Morgunblaðið - 22.05.2021, Blaðsíða 45
MENNING 45
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 22. MAÍ 2021
Fenix
• Slitsterkt og hitaþolið yfirborðsefni
• Silkimjúk áferð við snertingu
• Sérsmíðum eftir máli
Gylfaflöt 6-8, 112 Reykjavík | Sími 587 6688 | fanntofell.is
Myndlistarsýningin Milli tveggja
heima verður opnuð í dag, laug-
ardag, kl. 16 í Lýðræðisbúllunni,
Bergstaðastræti 25B. Verður það
síðasta sýningaropnunin í húsinu.
Tvær myndlistar- og vinkonur
sýna saman og hafa þær síðast-
liðið ár átt í samtali með því að
deila myndum með hvor annarri
af vinnustofu sinni og sýnishorn-
um úr skissubókum, að því er
fram kemur í tilkynningu.
„Þannig liðu vikur og mánuðir
á tímum heimsfaraldurs, með
samtali sem oft var án orða. Sér-
legt áhugasvið vinkvennanna er
hið óræða og samspil lita, afger-
andi litafletir og grafísk nálgun á
myndefni. Samtal þeirra spannar
allt á milli himins og jarðar en
hér er landslagið í forgrunni.
Málverk í blandaða miðla sem
saman gefa upp myndir af lands-
lagi sem bæði virkar jarðneskt og
handanheims,“ segir í tilkynn-
ingu.
Freyja sýnir útskornar vegg-
myndir og vatnslitamyndir á
pappír og Karen málverk unnin
með akríl á striga.
Milli tveggja heima í Lýðræðisbúllunni
Vinkonur Karen og Freyja sýna saman.
Sýning Katrínar Sigurðardóttur,
Til staðar, verður opnuð í dag kl.
17 að Nýp á Skarðsströnd í Dala-
sýslu. Er það ein af þremur sýn-
ingum sem Katrín hefur unnið í
jafnmörgum landsfjórðungum, þ.e.
við Hoffell undir Vatnajökli, á
Skarðsströnd við Breiðafjörð og í
Svalbarðshreppi í Norður-Þing-
eyjarsýslu.
Hugmyndin að baki verkunum
tengist samspili hráefnis á
ákveðnum stað, mannlegu inngripi
og ferlum náttúrunnar sjálfrar,
segir í tilkynn-
ingu og að sýn-
ingin að Nýp
innihaldi þrjú
ljósmyndaverk
Katrínar sem og
heimildir um
framkvæmd
verkanna í formi
ljósmynda og
myndbands.
Vegna fjöldatak-
markana þurfa gestir að skrá
heimsókn með pósti á nyp@nyp.is.
Katrín sýnir að Nýp á Skarðsströnd
Katrín
Sigurðardóttir
Andrými nefnist önnur sýningin í
röðinni Uns á Borgarfirði eystri
sem opnuð verður í dag kl. 14. Á
henni sýna listamennirnir Anna
Hallin, Inga Þórey Jóhannsdóttir,
Kristín Reynisdóttir og Olga Berg-
mann verk sín í sýningarrýminu
Glettu í Hafnarhúsinu og hafa þær
unnið ný verk sérstaklega fyrir
sýningarrýmið. Má þar sjá skúlp-
túra, teikningar og ljósmyndir.
„Sýningin Andrými opnar á
flæði á milli hins huglæga rýmis
og hins áþreifanlega,“ segir í til-
kynningu. Verk Ingu er unnið út
frá hugmyndum um heimilið og
þau efni sem mikilvægt er að taka
með sér þegar flutt er á nýjan
stað, verk Önnu
Hallin er röð
blekteikninga
sem sækja inn-
blástur í loft-
myndir af flug-
mannvirkjum og
hinar ýmsu
tengingar á milli
þeirra, verk
Olgu fjallar um
þversögn sem
felst í manngerðri náttúru og
skoðar skynjun okkar og skilning
á náttúrunni og hvernig sú upp-
lifun er klippt og skorin og verk
Kristínar sækir í hringinn sem
hina endalausu línu.
Andrými á Borgarfirði eystri
Verk eftir
Önnu Hallin
Myndlistarsýningin Feigðarós —
Dreamfields verður opnuð í Kling &
Bang galleríi í Marshall-húsinu í
dag, laugardag, kl. 15 til 18. Er það
samsýning Önnu Hrundar Másdótt-
ur, Ragnheiðar Káradóttur og
Steinunnar Önnudóttur og ekki
hefðbundin, að því er fram kemur í
tilkynningu, heldur sameiginlegt
verk þeirra þriggja, „innsetning þar
sem höfundareinkenni þeirra flétt-
ast saman og ummyndast er þær
skyggnast inn í vinnuaðferðir og
hugarheima hver annarrar, og leyfa
tilraunagleði og slembilukku að leiða
sig áfram,“ eins og þar stendur.
Innsetningin samanstendur af
skúlptúrum sem minna á landslag,
umlykja áhorfandann og draga upp
umhverfi sem er á mörkum þess
manngerða og þess náttúrulega,
segir í tilkynningu og að lykilþættir í
viðfangi og efnisgerð verkanna séu
samband manngerðra efna og nátt-
úru, samþætting og sundrun.
Textaverk eftir þekkta höfunda
Samhliða sýningunni kemur út
bókverk sem er hluti þess umlykj-
andi heims sem innsetningin skapar.
Í bókverkinu eru ljósmyndir sem
unnar voru í aðdraganda sýningar-
innar þar sem efnistilraunir eru
settar í óvænt samhengi. Hluta
þessara ljósmyndaverka má einnig
sjá á sýningunni og í bókverkinu eru
líka ný textaverk sem tengjast efni
sýningarinnar. Þau eru eftir Berg-
þóru Snæbjörnsdóttur, Guðrúnu
Evu Mínervudóttur, Gunnar Theo-
dór Eggertsson og Tyrfing Tyrf-
ingsson.
Tilraunagleði og slembilukka
- Samsýning
þriggja kvenna í
Kling & Bang
Feigðarós Kynningarmynd fyrir
sýninguna sem opnuð verður í dag.
Djasspíanistinn Sunna Gunnlaugs-
dóttir er Bæjarlistamaður Kópavogs
2021. Valið var tilkynnt í Salnum í
gær við hátíðlega athöfn. Í tilkynn-
ingu frá bænum kemur fram að til-
gangur útnefningarinnar sé að
„varpa ljósi á þá fjölmörgu og hæfi-
leikaríku listamenn sem búa í Kópa-
vogi og hafa átt þátt í að auðga
menningarlíf bæjarins í gegnum ár-
in. Það er meðal annars hlutverk
bæjarlistamanns að deila listsköpun
sinni með bæjarbúum það ár sem
hann er valinn.“
Sunna hefur margoft komið fram í
Salnum í Kópavogi og er stofnandi
tónlistarhátíðarinnar Jazz í Salnum.
Hún nam djasspíanóleik við Tónlist-
arskóla FÍH, William Paterson Col-
lege í New Jersey og Pratt Univers-
ity í New York þaðan sem hún lauk
meistaraprófi. Sunna sat í stjórn
Jazzhátíðar Reykjavíkur í fimm ár
og situr í stjórn Europe Jazz Net-
work. Hún hefur haldið tónleika um
víða veröld og komið fram á mörgum
af helstu djasstónlistarhátíðum
heims. Hún hefur sent frá sér 11
geisladiska sem hafa hlotið frábærar
viðtökur hér heima og erlendis og
náð inn í efstu sæti vinsældalista á
djassútvarpsstöðvum í Bandaríkj-
unum og Kanada. Sunna hefur hlotið
fjölda tilnefninga til Íslensku tónlist-
arverðlaunanna og var valin flytj-
andi ársins 2015 og 2019. Tríó henn-
ar, með Þorgrími Jónssyni á kontra-
bassa og Scott McLemore á
trommur sem hefur notið mikillar
hylli, var Tónlistarhópur Reykjavík-
ur 2013,“ segir í tilkynningu.
„Það er varla hægt að koma í orð
hversu mikil hvatning þessi viður-
kenning frá Kópavogsbæ er á þess-
um undarlegu tímum. Það er skrítið
að vera listamaður á tíma þegar ekk-
ert má og oft erfitt að finna innblást-
urinn til að skella sér í skapandi
verkefni. Ég fann fyrir ótrúlegu
þakklæti við þessar fréttir og það er
ómetanlegt að finna það að aðrir hafi
kunnað að meta mitt framlag undan-
farin ár. Ég hlakka mjög til að starfa
að nýju verkefni sérstaklega hannað
fyrir Kópavogsbúa,“ er haft eftir
Sunnu í tilkynningunni.
Píanisti Sunna Gunnlaugsdóttir.
Sunna bæjarlista-
maður Kópavogs
Arkitektinn Lina Bo Bardi, sem lést
árið 1992, var í fyrradag sæmd
heiðursverðlaunum Feneyjatvíær-
ingsins í arkitektúr, Gullna ljóninu,
fyrir ævistarf sitt og framlag til
byggingarlistar. Hún fæddist á Ítal-
íu árið 1914 og var skírð Achillina
Bo en varð síðar þekkt undir nafn-
inu Lina Bo Bardi. Hún starfaði
fyrst í heimalandi sínu en fluttist
árið 1947 til Brasilíu með eigin-
manni sínum og stofnaði þar með
honum tímaritið Habitat auk þess
að starfa sem arkitekt og gegna
ýmsum fleiri störfum.
Þema tvíæringsins í ár er „How
Will We Live Together?“ eða
„Hvernig munum við búa saman?“
og sýningarstjóri hans, Hashim
Sarkis, segir valið á Bo Bardi eiga
mjög vel við þemað þar sem hún
hafi náð framúrskarandi árangri á
ýmsum sviðum, m.a. sem hönnuður,
sýningastjóri og aðgerðasinni. Þá
hafi hún teiknað kraftmiklar bygg-
ingar sem sameinuðu byggingar-
list, náttúru og samfélag. Í Brasilíu
lét Bo Bardi mikið að sér kveða í
hinu karllæga samfélagi arkitekta
þar og kom víða við, ritstýrði m.a.
tímaritum, stýrði söfnum, hannaði
búninga fyrir leikhús og leikmyndir
og hannaði byggingar fyrst og
fremst með þarfir fólks í huga. Þær
þekktustu eru í Sao Paulo, m.a.
SESC Pompéia og Glerhúsið (Casa
de Vidro). Bo Bardi er fyrsta konan
sem hlýtur heiðursviðurkenningu
tvíæringsins, að því er kemur fram í
frétt The New York Times.
Bo Bardi hlaut Gullna ljónið
Wikipedia/Paulisson Miura
SESC Pompéia Áður verksmiðja en nú samfélagsmiðstöð. Hér sést hluti af
þeirri merku byggingu Bo Bardi í Sao Paulo þar sem hún bjó og starfaði.