Morgunblaðið - 29.03.2021, Page 28

Morgunblaðið - 29.03.2021, Page 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 29. MARS 2021 Í kaflanum sem hér fer á eftir ræð- ir Hildur við Guðríði Gísladóttur (1651-1707), sem gift var Þórði Þor- lákssyni, biskup frá 1674 til 1697. Ekki aðeins eru ort ljóð til þín, mér liggur við að segja ljóðabálkar, heldur ert þú sú eina af biskups- frúnum fyrir sunnan sem fær mál- aða mynd af sér. Hvernig tilfinning er að vera á mynd? Er þetta eins og að hafa verið tvöfölduð? Er það eins og fyrir nútímamanneskju að sjá sjálfa sig í sjónvarpsupptöku í fyrsta sinn? Sjá sig stadda annars staðar og á öðrum tíma en í raun- tíma? Nú geta allir séð þig þarna á veggnum jafnvel þótt þú sjálf sért alls ekki í kirkjunni, þar sem mynd- in hangir. Ég blaðra svona án þess að treysta því að nokkur svör fáist. Hvernig dettur þér í hug að ég viti hvernig er að sjá sjálfa sig í sjónvarpi? segir Guðríður, sem er þá mætt til leiks og getur ekki stillt sig um að brosa að mér. Það eru allir á hreyfingu í ykkar myndum, er það ekki? Og svo hverfur mann- eskjan eins og þegar einhver labbar burt en myndin heldur áfram að vera. Ég sit þó snyrti- lega kyrr í rammanum. En ég held að fólk gangi betur um þar sem myndin hangir, eins og ég geti líka séð það og fylgst með því. Þið Guðrún Björnsdóttir, afasystir þín, segi ég, skerið ykkur svolítið úr hópnum því þið eruð af- komendur Ara, en ekki Björns. Það er í gegnum föður þinn, sem er mesti, ef ekki eini, ræktunarfröm- uður sautjándu aldarinnar, fjöl- menntaður með þekkingu á jarðvís- indum og almennt kallaður Vísi-Gísli. Þið flytjið suður að Hlíðarenda í Fljótshlíð á æskuslóðir Þrúðar móður þinnar og bráðlega tekur hann við sýslumannsembætt- inu þar. Það hlýtur að hafa verið meiri háttar ferðalag á þessum tíma fyrir fjölskyldu með búslóð, því allt- af er eitthvað sem erfitt er að selja á uppboðum því menn vilja ekki skilja það við sig og svo fatnaður. Þið eruð þrjú börnin, tveir eldri bræður og þú. Eina skynsemin, segir hún, var að fara með byggðum þótt Sprengi- sandsleiðin sé enn notuð um há- sumartímann en það þykir hættu- spil og vitlegra að fara norður fyrir og inn í Eyjafjörð. Gísli hefur þá stefnt á fæðingar- stað sinn Munkaþverá, hvílt fólkið sitt þar, og þið svo farið Kjöl, býst ég við. Ég er sjö ára, svarar Guðríður, þegar móðir mín deyr og Sesselja amma sér um uppeldi okkar eftir það. Faðir minn er mikill höfðingi, glaður og kurteis í fasi og tali. Hann hefur lært erlendis og ferðað- ist um þegar hann var yngri og þekkir fleiri lönd og kann meiri sögur en nokkur annar og þreytist aldrei á að lýsa þeim miklu bygg- ingum og fögru görðum sem hann sá með blómum og nytjajurtum. Mannsefnið þitt, segi ég, er Þórð- ur Þorláksson, biskupssonur að norðan sem hefur fyrir nokkrum árum fengið vonarbréf fyrir Skál- holti, fyrstur allra fyrir biskups- embætti. Hvernig atvikast það að þið náið saman? Þórður þekkir föður minn vel, segir Guðríður, hann hafði í utan- ferðum sínum farið um Belgíu og Holland og ekkert líklegra en þeir yrðu vinir því faðir minn dvaldi á þessum slóðum og þeir ræða enda- laust um sameiginlega upplifun sem fáir aðrir hafa. Svo eru fjölskyldu- tengsl því móðursystir mín, Gróa, giftist Gísla Hólabiskupi, bróður Þórðar, en hún lést ung. Þórður hefur bú hjá okkur fyrsta veturinn sem hann er fyrir sunnan, það er áður en Brynjólfur andast. Þórður er fjórtán árum eldri, en ég þekkti hann samt mæta vel. Hann spyr föður minn, hvort hann megi leita tryggða við mig. Notið þið ennþá þetta orðalag að leita tryggða? Mér finnst það fallegt. Þetta hefur þó alltaf einhvern veginn legið í loftinu eins og búið sé að ákveða það á æðri stöðum. Brúðkaupið er haldið sumarið eftir heima á Hlíðarenda. Þú ert þá orðin 23 ára. Það er ákveðið að halda veisluna í þinglok og bjóða flestum stór- mennum landsins því það er ekki nema dagsreið frá Þingvöllum í Fljótshlíðina. En það hefur veru- lega fækkað konum sem sækja Al- þingi með mönnum sínum eftir að hætt er að selja vörur og setja upp markað þar og íþróttir og allar skemmtanir hafa lagst af, svo það er dálítið áhyggjuefni að finna stúlkur í heimahéraði svo hægt sé að halda uppi dansi. Boðið er rausnarlegt og sagt hafa verið okk- ur til sóma. Ég hef gaman af því að vera tekin háalvarlega þennan dag og kölluð hinn besti kvenkostur sem völ er á, eðla höfðings jómfrú og göfug matróna. En ég skil líka að nú er æskunni lokið og alvara lífsins að taka við. Brúðkaup heldra fólks, eins og ykkar, eru með stærstu og minnis- verðustu atburðum og eiga sér djúpar rætur í menningu þjóð- arinnar, segi ég. Vanalega standa stórveislur í fimm daga, segir hún. Fyrsti dag- urinn fer í að koma sér á staðinn, þann dag er fólk að safnast saman, tjalda og spjalla og hvíla sig eftir langa ferð. Undir kvöld er svo brúðgumareiðin. Það er skrautreið frá tjaldborginni sem búið er að reisa nokkuð frá bæ og riðið heim. Tveir og tveir ríða samhliða, fyrst ungir menn og ógiftir, og á eftir þeim koma bændur. Þessir mynda svo heiðursvörð heim að bæjar- dyrum sem embættismenn og heldri bændur ríða í gegnum og síðastur kemur biskupinn ef hann er viðstaddur. Á hlaðinu taka hús- ráðandi og brúðgumi á móti gest- unum með skálaræðu og bjóða alla velkomna og nefna með nafni og talað er hátt og snjallt svo vel heyr- ist. Meðan karlmennirnir heilsast hafa konurnar safnast saman heima í stofu. Þar er þeim borin hressing og hlutverk þeirra er lítið annað en að snyrta sig, spjalla og hvílast eftir ferðalagið. Þær þurfa hvorki að sinna hestum né tjalda, allt það um- stang taka karlmennirnir á sig. Næsta dag snúast hlutverkin dá- lítið við. Þá er farin brúðarganga og gengið til kirkju með nokkuð líku sniði og brúðgumareiðin kvöldið áð- ur hvað varðar mannvirðingar. Áður hafa konur og karlar heilsast, sumir með handabandi sem kunna það, aðrir með kossi sem þekkjast vel, og þetta getur tekið langan tíma ef fjölmenni er. Í brúðargöngunni fara fremst ógiftar konur eða stúlkur, tvær og tvær saman, þær sem yngstar eru og hafa minnsta mannvirðingu. Næst koma giftar konur, og svo þær sem tignari eru og nákomnari brúðhjónunum. Ég geng svo síðast, og tveir brúðarsveinar leiða mig. Undir göngunni kveina ógiftu stúlk- urnar hástöfum yfir að missa mig úr sínum glaða hópi en giftu kon- urnar hvetja mig áfram og bjóða mig glaðlega velkomna í sinn virðu- lega flokk og svo kallast hóparnir á og verður oft úr þessu hin besta skemmtun. Brúðarganga er gengin mjög hægt úr bæ í kirkju og það er rætt um hvort rétt sé að syngja einhverja sálma, eins og stundum er gert, en mér finnst það of drungalegt og vil hafa gönguna fjörlegri. Allt er þó gert í samráði við siðamann sem hefur alræðis- vald. Hann tekur á móti mér við kirkjudyrnar og leiðir mig inn í kórinn og setur mig í hjónastólinn hjá brúðgumanum. Þá gengur fram talsmaður hans og hefur upp ræðu við svaramann minn og mælir til eiginorðs fyrir hönd brúðgumans og lýsir kaupmálanum. Þá svarar svaramaður minn og játar kaup- unum. Svo flytur presturinn bless- unarorðin yfir okkur hjónaefn- unum. Þegar gengið er úr kirkju er aftur genginn brúðargangur með sömu skipan og fyrr til bæjar og stofu. Ganga konur þá til brúðar- hússins en karlar til stofu. Vígslan sjálf fer fram á sunnudegi hjá okk- ur en stundum er hún á laugardag. Svo er enn mikið glens í kringum brúðarsængina. Konurnar ganga syngjandi til brúðarhússins þegar við erum háttuð og hjónaskálin er borin í sængurhúsið og enn er sungið og skálin síðan drukkin þar. Það kvöld eru flestir orðnir vel drukknir. Alla dagana er verið að og ef ekki er dansað er kveðið, sungið eða matast. Það er spilað á þau hljóðfæri sem til eru, oftast bæði í kirkjunni og í brúðargöngunni og líka í stofunni. Þórður ann tónlist og á lítið orgel með þýðum tónum og svo annað ómstríðara og dýpra sem mér er sagt að sé notað í helgileiksýn- ingum til að tákna helvíti og kvalir þess. En fyrir utan orgelspilverkin eru í okkar brúðkaupi langspil og fíólín fyrir laglínuna og bumbur fyrir áslátt. Mér skilst, segi ég, að stórt atriði í veislum eins og þessum sé svo að mæla fyrir minnum. Minnin hafi verið mörg og textarnir langir. Þau voru upphaflega drukkin til að heiðra goð og dísir og eru sögð frá þeim tíma þegar vínandi var álitinn guðaveig sem bera átti virðingu fyrir. Það þótti viturlegt að mæra goð og góða vætti og biðja sér blessunar í heiðni en eftir að landið var kristnað og búið að kasta goð- unum í fossa er heilögum mönnum, Kristi, drottni og Maríu mey drukkið til með viðeigandi for- málum. Enn lifir ómur af þessum sið þegar við í dag syngjum Fóstur- landsins Freyja á þorrablótum. Eru þau enn við lýði? spyr Guð- ríður. Að nafninu til, segi ég, en ekki í alvöru. Vetrarblótin eru samt hug- blær af eftirsjá eftir fornu stórveisl- unum. Ræðurnar sem fylgja minnunum, segir hún, eru einnig til að halda drykkjunni með skikk og innan banda svo allir hafi gaman af og vandræði hljótist ekki af óhófi. Minnin taka drjúgan tíma og mest af því fer fram meðan fólk situr undir borðum. Eftir að búið er að leiða gestina til borðs er fyrsti rétt- urinn borinn fram. Faðir minn vill hafa hvannablöð í soðsúpunni til að fá svolitla beiskjukennd til að vega upp á móti sætunni í hunangsmið- inum sem er borinn fram milli fyrstu réttanna. Annar rétturinn er léttreyktur vatnasilungur og þetta nægði til að metta fólkið nógsam- lega fyrir heilagsandaminnið og vel- komanda minnið sem eru flutt með miklum og löngum formálum. Það gefur líka þjónustunum nægan tíma til að undirbúa steikina. Það reynir oft mikið á siðameistarann. Það þarf að stýra stórveislum af festu. Ég skil það þannig, segi ég, að í raun hafi verið skipulögð dagskrá alla dagana sem hefst með heilsun og brúðgumareiðinni fyrsta kvöld- ið og endar svo með vítavísunum þegar haldið er heim á fimmta degi. Þær lifa lengi þótt þær séu leirburður mest allt en þóttu fyndnar því þær voru persónu- legar. Þórður kom með gömlu drykkjarhornin úr Skálholti, segir Guðríður. Mestu fyrirmennirnir skála hátíðlega úr svörtum nauts- hornum sem tilheyrt hafa norskum aðalsmönnum og líka úr snúnu hrútshornunum sem ævinlega vekja kátínu og svo öðrum minni sem öll eru silfurslegin svo hægara sé að drekka úr þeim. Aðrir fá bikara eða skál er látin ganga þegar margt er. Alltaf er mikið sungið í veislum eins og þessum. Gestirnir taka þátt í öll- um athöfnum annað hvort með því að syngja slæmurnar með vikivök- unum sem allir kunna enda for- söngvari og tekið upp eftir honum, eða menn flytja vísur sem eru samdar jafnóðum og aðrar hafðar upp eftir minni. Hvernig tilfinning er að vera á mynd? Bókarkafli Í bókatvennunni Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú I og II rekur Hildur Hákonardóttir æviatriði biskupsmatróna Skálholtsstaðar allt fram til þess er jarðeigandinn og stórhöfðinginn Valgerður Jónsdóttir yfirgaf Skálholt snemma á 19. öld. Hildur nýtir sér samtalsformið til að rekja söguna, tekur löngu gengnar fyrirkonur tali og fær þær til að segja sér sér sögu sína og um leið samtíma síns. Morgunblaðið/Árni Sæberg Samtal Hildur Hákonardóttir tekur biskupsfrúr fyrri alda tali í bókatvennu sinni og fær þær til að lýsa lífi sínu. Matróna Guðríður Gísladóttir og Þórður Þorláksson biskup, maður hennar.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.