Morgunblaðið - 29.04.2021, Blaðsíða 24
24 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 29. APRÍL 2021
VIÐTAL
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
„Ég fékk oft að heyra að ég hefði
fæðst daginn sem Dalvíkurskjálftinn
varð, sérstaklega þegar ég var
krakki. Á Dalvík var ég oft kölluð
jarðskjálftastelpan,“ segir Sigurveig
Sigurðardóttir myndlistarmaður á
Akureyri. Hún fæddist í Lambhaga
á Dalvík 2. júní 1934. Ítarlega er
sagt frá fæðingu hennar í Sögu Dal-
víkur, 3. bindi, eftir Kristmund
Bjarnason. Hér er gripið niður í þá
frásögn.
Foreldrar Sigurveigar, Sigurður
Þorgilsson frá Sökku og Petrína
Jónsdóttir frá Nýjabæ, bjuggu í
Lambhaga. Það var tvílyft steinhús
með lofti úr tré og þiljað að innan.
Petrína var mjög berdreymin og
dreymdi oft fyrir daglátum. Hún
hafði erfiðar draumfarir á meðgöng-
unni og var viss um að bæði hún og
barnið sem hún gekk með myndu
deyja. „Hafði ég skrifað Jórunni
Norðmann suður í Reykjavík og bað
hana að annast litlu dóttur mína,
sem var rúmlega hálfs annars árs, ef
eitthvað skyldi henda mig.
Svo líður að þeim degi, að ég tek
léttasótt. Hafði ég áður beðið Sig-
urjón lækni að vera hjá mér ásamt
ljósmóðurinni, því ég vissi, að barnið
var í sitjandi stöðu … Ég var svo
með léttasóttina um nóttina og hafði
ekki fætt kl. 11 að morgni. En rétt
um kl. hálftólf el ég barnið,“ er haft
eftir Petrínu í Sögu Dalvíkur.
Ósköpin dundu yfir
Albína Bergsdóttir ljósmóðir
sagði að þessi fæðing hefði verið sér
sérstaklega minnisstæð. „Þegar ég
kom til konunnar og tók að tala við
hana fann ég fljótt, að í sál hennar
var ekki hin hljóða kyrrð og ró vor-
næturinnar … Kvaðst hún vita, að
hér væri um sitjandafæðingu að
ræða … og svo gæti farið, að hvorki
hún né barnið lifði af fæðinguna. Ég
reyndi að hughreysta hana … sagði
sem var, að ég hefði nýlega verið við
tvær slíkar fæðingar, sem báðar
hefðu gengið vel …“
„Litlu fyrir hádegi ól Petrína
barnið. Sagði þá Albína glöð í bragði,
að ekki væri mark að draumum og
ótti hennar ástæðulaus. Kvað Petr-
ína sig hafa dreymt hræðilegan
draum um nóttina, skömmu áður en
Albína kom til hennar. Þóttist hún
sjá menn í óða önn að taka gröf, og
átti að grafa hana þar lifandi,“ segir í
Sögu Dalvíkur. Albína ljósmóðir
reyndi að róa Petrínu og bað hana að
hvílast á meðan hún laugaði barnið.
„Albína sótti síðan mjólkurvelling
og fór að mata Petrínu. Þegar hún
var með þriðju skeiðina dundu
ósköpin yfir: Allt lauslegt datt af
veggjum. Ofan í rúm sængurkon-
unnar, sem var upp við steinvegg,
féll skápur; hana sakaði þó ekki.
Grauturinn helltist yfir hana, en það
kom ekki heldur að sök. Mulnings-
salli úr lofti og veggjum barst um
allt herbergið, rigndi yfir rúmið.
Skyndilega klofnaði einn veggurinn
því nær frá. Hávaðinn var ærandi.
Petrína bað Albínu að bjarga
barninu. Þegar hún ætlaði út stóð
hurðin á sér. Hún kallaði þó út og
bað nærstadda menn að koma til
hjálpar. Í því bar Sigurð að. Kvað
hann norðurstafn hússins hruninn,
reykháfinn fallinn, suðurstafn héngi
uppi, en gæti farið sömu leið, hve-
nær sem væri. Petrína var borin út í
undirsænginni en Albína greip hvít-
voðunginn, vafði í sæng og bar heim
í Nýjabæ.“
Sigurveig segir að mamma hennar
hafi alltaf verið mjög þakklát fyrir
að þær lifðu báðar fæðinguna af og
oft minnst á það. Sigurveig segir
heimili þeirra í Lambhaga hafa verið
í rúst eftir jarðskjálftann. „Það
bjargaðist ekkert annað en einn
skrautbolli sem á stóð „Góða stúlk-
an“. En það var ekki ég,“ segir Sig-
urveig. Hún var níunda barn for-
eldra sinna. Tvö voru látin og
Sigurveig því sjöunda lifandi barnið
og yngst. Foreldrarnir voru komnir
á fimmtugsaldur þegar hún fæddist.
„Þetta var aðallega áfall fyrir
systkini mín að fá öskrandi unga til
þess að passa og
að hafa misst fínu
herbergin sín í
Lambhaga,“ seg-
ir hún. Fjöl-
skyldan fékk inni
í barnaskólanum
um sumarið.
Sigurður faðir
hennar byggði
nýjan Lambhaga,
timburhús, sunn-
an við gamla húsið. Hann sagðist
aldrei ætla að byggja aftur úr steini.
Fjölskyldan flutti svo í nýja Lamb-
haga og bjó þar þangað til Sigurveig
var átta ára. Þá fluttu þau í Árgerði
á Dalvík. Svo áttu þau heima á Siglu-
firði í eitt ár. Sigurður var daglauna-
maður og fór þangað sem vinnu var
að hafa.
Þegar Sigurveig var tólf ára fluttu
þau í Siggabúð. Í dag er þar Kaffi-
hús Bakkabræðra, Gísli, Eiríkur,
Helgi. Móðurbróðir hennar var þar
með verslun og byggðu hann og
pabbi Sigurveigar hæð ofan á húsið
þar sem íbúðin var. Sigurveig flutti
frá Dalvík til Akureyrar þegar hún
var 19 ára og hefur búið þar að
mestu síðan.
Hefur búið víða um heim
Í sumar verða 87 ár síðan Sigur-
veig fæddist þennan eftirminnilega
dag. Hún er ein eftir af systkina-
hópnum í Lambhaga.
„Ég er búin að eiga góða og nokk-
uð langa ævi,“ segir hún. „Maðurinn
minn, Sigurður Ólafs Jónsson, vann
hjá Sameinuðu þjóðunum (FAO) og
við vorum á heimshornaflakki í ein
þrettán ár með fjölskylduna. Við
bjuggum fyrst á Máritíus í Indlands-
hafinu, svo í Malaví í Afríku, á Jövu í
Indónesíu og í millitíðinni vorum við
í tvö ár í Róm á Ítalíu þegar Sig-
urður starfaði í höfuðstöðvum FAO.
Þetta var heilmikið ævintýri allt
saman,“ segir hún og bætir við að
þeim hafi liðið einna best sem fjöl-
skyldu í Malaví. Þau eiga þrjú börn
og segir Sigurveig að flækingurinn
hafi verið erfiðastur fyrir börnin,
sem voru öll á skólaaldri, en þau
kvörtuðu aldrei þótt oft væri skipt
um skóla.
Meðan þau bjuggu í Róm fór Sig-
urveig á myndlistarnámskeið. Svo
fór hún í myndlistarskóla hér heima
þegar hún var sextug. Sigurveig er
með Vinnustofu Veigu á Eyrinni á
Akureyri og fer þangað flesta virka
daga til að vinna að list sinni.
„Ég hef mest gaman af að mála í
olíu. Ég er nýbúin að taka niður sýn-
ingu sem var á læknastofunum hér á
Akureyri. Hún stóð uppi í ár út af
Covid. Þetta er nú ekki orðið mikil-
fenglegt hjá mér, en ég ætla að
halda áfram svo lengi sem ég get
valdið pensli,“ segir Sigurveig.
Var oft kölluð jarðskjálftastelpan
- Sigurveig Sigurðardóttir fæddist rétt fyrir Dalvíkurskjálftann 1934 - Heimili hennar eyðilagðist í
jarðskjálftanum - Bjó um tíma á Máritíus, Malaví, Jövu og Ítalíu - Fór í myndlistarskóla sextug
Morgunblaðið/Margrét Þóra
Myndlistarmaður Sigurveig fór á myndlistarnámskeið þegar hún bjó í Róm og svo í myndlistarskóla hér heima
þegar hún var sextug. Hún er með vinnustofu á Eyrinni á Akureyri og hefur mest gaman af að mála með olíulitum.
Ljósmynd/Saga Dalvíkur 3. bindi
Systur F.v. Sigurveig og Jórunn Sigurðardætur frá Lambhaga. Sigurveig
var yngst níu systkina, af þeim komust sjö til manns.
Ljósmynd/Vigfús Sigurgeirsson
Lambhagi Húsið skemmdist mjög mikið í jarðskjálftanum. Rífa þurfti efri
hæðina en sú neðri stendur enn. Byggður var nýr Lambhagi við hliðina.
Petrína
Jónsdóttir