Morgunblaðið - 09.10.2021, Page 10
VIÐTAL
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Birgir Þórarinsson þingmaður Suð-
urkjördæmis hefur ákveðið að segja
skilið við Miðflokkinn, sem hann var
nýlega endurkjörinn fyrir, og gekk í
gærkvöld í þingflokk sjálfstæðis-
manna. Morgunblaðið ræddi við
Birgi og spurði hann fyrst um hvað
lægi að baki ákvörðuninni.
„Þetta er ekki léttvæg ákvörðun,
ég held að það sjái allir, og ég tek
hana að mjög vel ígrunduðu máli. En
eftir allt það sem á undan er gengið
og þá forsögu, sem ég lýsi í grein
minni [í Morgunblaðinu í dag], þá
ríkir ekki lengur traust milli mín og
forystu flokksins. Í ljósi þess væri
ekki heiðarlegt hjá mér, hvorki
gagnvart sjálfum mér né kjósendum,
að halda áfram innan hóps þar sem
skortir gagnkvæmt traust.
Ég er bara sannfærður um það að
í breiðum og öflugum hópi, þar sem
gagnkvæmt traust og virðing ríkir,
náist besti árangurinn. Allt í senn
gagnvart eigin samvisku, kjósendum
og þjóðinni allri.“
Þetta gerist ekki upp úr þurru?
„Þetta mál á sér talsverðan að-
draganda, allt aftur til gagnrýni
minnar á Klausturmálið og viðbrögð
flokksins við því. Ég hef aldrei notið
fulls trausts innan hópsins eftir það.
Ég var hins vegar fullur vilja til þess
að láta hlutina ganga og að við mynd-
um ganga sameinuð til þessarar
kosningabaráttu. En sú varð ekki
raunin. Það var beinlínis ráðist í
skipulega aðför gegn mér í
prófkjörsbaráttu og allt gert til þess
að ég yrði ekki oddviti.“
En þú hafðir sigur.
„Ég hafði sigur, það er rétt. En
þetta hélt síðan áfram fram í kosn-
ingarnar. Þá tók steininn úr, þegar
fimm dögum fyrir kosningar kom
skeyti frá lykilmönnum í flokknum
um að listinn væri ótrúverðugur.
Þetta fékk mann til þess að endur-
hugsa þetta allt saman. Þetta voru
gríðarleg vonbrigði og kaldar kveðj-
ur í baráttunni. Það er mjög sárt að
finna að menn vilji bara losna við
mann.“
Þú ákveður samt ekki að fara fyrr
en eftir kosningar.
„Auðvitað veltir maður fyrir sér
hvernig er að vinna með fólki sem
treystir manni ekki og vill mann á
burt. Ég var ekki tilbúinn til þess að
gera það næstu fjögur árin.
Ég stend fyrir mörg góð málefni,
hugsjónir og gildi, sem ég vil koma
áfram fyrir þá kjósendur, sem hafa
stutt mig. Það er ekki hægt undir
þessum kringumstæðum.“
Þú segir lykilmenn, var formað-
urinn þar á meðal?
„Ég hefði kosið að hann hefði stig-
ið inn í þetta, en hann gerði það ekki.
Hvort sem hann hélt sig frá þessu
eða vissi af þessu, því get ég ekki
svarað.“
Breyttu þessi vandræði í Norð-
vesturkjördæmi einhverju um þetta?
„Nei, þessi ákvörðun er þeim óvið-
komandi. Ég er kjördæmakjörinn
þingmaður í Suðurkjördæmi og mál-
ið hefur engin áhrif á mína stöðu í
þinginu. Ég vona bara svo sannar-
lega að þetta mál í Norðvesturkjör-
dæmi leysist farsællega.“
Komu aðrar lausnir til greina?
Hvað með kjósendur, sem héldu að
þeir væru að kjósa Miðflokkinn, en
vakna nú upp við að hafa sent sjálf-
stæðismann á þing?
„Það hefði verið rangt af mér að
draga mig út úr baráttunni nokkrum
dögum fyrir kosningar. Ég bauð mig
fram með það loforð gagnvart kjós-
endum, að vinna að framgangi mik-
ilvægra mála, og ég veit að margir
kusu mig persónulega; ég ætla að
standa við þau fyrirheit.
En það eru þessir dagar, við val á
framboðslista og svo í kosningabar-
áttunni, þá er alveg ljóst að and-
rúmsloftið gagnvart mér er ekki að
breytast til hins betra og möguleikar
mínir til þess að ná raunverulegum
árangri afar takmarkaðir á þeim
vettvangi. Þess vegna tel ég heið-
arlegast að sækja fram þar sem
mestar líkur eru á að baráttumál,
sem ég hef sett á oddinn, nái fram að
ganga.“
Ertu einn í þessu?
„Ég hef rætt við mitt trúnaðarfólk
í flokknum, sem styður mig í þessari
ákvörðun. Málið á sér aðdraganda
og ekki skyndiákvörðun að því leyti.
Þetta fólk stendur heilshugar með
mér.“
En varamaðurinn?
„Það er öflugur varamaður, sem
ég er með og hún [Erla Bjarnadóttir]
styður mig í þessari ákvörðun.“
Þér hefur ekki dottið í hug að fara
aftur í Framsóknarflokkinn?
„Nei, ég tel mig eiga betri mál-
efnalegan samhljóm með Sjálfstæð-
isflokknum í þeim málum, sem ég hef
lagt ríkasta áherslu á. Það má nefna
ábyrga stjórn ríkisfjármála, sem
hefur verið grundvallarmál í mínum
störfum í þinginu og ég mun halda
áfram að tala fyrir henni af krafti
innan raða Sjálfstæðisflokksins.“
Hvernig gekk þetta til, báru sjálf-
stæðismenn í þig víurnar?
„Nei, frumkvæðið er mitt. Það er
nú einu sinni þannig, að manni þarf
að líða vel í vinnunni, en þegar það er
hópur áhrifafólks, sem gerði allt til
þess að koma mér í burtu, þá hugsar
maður sinn gang. Það er ekki heilla-
vænlegt, hvorki fyrir mig né þau, að
vera að standa í vegi fyrir því.“
Hvernig tóku sjálfstæðismenn
þér?
„Þeir tóku mér bara mjög vel. Ég
hef náttúrulega haldið uppi málefna-
legri gagnrýni á ýmis mál Sjálfstæð-
isflokks og annarra flokka. Ég mun
hvergi hvika frá mínum skoðunum,
en Sjálfstæðisflokkurinn er breið-
fylking þar sem margar skoðanir
komast fyrir.“
Hvernig líst þér svo á stjórnar-
myndunarviðræðurnar?
„Mér skilst að þetta gangi ágæt-
lega og vona að menn nái að setja
saman góðan stjórnarsáttmála,
þannig að öll álitamál verði frágeng-
in. Þá ætti þetta að ganga vel.“
Gat ekki haldið áfram án trausts
- Birgir Þórarinsson í viðtali um viðskilnaðinn við Miðflokkinn - Skipuleg aðför í kosningabaráttu
- Hefði kosið að Sigmundur Davíð tæki í taumana - Vill ná fram fyrirheitum við kjósendur
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Vistaskipti Birgir Þórarinsson er genginn til liðs við sjálfstæðismenn.
10 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 9. OKTÓBER 2021
Ýmsar gerðir af heyrnartækjum
í mörgum verðflokkum,
stærðum og litum.
Allar helstu rekstrarvörur og
aukahlutir fyrir heyrnartæki
fást í vefverslun
vefverslun.heyrn.is
HEYRNARÞJÓNUSTA
2007
HLÍÐASMÁRI 19, 2. HÆÐ • 201 KÓPAVOGI • SÍMI 534 9600 • HEYRN@HEYRN.IS • HEYRN.IS
Heyrðu
umskiptin,
fáðu heyrnartæki
til reynslu