Morgunblaðið - 18.03.2021, Page 33

Morgunblaðið - 18.03.2021, Page 33
33 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 18. MARS 2021 Þegar ég mælti fyrir frumvarpi um breytingar á stjórn- arskrá lýðveldisins í febrúar lagði ég áherslu á að Alþingi ætti nú einstakt tæki- færi. Nú væri tæki- færi til að ná raun- verulegri umræðu um efnisatriði málsins og koma sér saman um góðar, markverðar og mikilvægar breytingar sem lengi hefur verið kallað eftir. Áhugavert er að lesa umsagnir sem borist hafa Alþingi um þær breytingar sem lagðar hafa verið til á stjórnarskrá og vissulega valda sumar þeirra vonbrigðum. Því miður má þar greina hefð- bundna skotgrafapólitík sem er til þess eins fallin að koma í veg fyrir nokkra hreyfingu á málinu og um leið virðast allmargir umsagnarað- ilar túlka samfélagslega sátt um breytingar þannig að hún felist í því að þeir komi fram eigin vilja. Bersýnilegast kemur þetta fram í umsögnum um auð- lindaákvæði frum- varpsins. Í tillögunni kemur eftirfarandi skýrt fram: Auðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru lýstar í þjóðareign. Þær ber ekki að af- henda til eignar eða varanlega og úthlutun nýtingarheimilda skal grundvallast á jafnræði og gagnsæi. Löggjaf- anum ber að taka af- stöðu til gjaldtöku fyrir nýtingu heimildanna. Í þágu útgerðanna? Um þetta ákvæði berast nú um- sagnir úr tveimur áttum. Annars vegar frá þeim sem telja að þetta hljóti að vera samið sérstaklega fyrir stórútgerðir: „Er sátt útgerðarfyrirtækjanna mikilvægari en sátt yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar? Hvað með alla þá kjósendur sem veittu til- lögum Stjórnlagaráðs brautar- gengi haustið 2012?“ (Úr umsögn Stjórnarskrárfélagsins um frum- varp til stjórnskipunarlaga.) „Þið hafið gert þetta einkum til að þóknast sérhagsmunum útvegs- manna sem virðast eiga ykkur með húð og hári.“ (Úr umsögn Þorvald- ar Gylfasonar um frumvarp til stjórnskipunarlaga.) Gegn hagsmunum útgerðarinnar? Eftir að hafa lesið þessi brigsl verða kannski einhverjir hissa að lesa umsagnir helstu hagsmuna- varða útgerðarinnar og íslensks at- vinnulífs: „Að öllu framangreindu virtu telja SFS að fyrirliggjandi frum- varp sé ýmsum annmörkum háð og leggja til að frumvarpið nái ekki óbreytt fram að ganga. Hvatt er til endurskoðunar á efni frumvarpsins og samráðs við samtökin og aðra hagaðila.“ (Úr umsögn SFS um frumvarp til stjórnskipunarlaga.) Og í annarri umsögn segir: „Í ljósi framangreindra at- hugasemda leggja samtökin til að auðlindaákvæði frumvarpsins verði fellt brott.“ (Úr umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarp til stjórnskipunarlaga.) Og enn annar umsagnaraðili segir: „Viðskiptaráð telur því misráðið að færa auðlindaákvæði þessa frumvarps óbreytt inn í stjórn- arskrá lýðveldisins.“ (Úr umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til stjórnskipunarlaga.) Sátt um engar breytingar? Að sjálfsögðu hvetja allir þessir aðilar til að sátt náist um málið. Ef marka má umsagnirnar er ljóst að þeir gætu mætavel sæst á að halda rifrildinu áfram að eilífu þannig að ákvæði af þessu tagi komist aldrei inn í stjórnarskrá. Það verður aftur á móti áhugavert að sjá hvað alþingismenn munu segja þegar þeim gefst nú færi á að tryggja þjóðareign á auðlindum – ekki eingöngu sjávarauðlindinni sem sumir láta eins og málið snú- ist eingöngu um – og mæta þeim skýra vilja sem hefur ítrekað birst í könnunum og atkvæðagreiðslum. Tillagan um auðlindaákvæði er vel ígrunduð og skýr eins og aðrar tillögur frumvarpsins. Þó að slíkt ákvæði finnist ekki í stjórnar- skrám allra annarra ríkja hefur það verið til umræðu á Íslandi lengi og endurspeglar sú umræða þann vilja að stjórnarskráin fjalli með afdráttarlausum hætti um auðlindir landsins og nýtingu þeirra. Í þessu ákvæði er slík lína dregin. Hið sama gildir um aðrar til- lögur frumvarpsins, löngu tíma- bært ákvæði um náttúru- og umhverfisvernd, stjórnskipulega stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls og endurskoðaðan kafla um forseta og framkvæmdavald sem tekur tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á samfélagsgerð- inni án þess að kollvarpa hlutverki forseta Íslands sem rík sátt er um. Nú er tækifæri til raunveru- legra breytinga ef við leyfum þeim ekki að ráða sem líður svo vel í gömlum skotgröfum að þeir mega ekki hugsa sér að málið leysist. Eftir Katrínu Jakobsdóttur » Það verður áhuga- vert að sjá hvað al- þingismenn munu segja þegar þeim gefst nú færi á að tryggja þjóð- areign á auðlindum. Katrín Jakobsdóttir Höfundur er forsætisráðherra. Nýtum tækifærið Málefni norðurslóða eru áhersluatriði í ís- lenskri utanríkisstefnu enda snerta þau hags- muni Íslands með margvíslegum hætti. Stefna Íslands í mála- flokknum byggist á þingsályktun frá 2011 og síðan hefur vita- skuld mikið vatn runn- ið til sjávar – bókstaf- lega raunar, því hlýnun loftslags er hraðari á norðurslóðum en víðast hvar og afleiðingarnar birt- ast meðal annars í bráðnun jökla og hafíss. Undanfarin tvö ár hefur Ís- land einnig gegnt veigamiklu hlut- verki með formennsku í Norður- skautsráðinu, sem er mikilvægasti vettvangur samstarfs og samráðs um málefni svæðisins. Ný norðurslóðastefna Í ljósi þessa var orðið tímabært að ráðast í endurskoðun á norðurslóða- stefnunni og í því skyni skipaði ég þingmannanefnd með tilnefningum frá öllum þingflokkum. Nefndin hefur nú lagt lokahönd á tillögur sínar og það er mér fagnaðarefni að veita þeim viðtöku síð- ar í dag á fundi með formanni hennar, Bryndísi Haralds- dóttur. Á grundvelli til- lagna nefndarinnar hyggst ég leggja fram þingsályktunartillögu um nýja norður- slóðastefnu sem miðast að því að tryggja hagsmuni Íslands í víðum skilningi. Það færi vel á því að Alþingi sam- einaðist um nýja norðurslóðastefnu um líkt leyti og formennskutímabil Íslands í Norðurskautsráðinu tekur enda. Þrátt fyrir að heimsfaraldurinn hafi óhjákvæmilega sett mark sitt á formennskuna og vinnu Norður- skautsráðsins undanfarið ár hefur tekist með ágætum að laga starfið að breyttum aðstæðum. Burt með drauganet Fyrr í þessari viku ávarpaði ég fund embættismannanefndar ráðsins sem staðið hafði til að halda á Akur- eyri en færa þurfti á netið líkt og marga aðra fundi og viðburði í tengslum við formennskuna. Þar á meðal var alþjóðleg ráðstefna um plastmengun í norðurhöfum sem átti upphaflega að fara fram í Reykjavík síðastliðið vor en var haldin á netinu nú fyrr í þessum mánuði með þátt- töku á fjórða hundrað manns víða að úr heiminum. Raunar má segja að það hafi átt vel við að um net- ráðstefnu hafi verið að ræða því þar tilkynntum við einmitt um að Ísland væri nú komið í hóp ríkja sem berjast gegn svokölluðum drauganetum, yfirgefnum og týndum veiðarfærum í hafinu. Heimsfaraldurinn kemur þannig ekki í veg fyrir að við getum tekist á við brýn úrlausnarefni eins og verndun hafsins. Vel heppnuð formennska Íslands Vinnuhópar Norðurskautsráðsins hafa ótrauðir haldið áfram starfi sínu og þótt tafir hafi orðið á framkvæmd einstakra verkefna vegna faraldurs- ins hefur að mestu leyti tekist að framfylgja formennskuáætlun Ís- lands. Samkvæmt henni hefur á for- mennskutímabilinu verið lögð áhersla á þrjú meginsvið: Málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýj- anlega orku, og fólk og samfélög á norðurslóðum. Við þetta má svo bæta eflingu Norðurskautsráðsins sjálfs. Sem dæmi um verkefni á þessum sviðum má nefna sérstaka vef- fundaröð embættismannanefnd- arinnar um málefni hafsins sem hald- in var síðastliðið haust. Verkefnum um jafnréttismál á norðurslóðum og um möguleika til nýsköpunar og verðmætaaukningar í bláa líf- hagkerfinu, sem Ísland hefur leitt innan vinnuhóps ráðsins um sjálf- bæra þróun, verður einnig lokið sam- kvæmt áætlun, svo dæmi sé tekið. Formennskutímabili Íslands í Norðurskautsráðinu lýkur með ráð- herrafundi sem haldinn verður í Reykjavík 19.-20. maí næstkomandi. Vegna heimsfaraldursins er því mið- ur ljóst að meirihluti væntanlegra þátttakenda verði að fylgjast með fundinum í gegnum fjarfundabúnað. Ég er hins vegar bjartsýnn á að að- stæður leyfi að ráðherrar norður- skautsríkjanna og fulltrúar frum- byggjasamtakanna sem aðild eiga að ráðinu geti komið til fundarins í eigin persónu. Það verður mikilvægt tæki- færi til að treysta enn frekar hið góða og uppbyggilega samstarf á vett- vangi Norðurskautsráðsins um leið og við afhendum Rússum for- mennskukeflið sem við tókum við úr hendi Finna fyrir tveimur árum. Þar með innsiglum við enn á ný þetta ein- staka samstarf þeirra ríkja og þjóða sem hagsmuna eiga að gæta á norðurslóðum. Mikilvæg stefnumörkun í málefnum norðurslóða Eftir Guðlaug Þór Þórðarson » Það færi vel á því að Alþingi sameinaðist um nýja norðurslóða- stefnu um líkt leyti og formennskutímabil Ís- lands í Norðurskauts- ráðinu tekur enda. Guðlaugur Þór Þórðarson Höfundur er utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Fyrir ári fór daglegt líf flestra úr skorðum og hefur ekki komist í samt lag aftur. Fyrir tölfræðing er skemmtilegt hversu hátt umræðu um smit- stuðla, veldisvöxt og hjarðónæmi hefur bor- ið og tilvalið að nýta sér þessa bylgju til að koma hugðarefnum á framfæri. Smitstuðullinn skiptir máli Útbreiðsla farsótta ræðst meðal annars af því hversu marga hver sýktur einstaklingur smitar og er í því samhengi talað um smitstuðul. Smit- stuðullinn er háður mörgum þáttum svo sem eiginleikum farsóttar, hegð- un einstaklinga og ónæmi fyrir sýk- ingunni. Sé smitstuðull hærri en 1 fjölgar smituðum með veldisvexti en sé smitstuðull undir 1 deyr sóttin út. Mæling smitstuðuls er hins vegar fjarri því að vera einföld þar sem hann er háður ótal mismunandi þátt- um í umhverfi og hegðun fólks. En þekking á smitstuðlinum getur engu að síður hjálp- að til við að ná stjórn á far- sótt, að ekki sé talað um ef hægt væri að stýra stuðl- inum með einhverju móti. Það var fagnaðarefni að ríkisstjórn Íslands skyldi stuðla að því að áhrif sótt- varnaaðgerða á þróun Covid-19-faraldursins væru rannsökuð. Mikil- vægt er að meta áhrif mis- munandi aðgerða, helst með vísindalegum hætti, til þess að þær verði markvissar. Óhjákvæmilega hafa aðgerðirnar neikvæðar auka- verkanir og með því að meta áhrif þeirra er hægt að vega og meta hversu langt eigi að ganga hverju sinni. Skýrsla rannsóknarhópsins sem hlaut fimm milljóna króna styrk kom út í síðustu viku. Á Íslandi hefur upp- runi smita verið rannsakaður og greint af hvaða stofni veirur séu frá upphafi faraldursins. Væntanlega hafa safnast verðmætar upplýsingar um hvernig smit dreifast, og það ætti að gera mat á smitstuðli mögulegt fyrir mismunandi aðstæður. Því miður hef- ur hins vegar skort á að gögnin sem safnað hefur verið væru notuð með þessum hætti, og var lestur skýrslu rannsóknarhópsins því tilhlökkunar- efni. Í læknisfræðilegum rannsóknum er venjan að bera saman hópa fólks sem eru í mismunandi aðstæðum og skoða til dæmis hve margir veikjast í hverjum hópi, og þess gætt að hóp- arnir séu nógu stórir til að niður- stöður verði tölfræðilega marktækar. Loksins mátti búast við að slík rann- sókn hefði verið gerð á íslenskum Covid-smitum. Útkoman veltur á því sem sett er inn Því miður olli skýrslan vonbrigð- um. Það er eins og skýrsluhöfundar hafi stungið fingrinum upp í vindinn til að ákvarða smitstuðulinn. Það vek- ur furðu að sjónum sé eingöngu beint að aðgerðum á landamærum en að- gerðir innanlands ekki greindar. Auk þess er greiningin á landamæra- aðgerðunum í skötulíki. Gert var hermilíkan sem metur útbreiðslu smita miðað við gefnar forsendur. Og ekki verður séð að reynt hafi verið að greina hver raunveruleg áhrif mis- munandi aðgerða séu. Í skýrslunni segir: „Í þessu líkani er gert ráð fyrir að smitstuðull ferða- manna utan sóttkvíar sé 1 og 0,5 í ferðamannasmitgát. Ferðamanni í sóttkví eða einangrun var gefinn smit- stuðull 0.“ Ef ætlunin var t.d. annars vegar að mæla raunverulega áhættu af smitgát og hins vegar sóttkví er niðurstaðan þegar gefin og áfram- haldandi reikniæfingar óþarfar. Það er næsta gagnslaust að ráðleggja ef eitthvað er svona eða hinsegin þegar menn hafa litla vitneskju um hvernig það raunverulega er. Af hverju er ekki reynt að leggja raunhæft mat á þessa smitstuðla út frá gögnum? Hvernig passar það við nýlegan fréttaflutning af smitum sem stöfuðu af fólki sem hélt sóttkví að smitstuðull í sóttkví sé 0? Gæti hugsast að þeir sem eru í sóttkví séu ólíklegri til að halda hana en þeir sem eru í smitgát sem er vægara úrræði? Aðferð skýrsluhöfunda minnir á viðskipta- áætlanir sem voru í tísku fyrir rúm- um áratug; litlu skipti hvernig raun- veruleikinn var, Excel var einfaldlega matað á hagstæðum forsendum. Leynd vekur tortryggni Síðustu mánuði hefur sú hugsun mín ágerst að ákvarðanir um sótt- varnaaðgerðir séu byggðar á hæpn- um forsendum og ófullnægjandi túlk- un gagna. Dæmi um þetta er hvort og með hvaða hætti líkamsræktarstöðv- ar eigi að vera opnar – en það er efni í aðra grein. Í ljósi þess að hvorki sótt- varnayfirvöld né vísindamenn þeim þóknanlegir hafa reynt að nýta fyrir- liggjandi gögn til að meta skilvirkni aðgerða skora ég hér með á yfirvöld að birta opinberlega öll gögn um upp- runa smita, rakningu þeirra, rað- greiningu afbrigða og annað sem máli skiptir. Hugsanlega og vonandi munu aðrir (eða sömu) vísindamenn nýta þau í alvöru til að meta áhrif sóttvarnaaðgerða – þótt án ríkis- styrkja verði. Eftir Þorstein Arnalds Þorsteinn Arnalds » Síðustu mánuði hef- ur sú hugsun mín ágerst að ákvarðanir um sóttvarnaaðgerðir séu byggðar á hæpnum for- sendum og ófullnægj- andi túlkun gagna. Höfundur er tölfræðingur. Gagnslaus greiningarvinna

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.