er aðeins
ætlað að taka til úrlausnar mál sem
lúta að meintum brotum á Mann-
réttindasáttmála Evrópu. Úrlausnir
MDE binda Ísland að þjóðarétti en
ekki landsrétti. Nærtækara væri að
lýsa MDE sem álitsgefandi stofnun
en dómstól, enda er t.d. óhugsandi
að dómstólar létu það gerast að
maður, sem hefur haft aðild að úr-
lausn neðra dómstigs, leysi aftur úr
sama máli á efra dómstigi.
Tímabært er að almenningur
vakni til vitundar um það að vest-
rænt lýðræði er samkvæmt þessu
komið út á lagalegt og pólitískt jarð-
sprengjusvæði. Hér raungerist lýð-
ræðishætta, sem þjóðir Evrópu ór-
aði vart fyrir við gerð og undirritun
grunnsáttmála evrópsks samstarfs.
Ógnin við lýðræðislegt stjórnarfar
birtist æ skýrar í þeirri viðleitni
ókjörinna embættismanna að taka
sér pólitísk og lagaleg völd án þess
að fyrir liggi réttmætt umboð. Að-
ferð þeirrar valdatöku er nú öllum
sýnileg: Gripið er fram fyrir hendur
þjóðkjörinna fulltrúa á grundvelli
stefnuyfirlýsinga og almennra meg-
inreglna sáttmála sem umræddar
stofnanir byggja tilvist sína á. Á
þingnefndarfundi vegna þriðja
orkupakka ESB varaði ég við ná-
kvæmlega þessari hættu, en talaði
fyrir daufum eyrum. En mönnum
leyfist ekki að daufheyrast við til-
burðum sem leiða til þróunar valda-
kerfis sem reist er á veikum og
ófullnægjandi lagalegum grunni, og
lýtur auk þess óásættanlega lítilli
lýðræðislegri valdtemprun.
Lokaorð
Hverjir eiga að sinna hlutverki
vökumanns þegar vá ber að dyrum?
Er það ekki sérstök skylda þeirra
sem eru í forystuliði löggjafarvalds,
ríkisstjórnar og dómstóla? Getur
verið að þeir sem andvarpa yfir
þessari umræðu vilji ekki að allt sé
uppi á borðum? Nú er í tísku að
berjast gegn hvers kyns ofbeldi – og
það er ágæt tíska. En það gerist
reyndar líka að menn beiti ofbeldi í
baráttu sinni við ofbeldi. Til eru þeir
sem leyfa sér að vefengja það að
hver einasta manneskja í lýðræðis-
legu samfélagi sé kölluð til þess að
fylgja samvisku sinni og sannfær-
ingu í hverju máli eftir bestu getu.
Það er að vera maður en ekki þræll.
Látum engan ræna frá okkur
mennsku okkar með þöggun. Þeir
eru of margir sem víkjast undan því
að horfast í augu við mál sem glíma
þarf við. Í mínum huga er þetta enn
eitt sjúkleikamerkið, því hver á að
veita nauðsynlegt aðhald ef fjöl-
miðlar, háskólar og stjórnkerfið eru
heft og frosin í meðvirkni?
Okkur er ekki skylt að umgang-
ast MDE og ESB sem einhvers
konar ósnertanlega helgidóma. Yf-
irveguð gagnrýni er öllum holl og
með því að benda á þau sjónarmið
sem ég hef gert í greinum mínum og
sem enduróma í grein Tettenborns
geri ég ekki annað en að rækja
skyldur mínar sem borgari – og sem
embættismaður – gagnvart lýðræð-
islegri stjórnskipan Íslands. Við er-
um fyrst og fremst bundin hollustu
gagnvart réttkjörnum, löglegum
stjórnvöldum hér á landi. Málefna-
legar ábendingar ættu ekki að gera
neinum erfitt að gegna skyldustörf-
um sínum hvarvetna. Önnur nið-
urstaða væri alvarlegri fyrir ís-
lenskt réttarkerfi í heild en nokkra
einstaka persónu. Þolir íslenskur
réttur og íslenskt lýðræði gagnrýn-
isleysi og þögn um undirstöður ís-
lenskra laga, uppsprettu valdsins og
meðferð þess?
15
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 8. MARS 2021
Á alþjóðlegum bar-
áttudegi kvenna fögn-
um við þeim árangri í
jafnréttismálum sem
náðst hefur þökk sé
kvennahreyfingunum
sem á undan okkur
fóru. Ég man eftir bar-
áttukonum úr barn-
æsku minni, konum
sem mynduðu grasrót-
arhreyfingar og börðust fyrir rétt-
indum sem okkur þykja nú sjálfsögð
en voru það svo sannarlega ekki þá.
Breytingar sem kvennahreyfingar
síðustu áratuga hafa náð í gegn hafa
bæði haft áhrif á gildismat og sam-
félagsgerðina á Íslandi til framtíðar.
Við stöndum um þessar mundir á
tímamótum í jafnréttisbaráttunni,
hér heima og á alþjóðavísu. Eftir
langt framfaraskeið stöndum við
frammi fyrir alvarlegu bakslagi í
jafnréttismálum. Þótt það hafi enn
sem komið er ekki birst með sama
hætti hér á Íslandi og
víða um heim verðum
við að taka það alvar-
lega og leggja okkar af
mörkum í að vinna
gegn því. Aukning á
kynbundnu ofbeldi um
allan heim er stað-
reynd, sjálfsákvörð-
unarrétti kvenna yfir
eigin líkama er víða
ógnað og heimsfar-
aldur Covid-19 hefur
haft alvarleg áhrif þar
sem konur og stúlkur komast síður
til vinnu og skóla vegna faraldursins
og hin ólaunuðu störf eins og
umönnun, menntun barna og önnur
heimilisstörf lenda frekar á herðum
kvenna.
Að auki erum við stödd í miðju
samfélagslegu umbreytingarferli
sem við sjáum ekki fyrir endann á
vegna tæknibyltingarinnar og lofts-
lagsvárinnar. Það er ljóst að þessar
breytingar hafa ólík áhrif á kynin og
nýjar áskoranir sem við munum
þurfa að takast á við út frá jafnrétt-
issjónarmiðum bíða okkar þótt við
sjáum þær ekki allar fyrir núna.
Þegar ég tala um jafnréttismál á
erlendri grundu er ég iðulega spurð
hvort það sé ekki dásamlegt að búa
í jafnréttisparadísinni Íslandi sem
skorar jafnan hæst samkvæmt al-
þjóðlegum stöðlum um kynjajafn-
rétti. Ég svara því jafnan til að það
segi sína sögu um stöðu jafnréttis í
heiminum að meira að segja á Ís-
landi, landi sem skorar hæst í jafn-
rétti samkvæmt umræddum stöðl-
um, sé enn verk að vinna. Og í
réttindabaráttu má aldrei slaka á.
Ekki í heimsfaraldri og ekki heldur
þegar vel viðrar.
Kerfisbreytingar og löggjöf skipta
miklu þegar sækja á fram í kynja-
jafnrétti. Þegar ég lít yfir kjör-
tímabil þessarar ríkisstjórnar er ég
stolt af árangrinum sem náðst hefur
í jafnréttismálum. Alþingi samþykkti
í fyrra fyrstu heildstæðu stefnuna
um forvarnir gegn kynferðislegu og
kynbundnu ofbeldi og áreitni hér á
landi ásamt áætlun fyrir árin 2021-
2025 sem er fullfjármögnuð. Þá hafa
mörg mikilvæg lagafrumvörp í jafn-
réttismálum verið samþykkt.
Heildarendurskoðun jafnréttislaga
var samþykkt og þar vil ég sér-
staklega benda á mikilvægt ákvæði
um bann við fjölþættri mismunun,
en slíkt ákvæði styrkir stöðu ýmissa
hópa, til að mynda kvenna með fötl-
un og kvenna af erlendum uppruna.
Þá voru sett lög um kynrænt sjálf-
ræði sem færir Ísland aftur í
fremstu röð ríkja hvað varðar rétt-
indi hinsegin fólks. Þar er réttur
fólks til kynhlutlausrar skráningar
tryggður sem og réttindi transfólks
og barna sem fæðast með ódæmi-
gerð kyneinkenni. Ný lög voru sett
um þungunarrof sem tryggja sjálfs-
ákvörðunarrétt kvenna yfir eigin lík-
ama og fæðingarorlof var lengt, sem
er risastórt jafnréttismál.
Ísland var jafnframt valið sem
eitt af forysturíkjum nýs átaksverk-
efnis á vegum UN Women sem ber
heitið Kynslóð jafnréttis og þar höf-
um við dýrmætt tækifæri til að
leggja okkar af mörkum. Verkefnið
er það stærsta sem UN Women hef-
ur staðið fyrir til þessa, nær til
næstu fimm ára og samræmist
heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóð-
anna um sjálfbæra þróun fyrir 2030
en þar er Ísland eitt af forystu-
ríkjum bandalags um aðgerðir gegn
kynbundnu ofbeldi.
Framundan eru stór verkefni í
jafnréttismálum en til allrar ham-
ingju eigum við bæði öflugt bar-
áttufólk og sterkar fyrirmyndir.
Saman höldum við áfram að berjast
fyrir breyttu gildismati, varanlegri
samfélagsbreytingu, fullu jafnrétti,
betra samfélagi.
Eftir Katrínu
Jakobsdóttur » Framundan eru stór
verkefni í jafnrétt-
ismálum en til allrar
hamingju eigum við
bæði öflugt baráttufólk
og sterkar fyrirmyndir
Höfundur er forsætisráðherra.
Fullt jafnrétti, betra samfélag