Strandapósturinn - 01.06.1975, Qupperneq 101
einstakan dag, þá hef ég dregið saman í stuttu máli veðurlýs-
ingu fyrir hvern mánuð.
Janúar. Byrjaði með éljagangi og frosti, er varð að sorta byl
með frosthörku, fyrstu viku janúar voru tveir góðviðrisdagar,
annars kafaldsbylur og frost, í annari viku janúar var útsynn-
ingur alla vikuna, oftast með éljum eða snjókomu. Utsynn-
ingurinn hélsf að mestu fram til 18. jan. en þá gerði
austnorðanátt með fannfergi og þann 19. jan. er austnorðan-
átt, gaddur yfir allt og haglaust, þann 20. jan. er aftur kominn
útsynningur með éljagangi og hélst svo til Pálsmessu. Síðasta
hluta janúar skiptust á útsynningur og norðan byljir, 30. jan.
gekk í útsunnan.
Febrúar. Byrjaði með útsynningi og éljagangi, er fór versn-
andi og varð að kafaldsbyl. Frá 7. til 14. febrúar, sem var
Öskudagur, var sæmilega gott veður, þá gerði norðan byl, en
gekk svo í útsynning er hélst nokkra daga. 19. febr. gekk til
norðanáttar með litlu frosti oftastnær, 22. og 23. var útsynn-
ingur, en 24. febr. skall á norðan ofsabylur með miklu frosti, er
hélst í þrjá daga, tvo síðustu daga febrúar var útsunnan og
sunnanátt með frosti fyrst, en svo hvassviðri og þíðviðri.
Mars. Byrjaði með sunnanátt, sólskini og blíðu, er hélst til 6.
mars, þá gerði austanbyl með frosti, en daginn eftir var komið
gott veður, þá gekk í útsunnan með kafaldséljum og rigningu
til skiptis, er hélst til 12. mars. Þá gerði austan frostbyl, en
birti upp daginn eftir og næstu þrjá daga var austanátt og gott
veður. Þá gerði norðanbyl með frosti í tvo daga, birti þá upp
með norðan hægviðri, gerði síðan austan frostbyl, en birti til
daginn eftir og sá til sólar. Því næst gekk í útsunnanátt með
frosti, sæmilegt veður fyrst, en herti veður og snjókomu og
þann 23. mars er útsunnan bylur og hlaðning, daginn eftir
gerði austan storm með skafkafaldi, en snérist í útsunnan og
hélst það í tvo daga. Þá gekk til austanáttar með litlu frosti.
Þann 29. mars, sem var Skírdagur, var aftur komin útsunnan-
átt með kafaldi og á Föstudaginn langa var frostbylur. Síðasta
dag marsmánaðar var austan skafkafald og frost.
April. Fyrsta apríl, sem var Páskadagur, var norðaustan
99