Strandapósturinn - 01.06.1975, Blaðsíða 71
niður til miðju, þar sem komið var fyrir glugga. Var þetta
skarð kallað gluggatóft.
Nyrst húsa var baðstofan. Hún var portbyggð og með lofti.
Uppganga á loftið var frá syðri vegg og þar voru líka dyr fram
til næsta húss, sem var nánast geymsluhús ýmissa búshluta.
Það var í því hlutverki, sem á flestum bæjum er kallað
„Skemma." Þriðja í röð þessara bæjarhúsa voru bæjardyr að
austan, en hlóðaeldhús að vestan. Torfveggur var á milli og
dyr í gegnum hann, en engin hurð var þar fyrir. Þessar þrjár
húsaraðir höfðu allar sömu lengd og náðu stafnar þeirra því
jafnlangt fram bæði að austan og vestan.
Fjórða húsið í röðinni var fjós og lá gangur frá hlóðaeldhúsi
að innri fjósdyrum og þaðan áfram lengra til heygarðs, þar
sem borin voru upp hey til fóðurs þeim búpeningi er í fjósinu
var hafður. Undir baðstofu var eldavél og fór þar fram
matargerð og þar var einnig borðað. Hurð var á milli og fram
til geymsluhúss, var hún snerluð aftur með krók í gegnum
stafinn. Frá geymsluhúsi til hlóðaeldhúss var hurð sem rann á
snæri og heyrðist því oftast þegar hún var dregin upp og
þegar hún lokaðist og það jafnvel inn til baðstofu og upp á loft
þegar allt var hljótt.
Ég hefi tilgreint húsaskipunina svona nákvæmt, vegna þess
sem á eftir fór og vík ég þá að umræddu kvöldi þegar ég var að
koma heim. Ég kom frá austri og hafði því bæjardyr beint í
fang mér. Ég tók eftir því, er heim undir túnið kom, að ekki
var búið að kveikja ljós í baðstofu, því þar blasti austurgluggi
við mér. Ég gekk hiklaust að bæjardyrum, opna þær og fór
inn, en þegar ég var að fara inn úr dyrum á milli bæjardyra og
hlóðaeldhúss, sem voru hurðarlausar, en það lágar að ég
þurfti aðeins að beygja mig, enda þarna veggur á milli, þá
heyri ég að hurðin, sem rann á snærinu var dregin upp og um
leið og ég rétti mig upp heyrði ég fótatak og í sömu andrá
straukst eitthvað við brjóstið á mér. Ég sagði þá, „hver er
þarna,“ en það var steinshljóð að öðru en því, að ég heyrði
dauft fótatak um þvert eldhús og fram í gang á leið til
heygarðs, þar dó það út eins og það þá væri komið í mikinn
69