Ásgarður : blað starfsmanna ríkis og bæja - 15.03.1980, Qupperneq 2
2/ forustugrein
_______FRÁ
STJÓRN BSRB
Svigrúm til launajafnréttis
Kröfur B.S.R.B. hafa verið lagðar fram. Þær marka fyrst og
fremst stefnu í baráttu launafólks fyrir auknu jafnrétti.
Auknu jafnrétti verður ekki náð nema með því að breyta
tekjuhlutföllum, hækka laun þeirra verst settu, færa tekjur frá
gróðamönnum til hinna lægst launuðu og jafna tekjur launafólks
innbyrðis.
Þessa stefnu hefur B.S.R.B. sett fram. Kröfur bandalagsins
mótast af henni.
En nú er ekki svigrúm til launahækkana, segir ríkisstjórnin í
yfirlýsingum sínum.
Þá er rétt að spyrja, hvenær hefur, að dómi valdhafa, verið
svigrúm til bættra lífskjara. Stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu
krefjast kjarabóta fyrir hina verst settu, en þegar þeir eru komnir í
valdastólana, segja þeir einum rómi: Ekkert svigrúm. — Þá vilja
þeir semja við samtök launafólks um ýmsar framfarir á sviði
félagsmála gegn því, að dregið sé úr launakröfum.
Auðvitað hljóta launþegasamtök að vega og meta allar að-
stæður í þjóðfélaginu, þar á meðal kjarabætur, sem þjóðfélags-
legar umbætur skapa. Það hefur aldrei staðið á því, að launafólk
taki mið af slíku. En þá verður líka að hafa í huga, hvaðan
fjármunir koma til að greiða þessar umbætur.
Opinberir starfsmenn inna af hendi þjónustu í þjóðfélaginu,
sem hvorki einstaklingarnir né atvinnureksturinn geta án verið.
Hjá því verður ekki komist að reka sjúkrahús, skóla, halda uppi
löggæslu, framleiða og dreifa raforku, reka vatnsveitur, hafnir og
halda uppi margskonar annarri opinberri þjónustu. Það er fárán-
legur og fljótfærnislegur áróður, að þessi störf séu þýðingarlítil.
í nútímaþjóðfélagi verður framleiðsluatvinnuvegunum ekki
haldið uppi nema víðtæk og fullkomin þjónusta sé innt af hendi af
hálfu hins opinbera. Þessi störf eru orðin svo þýðingarmikill
hlekkur í þjóðfélagskeðjunni að taka verður fullt tillit til þess. Það
þýðir ekki að afgreiða opinbera starfsmenn með einföldum full-
yrðingum um, að ekki sé neitt svigrúm.
B.S.R.B. mun ekki skorast undan þátttöku í sameiginlegu átaki
allra til að leysa verðbólguvandann, hvaða ríkisstjórn sem tekst að
sameina krafta landsmanna um það mál.
Samtök okkar hafa mótað jafnréttiskröfur á mörgum sviðum
þjóðlífsins.
Við höldum ótrauð áfram þeirri baráttu, og svigrúm er fyrir
hendi þar sem vilji er til.
Kristjdn Thorlacius
Eftirlaunafólk fær
einnig 10%
frádráttarheimildina
í lögum um tekju- og eignaskatt frá 1978,
sem tóku gildi nú í ársbyrjun, er ákvæði um
heimild launafólks til að velja á milli þess
að draga frá tekjum vaxtagjöld, lífeyris-
sjóðsiðgjald, stéttarfélagsgjald og iðgjald af
líftryggingu eða sleppa þessum frádráttar-
liðum og setja í staðinn frádrátt 10% af
launum.
Samkvæmt lögunum átti þessi heimild
ekki við eftirlaunafólk.
Þegar skattalögin voru til meðferðar á
Alþingi í janúar s.i., ræddi B.S.R.B. við for-
mann fjárhagsnefndar neðri deildar um, að
þarna hefði skapast misrétti, sem þyrfti
leiðréttingar við. I framhaldi af þessu skrif-
aði B.S.R.B. bréf til fjárhagsnefndar neðri
deildar, þar sem segir:
„B.S.R.B. fer þess því eindregið á leit við
nefndina að hún beiti sér fyrir, að í skatta-
lögin verði sett ákvæði um að heimild til
10% frádráttar nái einnig til þeirra, er taka
eftirlaun og/eða lífeyri frá lífeyrissjóðum
og almannatryggingum.“
Ásgarður vill vekja athygli á því að þessi
breyting, sem B.S.R.B. beitti sér fyrir, náði
fram að ganga á Alþingi. Vilmundur
Gylfason og Árni Gunnarsson fluttu um
þetta breytingatillögu, sem Alþingi sam-
þykkti.
Merkt norrænt
rannsóknarstarf
BSRB hefur borist bréf frá íslenskri
skipulagsnefnd, sem starfar að norrænni
samvinnu um rannsóknir á orsakasambandi
atvinnu og fósturskemmda. Forstöðu í
þessu hefur af íslands hálfu Hrafn
Friðriksson, yfirlæknir, sem er forstöðu-
maður Heilbrigðiseftirlits ríkisins. Erindinu
fylgdi ósk um samstarf bandalagsins við
rannsóknir þessar og um styrk til að standa
undir þeim kostnaði, sem af rannsóknum
hlýst.
Bandalagsstjórnin telur ávinning af þess-
um rannsóknum og tilnefndi þrjá fulltrúa til
að mæta á fundum um málið.
Hins vegar er það skoðun stjórnarinnar,
að svona rannsóknir eigi að vera kostaðar af
opinberum aðilum. Þess má geta, að
bandalagið fær árlega fjölmargar beiðnir
um styrkveitingar til verkefna eða félaga,
sem eru alls góðs makleg. Hefur verið
mörkuð sú stefna að bandalagið sinnti ekki
slíkum styrkbeiðnum, en vildi með starfi
reyna að stuðla að góðu málefni eftir því
sem kostur væri.