Strandapósturinn - 01.06.1975, Qupperneq 52
Um sláttinn gekk hann að heyskap, og rakaði hann þá, er á
engjar kom, og bar ofan af fyrir kvenfólkið. Var á orði haft hve
stór föng Guðmundar voru.
Ekki hafði Guðmundur staðið lengi yfir fénu að þessu sinni,
er veðrið breyttist skyndilega. Vindsveipir snöggir komu með
stuttu millibili, og á örskammri stund var kominn stormur og
byrjað að skafa. Frost harðnaði, og brátt var skollinn á
sortabylur. Guðmundur brá við skjótt og hóaði fénu saman.
Með hjálp Svölu tókst að koma því af stað. En er upp á
hæðirnar kom, herti veðrið svo að féð tvístraðist og varð ekki
við ráðið. Stríddi Guðmundur um stund við að koma þeim á
rekspöl, en mátti gefast upp. Hann sá ekkert frá sér og var
ekki viss um hvar hann var staddur. Hugði hann að vindur
væri vestlægari en síðar reyndist. Veðurhæð var mikil, og
hrakti hann undan storminum. Þreyta, og síðar svefn, sóttu
mjög á hann. Guðmundur taldi sér dauðann vísan, ef hann
sofnaði. Hann ákvað því, að gefast ekki upp, meðan þrek
entist, og ganga um, en varast að setjast niður.
Löng hefur nóttin verið Guðmundi, en leið þó, eins og aðrar
nætur. Hvað hann hefur hugsað þessa nótt, veit enginn, en
grunur minn er, að til lítils hafi Guðmundi þótt sín ganga, ef
öll hjörðin, eða stór hluti hennar, hefði farist.
Þegar birti næsta dag, rofaði svo til, að Guðmundur áttaði
sig og vissi hvar hann var staddur. Það var hjá svonefndri
Hrafnadalsborg. Þaðan er skammt til bæjar. Þá bjuggu í
Hrafnadal Helga Sigurðardóttir og Þorsteinn Helgason, heið-
urshjón og gestrisin í besta lagi. Það virtist því liggja beint við
að leita til bæjar, er svona stóð á. Guðmundi leist annað.
Hann sneri til norðurs og gekk áleiðis að Kollsá. Býst
ég við að það sé tveggja til þriggja tíma gangur, í góðu færi og
veðri.
En víkjum nú frá Guðmundi um sinn.
— Ég vakna við það að barið er að dyrum, snemma dags, á
Litlu-Hvalsá. Heimilisfólkið var ekki komið á fætur. Faðir
minn gekk til dyra. Eftir skamma stund kom hann og sagði
fréttir. Gesturinn var föðurbróðir minn, Tómas bóndi að
Kollsá. Sagði Tómas, að fjármanninn Guðmund Einarsson,
50