Strandapósturinn - 01.06.1975, Blaðsíða 81
Veturinn 1916 var fremur þungur í skauti, þó komu góðir
kaflar inn á milli, en snjór og frost hélst engu að síður.
Seinnihluta vetrar kom talsverður ís, sem þó að engu var í
námunda við þann ís, sem hér huldi firði og flóa vorið 1915 og
mörgum er minnisstætt.
Þegar ég nú lít um öxl og horfi í huganum á spegilsléttan
Reykjarfjörð og snæviþakið umhverfið, svört klettabeltin, sem
í bernsku áttu það til að taka á sig ýmsar kynjamyndir, en eru
nú í mínum augum svo eðlilega samgrónir hinni hrjóstrugu
náttúru, þá koma fram í hugann liðnir atburðir smáir á
heimsmælikvarða, dropi sem fellur í haf aldanna og gleymist.
Hér langar mig til að segja frá einni ferð, sem farin var yfir
Trékyllisheiði umræddan vetur.
Afi minn, Guðmundur Ólason, átti aðeins eina dóttur
barna, móður mína Petrínu, en ól upp tvö fósturbörn,
bróðurson sinn Ingvar Pétursson verkstjóra á Isafirði og
Ragnheiði Jónsdóttur systurdóttur sína, er hér verður getið.
Veturinn 1916 var hún á ísafirði. Voru þá liðin fimm ár frá
því hún fór að heiman, en oft mun hún hafa hugsað til
átthaganna, sérstaklega átti fóstri hennar hug hennar og
löngunin til að sjá hann varð æ áleitnari, og þegar hún var
ekki lengra í burtu en þetta, afréð hún að láta nú verða af því
að skreppa norður. Skipaferðir voru strjálar á þeim árum og
hún í atvinnu og mátti helst ekki missa langan tíma, en beið
þó átektar ef ferð félli. Þá var það að henni bárust þær fregnir,
að Magnús Hannibalsson skipstjóri á m/b Ingólfi væri á leið
til Norðurfjarðar. Nú voru góð ráð dýr, að vísu var ekki
árennilegt að leggja upp í slíkt ferðalag um hávetur, þar sem
um lítinn farkost var að ræða, en það var ekki langur tími til
stefnu, svo fljótlega var afráðið að leita fyrir sér um far. Kom
þá upp, að önnur stúlka ætlaði líka norður og dró það síst úr
henni að fara. Ekki er ótrúlegt að mörgum hafi þótt djarft
farið, þegar hið litla fley lagði frá bryggju á ísafirði, en allt
gekk vel til Norðurfjarðar. Það hittist svo á, að á Norðurfirði
var staddur Óli Pétursson í Kjós. Eftir hvíld og góðan beina,
lagði Ragnheiður af stað með honum. Afi var kominn heim
79