Morgunblaðið - 03.07.2021, Side 45
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Orgelsumarið er svolítið persónu-
legt í þetta sinn, því ég verð sextug-
ur í haust og mig langaði til að
hampa nemendum mínum á þessu
afmælisári og leyfa þeim að spila,“
segir Björn Steinar Sólbergsson,
organisti í Hallgrímskirkju, en hann
er listrænn stjórnandi Orgelsumars
í kirkjunni sem verður haldið hátíð-
legt frá og með deginum í dag, 3.
júlí til 22. ágúst. Átta íslenskir
organistar sem starfa við kirkjur
víða um land leyfa Klais-orgeli
Hallgrímskirkju að hljóma á hádeg-
istónleikum daglega til 14. ágúst.
„Ég hef útskrifað nítján nem-
endur frá Tónskóla þjóðkirkjunnar,
ýmist sem kantora eða fólk sem er í
háskólanámi erlendis, en næst á eft-
ir börnum og barnabörnum þá eru
nemendurnir mínir þau sem ég er
hvað mest hreykinn af. Þau eru
framtíðartónlistarfólkið í kirkjunni
og mörg eru þegar starfandi sem
organistar út um allt land,“ segir
Björn Steinar og bætir við að í
orgelmaraþoninu sem verður í Hall-
grímskirkju á Menningarnótt muni
sautján af hans útskrifuðu nem-
endum taka þátt.
„Í orgelmaraþoninu verður leikið
á orgelið sleitulaust í kirkjunni frá
því upp úr hádegi til klukkan sex
síðdegis. Þau skiptast þá á að spila,
allt frá fimm mínútum upp í tuttugu
mínútur hvert. Ýmislegt annað
verður í gangi þennan dag í kirkj-
unni, æskulýðsfulltrúinn Kristín
Rós Gústafsdóttir er að skipuleggja
dagskrá fyrir börnin, svo það verð-
ur mikið um að vera á þessum
menningarnæturdegi.“
Björn Steinar segist hafa gefið
fyrrverandi nemendum sínum
býsna frjálsar hendur með hvaða
verk þau flytja á Orgelsumrinu.
„Þau spila það sem þau langar til
að spila og þau hafa flest spilað á
orgelið áður og þekkja það vel, í
ljósi þess að þau hafa verið í námi
hjá mér í Hallgrímskirkju. Þessi
orgelhátíð hefur verið öll sumur frá
Drottning hljóðfæranna
- Orgelið í Hallgrímskirkju hefur skipað stóran sess í tónleika- og helgihaldi
kirkjunnar allt frá vígslu þess 1992 - Hátíðin Orgelsumar fer af stað í dag
Morgunblaðið/Unnur Karen
Björn Steinar „Það er gleði á hverjum einasta degi að koma að þessu hljóðfæri, bæði í helgihaldi og á tónleikum.“
því orgelið var vígt árið 1992, og
flytjendur hafa verið bæði íslenskir
organistar og erlendir. Vegna covid
verða einvörðungu íslenskir organ-
istar þetta árið, rétt eins og í
fyrra.“
Eins og krakki í dótabúð
Björn Steinar segir að Orgel-
sumrinu ljúki með dagskrá í Hall-
grímskirkju sem kallast Finnlands-
farar.
„Þá verður flutt úrval úr framlagi
Félags íslenskra orgelleikara til
norræns kirkjutónlistarmóts sem
verður í Finnlandi í lok ágúst,“ seg-
ir Björn Steinar sem hefur ferðast
mjög víða og spilað tónleika um all-
an heim, svo hann þekkir mörg ólík
orgel.
„Orgelið okkar allra í Hallgríms-
kirkju er ótrúlega glæsilegt hljóð-
færi en hvert orgel hefur sinn
sjarma. Ég hef til dæmis leikið á
orgel frá átjándu öld í ýmsum
kirkjum, en mér finnst orgelið vera
drottning hljóðfæranna.
Í hvert skipti sem maður spilar á
nýtt orgel þá er maður að kynnast
nýrri drottningu. Hvert hljóðfæri er
algerlega einstakt, það er hannað
fyrir hverja kirkju, stærð, raddval
og slíkir hlutir. Fyrir vikið er alltaf
spennandi að hitta nýja drottningu.
Auðvitað eru orgel misjöfn og
það er áberandi þegar erlendir
konsertorganistar koma að spila í
Hallgrímskirkju að þá er það eins
og krakki sem kemst í dótabúð, því
það er mikil upplifun, enda spannar
orgelið allt frá því veikasta yfir í
það sterkasta. Ég lít alltaf á orgel
eins og heila hljómsveit. Fyrir mig
sem organista í Hallgrímskirkju er
það gleði á hverjum einasta degi að
koma að þessu hljóðfæri, bæði í
helgihaldi og á tónleikum,“ segir
Björn Steinar og bætir við að nú
séu ferðamenn byrjaðir að streyma
í kirkjuna, sem ekki hefur verið
undanfarna fjórtán mánuði, og það
gleðji þau sem starfa við kirkjuna.
Tómas Guðni Eggertsson, tónlist-
arstjóri og organisti Seljakirkju,
hefur tónleikaröðina í dag, 3. júlí,
klukkan 12. Efnisskrá hans verður
eftirfarandi:
1. J.S. Bach: Pièce d’orgue BWV
572,
2. J.S. Bach: O Mensch, bewein’
dein’ Sünde groß BWV 622
3. César Franck: Kórall nr. 3 í a-
moll.
Miðasala fer fram á tix.is en einn-
ig má fá miða við innganginn á
tónleikadegi.
MENNING 45
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 3. JÚLÍ 2021
Rokksveitin HAM mætir á Tónaflug
í Egilsbúð í Neskaupstað í dag, 3.
júlí, kl. 21 og særir sóttina burt með
áhorfendum. „Sveitin hyggst fram-
halda boðun ófagnaðarerindis síns
og útdeila sínum djúpfögru og hug-
hreystandi tónum og hljómum sem
aldrei fyrr. Rokkhöllin Egilsbúð í
Neskaupstað varð fyrir valinu sem
vettvangur upprisunnar. Það mun
enginn ósnortin verða sem dýft hef-
ir sér í beljandi hreinsunarbál
rokksveitarinnar geðþekku,“ segir
um viðburðinn á Facebook og að
vænta megi að uppsafnað rokk
HAM úr egypsku myrkri sóttar-
innar eigi eftir að springa eftir-
minnilega út í rokkhöll Austfirð-
inga í Egilsbúð. Rokksveitin Blóð-
mör mun hita upp en hún sigraði í
Músíktilraunum 2019.
HAM særir sóttina
burt í Egilsbúð
Ljósmynd/Marinó Thorlacius
Rokk HAM boðar ófagnaðarerindið í kvöld.
This Rain Will
Never Stop eftir
úkraínsku kvik-
myndagerð-
arkonuna Alinu
Gorlova hlaut
aðalverðlaun Ice-
Docs-heimild-
armyndahátíð-
arinnar sem
haldin var á
Akranesi 23.-27. júní. Sérstaka um-
sögn fékk To Calm the Pig Inside
eftir Joönnu Vasquez Arong og
SPACES eftir Nora Štrbová var
valin besta stuttmyndin. Um mynd
Gorlova segir á vef IceDocs að hún
sé „magnþrungin sjónræn ferð um
endalausa hringrás mannkynsins í
gegnum stríð og frið“.
This Rain Will Nev-
er Stop sú besta
Alina Gorlova
Myndlistarkonan Hrafnhildur
Arnardóttir, betur þekkt undir
listamannsnafninu Shoplifter,
mun í dag kl. 14 opna sýningu á
nýju útilistaverki sínu í Hrútey í
Blöndu við Blönduós. Er þetta
fyrsta útilistaverk Hrafnhildar og
stillir hún náttúruperlunni Hrútey
og gervináttúruverkum sínum
upp sem hliðstæðum sem einnig
má skoða sem andstæður, sam-
stæður eða gagnstæðar spegil-
myndir, eins og því er lýst í til-
kynningu.
Hrafnhildur er búsett í New
York og var fulltrúi Íslands á
Feneyjatvíæringnum 2019. Þar
vakti innsetning hennar, Chromo
Sapiens, mikla athygli og hlaut að
sama skapi mikið lof. Við opnun
lék hljómsveitin Ham og samdi
auk þess tónverk við sýningu
Hrafnhildar sem vakti ekki minni
athygli en myndlistin.
Sýningin í Hrútey ber heitið
Boðflenna og verður hún opin all-
an sólarhringinn til 28. ágúst og
aðgangur ókeypis. Á vef Sam-
bands íslenskra myndlistarmanna
má finna kort sem sýnir leiðina að
útilistaverkinu, á slóðinni sim.is/
hrutey-blonduosi-bodflenna-
shoplifter/.
Litadýrð Shoplifter er þekkt fyrir litrík verk sín úr hári sem hún tvinnar nú
saman við náttúru Hrúteyjar. Hér má sjá hluta verksins í Hrútey.
Fyrsta úti-
listaverk
Shoplifter
Leynilögga,
kvikmynd Hann-
esar Þórs Hall-
dórssonar, hefur
verið valin í aðal-
keppni kvik-
myndahátíð-
arinnar í Loc-
arno í Sviss sem
hefst 4. ágúst og
stendur yfir í
viku. Í tilkynn-
ingu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands
segir að myndin verði sýnd í aðal-
keppni hátíðarinnar sem nefnist
Concorso internacionale og muni
því keppa um Gyllta hlébarðann
eða Pardo d‘Oro. Eru þau verðlaun
sögð ein þau virtustu sem veitt eru
ár hvert. Leynilögga fjallar um
„grjótharða ofurlöggu sem er í bar-
áttu við sjálfan sig á sama tíma og
hann berst við hættulegustu glæpa-
menn landsins“, eins og því er lýst í
tilkynningu og er myndin fyrsta
kvikmynd Hannesar í fullri lengd.
Hún verður frumsýnd í Sambíó-
unum 27. ágúst. „Ég er enn að átta
mig á að myndin hafi verið valin inn
á hátíðina og hlakka til að sýna
hana þar. Er samt enn spenntari
fyrir því að sýna hana hér heima
sem verður núna í lok ágúst,“ er
haft eftir Hannesi. Með aðalhlut-
verk í myndinni fara Auðunn Blön-
dal, Egill Einarsson, Steinunn Ólína
Þorsteinsdóttir, Vivian Ólafsdóttir,
Sverrir Þór Sverrisson og Björn
Hlynur Haraldsson.
Leynilögga í aðal-
keppni Locarno
Hannes Þór
Halldórsson
Listakonurnar og æskuvinkonurn-
ar Kristín Aldís Markúsdóttir og
Jóhanna Björk Kolbrúnardóttir
opna sína fyrstu sýningu saman í
dag, 3. júlí, í Aðalstræti 2 og er hún
hluti af dagskrá Reykjavík Fringe.
Sýningin stendur yfir til 10. júlí og
sýna vinkonurnar akrýlmálverk á
striga. Þær sækja báðar innblástur
í heim fantasíunnar, hið andlega og
yfirnáttúrulega.
Jóhanna kallar sinn hluta sýning-
arinnar The Magical Corner og er
allra fyrsta listasýning hennar.
Kristín nefnir sinn hluta Seasonal
Elements þar sem hún tekur fyrir
frumöfl jarðar. Í tilkynningu segir
að Kristín hafi fæðst með þykk ský
á báðum augasteinum og hafi verið
nær blind við fæðingu. Þriggja
mánaða fór hún í aðgerð þar sem
báðir augasteinar voru teknir og
smám saman varð annað augað
betra. Kristín er nær blind á hinu
auganu en er þó næm fyrir formum
og litum í listsköpun sinni.
Fallegt Green Grape Leaves eftir Kristínu.
Vinkonur sýna
saman á Fringe