Strandapósturinn - 01.06.1975, Blaðsíða 95
Jóhannes Jónsson, Hólmavík. Alls voru 8 menn á bátnum
þennan róður.
Veðri var þannig háttað, að ekki blakti hár á höfði og ekki
sást votta fyrir öldu svo teljandi væri. Nú skyldi haldið norður
á mið það er kallast Hyrnur og er eitt frægasta hákarlamið á
Húnaflóa. Klukkan 4 síðdegis vorum við komnir til miða og
gekk greiðlega að leggjast, en við lögðumst þarna á um það bil
60 faðma dýpi. Austur af okkur lágu, næst m/b Gunnar frá
Drangsnesi, formaður Ingimundur Guðmundsson frá Byrgis-
vík, lengra í austur lá m/b Geir frá Hólmavík, formaður
Loftur Bjarnason. Það langt var á milli bátanna, að rétt sást ef
hákarl var heystur á næsta bát og var það kölluð skipalega.
Var það gert til þess að spilla ekki veiði hver fyrir öðrum, en ef
tveir bátar lágu á sama straumi þá spillti það veiðimöguleik-
um. Þegar við vorum lagstir var lítið að gera, nokkrir litu eftir
færunum ef sá grái skyldi gera vart við sig, en þess á milli var
farið niður í lúkarinn þar sem hlýjan og angandi kaffilyktin
buðu mann velkominn. Hvílíkur munur frá opnum bát, ágjöf
og frosti og hvergi afdrep, eða þetta, upphitaður lúkar, heitt
kaffi, koja og teppi, og þó var þetta ekki nema 9 tonna bátur.
Um miðnætti fengum við fyrsta hákarlinn, þá var skipt á
vaktir og voru 4 á vakt í einu og 3 tíma vaktir. K1 6 um
morguninn vorum við búnir að fá 6 hákarla. Rétt fyrir kl. 6
kom lítill dekkbátur, Beta frá Gjögri, formaður Magnús
Hannibalsson, og lagðist rétt fyrir framan stefni hjá okkur og
var það mjög óvanalegt að bátar gerðu slíkt, því það var talið
spilla fyrir veiði, en hér varð reyndin önnur. Er þeir á Betu
höfðu rennt færum sínum, varð sá grái svo óður hjá okkur að
ekki hafðist við að innbyrða hann. Voru nú ekki höfð úti nema
tvö færi og hafðist þó varla undan, lá þó enginn á liði sínu.
Næstu 4 klukkustundirnar voru dásamlegur tími. Lestin
fylltist á skammri stundu og dekkið fylltist ört, allstaðar var
hákarl, iðandi grá kös, 2—3 lágu dauðir við bátshliðina og nú
moraði sjórinn í kring af lifandi hákörlum, sem tóku að gæða
sér á dauðum félögum sínum, sem biðu eftir að verða
innbyrtir.
93