Strandapósturinn - 01.06.1975, Page 73
allstaðar komið í hús og auk þess er svo það, sem tekur af allan
vafa um þetta, en það er að hefði þetta verið raunverulegur
maður eins og ég og þú lesandi minn, þá hefði hann gert vart
við sig og haft samband við fólkið. Hann hefði þá átt erindi,
þó ekki væri annað heldur en hvíla sig og fá hressingu. Á
þessum árum voru menn ekki á ferðalagi án einhvers tilgangs
og menn hurfu þá ekki sporlaust eins og nú gerist. Menn urðu
jú úti á þeim árum, en þá voruþeir á einhverri þeirri leið, sem
fólk hafði hugmynd um hver var og flestir fundust þeir fyrr
eða síðar, þó að til væru undantekningar frá þvi. Tilgangsleysi
um ferðalög fólks var þá nær óþekkt fyrirbæri.
Við áttum þarna heima í sjö ár, og aldrei fyrr né síðar varð
ég nokkurs þess var þarna, sem ég gat heimfært undir
„Dularfull fyrirbæri,“ en það vil ég leyfa mér að gera um
þetta. En einhvern tíma á þessum árum, ég ætla það hafi
verið einu eða tveimur árum seinna, kom fyrir föður minn
ekki óáþekkt því, sem henti mig. Munurinn var helst sá, að
hann sá, en fann ekki, ég aftur á móti fann, en sá ekki.
Hann var að koma úr ferðalagi og kom sömu leið og ég
hafði komið. Þetta var í janúar eða febrúar og snjór yfir öllu.
Komið var fram á nótt, myrkur og dimmt í lofti með
snjó-slitring. Þegar hann kemur á sundið austan við bæjarhól-
inn, þá veitir hann því allt í einu athygli að maður gengur
skáhallt á vinstri hlið honum. Var hann svona átta til tíu
metra frá honum og heldur á undan og hafði stefnu á
tóftarbrotin efst í túninu. Stærð á þessari mannveru var álíka,
sem hjá tíu til tólf ára strák. Halda þeir nú hver sinni stefnu,
strákur stefnir á tóftarbrotin, en faðir minn stefnir á bæjarhús,
sem næst bæjardyrum, þá er strákur að koma í tóftarbrotin og
er horfinn um leið, sem hann hefði hulist eða gufað upp. Þegar
nú faðir minn ætlar að ganga í bæinn, þá finnur hann hvergi
bæjardyrnar. Skilur hann ekki hvernig slíkt má gerast þar sem
hann taldi sig standa rétt við þær. Fer hann nú einar tvær til
þrjár hringferðir um bæjarhúsin, en allt án árangurs, hann gat
hvergi fundið hurð, en sýndist allt vera veggir. Gerir hann sér
nú grein fyrir að hér er eitthvað óeðlilegt og dularfullt við. Sest
71