Strandapósturinn - 01.06.1975, Síða 116
klippa rósir úr bréfi fyrir okkur börnin. Næmleikinn í höndun-
um var svo mikill.
Þegar Jóna, yngsta barn hennar, var nýfætt, þá fór hún
höndum um andlit hennar og sagði. „Mér finnst hún lík henni
Helgu.“ Þetta var rétt, sem börn voru þær líkar.
En hún var einkennilega næm á fleiri sviðum. Steingrímur
Matthíasson læknir getur þess, þar sem hann minntist móður
sinnar, að á barnsárum hafi kvalið sig hugarvíl. Eg var undir
sömu sökina seld, seinni hluta vetrar, hefði þurft að fá „lýsi í
magann og sól á hörundið“ eins og Steingrímur kemst að orði.
Ég var hrædd um að missa foreldra mína eins og hann, og þá
var samvizkubitið ekki léttara. Hver smáyfirsjón varð að fjalli
á löngum og köldum þorradægrum. Þetta tókst mér að dylja
fyrir öllum, nema mömmu, þó að hún væri blind. Hún bað
mig að segja sér, hvað að mér gengi, og trúði ég henni þá fyrir
óróleik samvizkunnar. Hún talaði þá lengi við mig, en
minnisstæðast var mér, að hún sagði. „Börnin vita oft ekkert
hvað þau eru að gera, þau vita ekki hvað er rétt eða rangt.
T.d. ef litlu börnin gera eitthvað, sem þeim finnst ljótt, þá
vilja þau ekki gera neitt Ijótt, en þau eru svo lítil, að þau vita
ekkert hvað er ljótt.“ Henni tókst að lækna mig svo, að ég var
aldrei gripin slíkum heljartökum síðar.
Sumarið 1890 fréttist, að Björn Ólafsson frá Ási í Hegranesi
hefði lært augnlækningar og væri seztur að á Akranesi. Faðir
minn skrifaði honum litlu síðar og um haustið kom aftur bréf
frá lækninum, og taldi hann sénnilegt, að hægt væri að lækna
mömmu. Nú var ekki um annað talað en þessa fyrirhuguðu
ferð. Föður mínum datt í hug að fara seinni hluta vetrar, ef
góð yrði tíð, en af því varð samt ekki. Þá var það einn
morgunn um veturinn, að mamma sagði. „Nú dreymdi mig í
nótt drauminn, sem mig dreymdi svo oft á yngri árum. Hann
var að öllu leyti eins og áður, en þegar ég gekk inn ganginn, þá
leit ég við og sá þá sporin mín í rykinu, og þá hugsaði ég. „Það
er auðséð, að langt er síðan hingað hefur verið komið.“ Ég fór
inn í herbergið og settist á stólinn við gluggann, eins og ég var
vön.“ Þetta þótti einkennilegt, en öllum var hulin ráðningin.
Vorið eftir í júlíbyrjun var lagt af stað suður á Akranes. Vel
114