19. júní - 19.06.2018, Page 42
40 | 19. júní 2018
Konur í
heilbrigðisþjónustu
Kynbundið ofbeldi, áreitni og mismunun á sér
stað innan heilbrigðisþjónustunnar, rétt eins og annars
staðar í samfélaginu.
Meðfylgjandi eru 53 frásagnir kvenna sem starfa
í heilbrigðisþjónustu af kynbundinni mismunun og
kynferðislegri áreitni og ofbeldi í starfi.
Ljóst er að kynbundið ofbeldi, áreitni og
mismunun er vandamál í heilbrigðisþjónustu á Íslandi
líkt og á öðrum stöðum í samfélaginu. Vandann má
bæði finna í framkomu samstarfsmanna sem og þeirra
skjólstæðinga sem nota þjónustuna. Fram hefur komið
að engin heilbrigðisstofnun í landinu er laus við þessi
vandamál og því þarf að taka á þeim tafarlaust.
Konur eiga skilið vinnufrið, að lifa og starfa í
öruggu umhverfi og vera lausar við kynbundið misrétti
og kynferðislega áreitni af öllum toga í sínum störfum.
Birtingarmyndirnar eru fjölmargar og kemur áreitnin
alls staðar að úr kerfinu; frá kennurum, stjónendum,
samstarfsmönnum og skjólstæðingum. Margar frá-
sagnanna snúast um að mörk um eðlileg samskipti
eru markvisst ekki virt og hefst það nánast um leið og
konur stíga fæti inn í heilbrigðiskerfið sem nemendur.
Konum sem lenda í áreitni hefur verið sagt að
harka af sér og venjast aðstæðum, sumum jafnvel
sagt að þegja eða þeim refsað þegar þær hafa stigið
fram og sagt frá. Konum er iðulega sýnt í orði og
á borði að þær séu ekki jafnar körlum. Ítrekað eru
þær hundsaðar í faglegum samræðum, lítið gert úr
fagþekkingu þeirra og vitsmunum og þær gjarnan
hlutgerðar og ýtt til hliðar í sínum störfum. Öll eigum
við rétt á faglegri heilbrigðisþjónustu og konur í
heilbrigðiskerfinu sinna sínu starfi af heilindum og
fagmennsku. Þær gera sér fulla grein fyrir því hversu
viðkvæmur hópur skjólstæðingar þeirra er og sýna því
aðgát og virðingu.