Strandapósturinn - 01.06.1975, Qupperneq 22
röngu tré en öngu. Enda gekk ég oft í kröfsin síðar, þegar
tækifæri bauðst til ítarlegri frásagna. Frá Njálsstöðum hélt
ég að þessu sinni beina leið inn að Finnbogastöðum á vit
Guðmundar Þ. Guðmundssonar skólastjóra þar, sem ég þekkti
í sjón og var lítillega málkunnugur, frá þeim árum er hann var
eftirlitskennari í Strandahéraði. Eg hafði löngum dáðst að
dugnaði, þrautsegju og ósérplægni Guðmundar við stofnun og
uppbyggingu heimavistarbarnaskólans á föðurleifð hans,
Finnbogastöðum. Skólinn var hinn fyrsti sinnar tegundar í
Strandasýslu, og átti í byrjun við ýmsa örðugleika að etja. Að
vísu var Heydalsárskólinn miklu eldri eða frá því fyrir alda
mótin 1900, en hann var hvorki stofnaður né starfræktur
framan af árum sem barnaskóli heldur sem unglingaskóli
eingöngu.
Eg hygg það hafi verið um nónbil, sem ég kvaddi dyra á
Finnbogastöðum, hjá Guðmundi skólastjóra og Guðrúnu Sæ-
unni konu hans. Þó að dagleiðin væri þá eigi löng orðin var ég
dálítið slævtur. Það, sem einkum bagaði mig voru skórnir,
íslenzkir gúmmískór, þeir voru farnir að valda mér verulegum
óþægindum. Fg var jafnvel farinn að bera óljósan kvíðboga
fyrir því, að af þeim sökum mundi ég ekki ná í fyrirhugaðan
gistingarstað um kvöldið, bæinn Kjós við Reykjarfjörð.
Guðmundur skólastjóri veitti því þegar athygli, að ég stakk
við, og gat þess strax til hvað að mér gengi, eftir margra daga
labb á vegleysum Strandanna. Skipaði hann mér að fara úr
bleytunni þegar í stað, beiddi konu sína að þurrka sokkana
eins og kostur væri á, meðan ég stæði við, en sjálfur kom hann
með smyrsl og sárabindi og gerði að hælsærum mínum. Engin
hreystiyrði hafði ég uppi á borð við skáldið Ormstungu í höllu
Eiríks jarls, að eigi skyldi haltur ganga meðan báðir fætur
væru jafnlangir, þó gat ég ekki stillt mig um að láta það álit í
ljós, að þessi skinnspretta væri svo lítilfjörleg að engrar
fyrirhafnar væri verð. Einmitt vegna þess hvað sárið er enn
lítið er nauðsynlegt að búa um það strax, því að stemma skal á
að ósi mælti Guðm. skólastjóri. Þeirri röksemd gat ég hvorki
né vildi mótmæla. Hjá þessum alúðlegu og gestrisnu hjónum
20