Morgunblaðið - 06.12.2021, Blaðsíða 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 6. DESEMBER 2021
Rafstilling ehf
Dugguvogi 23, 104 Reykjavík, sími 581 4991, rafstilling@rafstilling.is
Opið mán.-fim. kl. 8-17, fös. kl. 8-14
Hröð og góð þjónusta um allt land
Áratuga
reynsla
Startar bíllinn ekki?
Við hjá Rafstillingu leysum málið
Erlendur bakjarl
Áhrif heimsóknar Faulkners til Ís-
lands árið 1955 náðu langt út fyrir
raðir menntamanna og rithöfunda og
heimsóknin fékk meiri athygli í út-
varpi og blöðum en aðrar viðlíka
opinberar heimsóknir bandarískra
listamanna höfðu fengið fram til
þessa. Í skýrslu bandaríska sendi-
ráðsins í Reykjavík um heimsóknina
er þess sérstaklega getið að Þjóðvilj-
inn hafi reynt að gera sér mat úr yfir-
lýsingu Faulkners um dóminn yfir
morðingjum
Emmetts Louis
Tills. Það hafi
verið gert í því
augnamiði að
draga upp mynd
af Faulkner sem
einörðum gagn-
rýnanda eigin
þjóðar. Blaðið
hafði samt ekki
erindi sem erfiði að mati skýrsluhöf-
undar og ekki varð framhald á þess-
um málflutningi Þjóðviljans. Í skýrsl-
unni er umfjöllun Morgunblaðsins
sögð hafa verið best og yfirlýsing
Faulkners um veru hersins hérlendis
mögulega það mikilvægasta sem
gerðist meðan á heimsókninni stóð.
Einnig ríkti ánægja með að Faulkner
skyldi ekki hafa lagt lykkju á leið sína
til að ræða pólitík eða ráðast á komm-
únista en hafa svarað skýrt og skil-
merkilega þegar hann var inntur eftir
svörum.
Sömu afstöðu má greina í
skýrslum bandarískra embættis-
manna eftir heimsókn Faulkners til
Japans. Virðast þeir hafa talið mega
túlka tilefnislausar ræður um pólitísk
málefni sem áróður. Höfundur
skýrslunnar um Íslandsheimsóknina
tekur fram að erfitt sé að leggja mat
á það hvort Faulkner hafi breytt af-
stöðu nokkurs Íslendings en það sé
skoðun starfsmanna sendiráðsins að
nálgun Nóbelsskáldsins hafi höfðað
til breiðs hóps.
Á upplýsingaskrifstofu Bandaríkj-
anna í Reykjavík og USIA í Wash-
ington var vilji fyrir því að halda
minningu Íslendinga um heimsókn
Faulkners vakandi. Í byrjun desem-
ber 1955 sendi upplýsingaskrifstofan
frá sér skýrslu til Washington þar
sem fram kemur nokkur áherslu-
munur milli embættismannanna ytra
og erindrekanna á Íslandi; þeir fyrr-
nefndu virðast hafa viljað setja yfir-
lýsingu Faulkners um veru herliðsins
á Íslandi á oddinn en þeir síð-
arnefndu óttuðust að allar beinar til-
vísanir til yfirlýsingarinnar yrðu túlk-
aðar sem áróður. Af þessum
ástæðum lagðist upplýsingaskrif-
stofan gegn tillögu USIA um að útbú-
inn yrði sérstakur bæklingur um Ís-
landsheimsóknina og honum dreift
hér á landi, vænlegra væri að minna
reglulega á heimsóknina í íslenskum
fjölmiðlum og það mætti gera með
því að láta þeim í té fréttaefni um eða
eftir Faulkner. Íslendingar hefðu
mikinn áhuga á höfundinum sem
brýnt væri að viðhalda. Upplýs-
ingaskrifstofan myndi fagna grein
skrifaðri af Faulkner um ferðina um-
hverfis heiminn og í því samhengi
gæti einlæg og hófstillt umræða um
hlutverk bandarískra hermanna á er-
lendri grundu virst eðlileg. Öðru máli
gegndi um hápólitíska, áróð-
urskennda nálgun sem væri fjarri
lyndiseinkunn Faulkners sjálfs.
Skýrslan í desember 1955 er tæp-
lega þrjár síður en næstum helmingi
hennar er varið í að útskýra það sem
á einum stað er kallað „the Laxness
problem“, þ.e. hvaða afstöðu Banda-
ríkjamenn eigi að taka til Halldórs
Laxness, en skömmu eftir að Faulk-
ner yfirgaf Ísland var tilkynnt að
Halldór hlyti Nóbelsverðlaunin í bók-
menntum. Í skýrslunni kemur fram
að engin óformleg samskipti eigi sér
stað milli Íslendinga og Bandaríkja-
manna án þess að heimamenn spyrji:
„Hvað finnst þér um að Laxness hafi
fengið Nóbelsverðlaunin í bók-
menntum?“ Algengasta svar sendi-
ráðsstarfsmanna væri á þá leið að
þeir virtu hann sem rithöfund þó að
þeir styddu ekki pólitískar skoðanir
hans og að verðlaunin væru verð-
skulduð viðurkenning fyrir íslenskar
bókmenntir. Innan sendiráðsins
hefðu farið fram umræður um það
hvort ætti að bregða út af þessari línu
en þar hefðu menn komist að þeirri
tímabundnu niðurstöðu að Banda-
ríkjamenn ættu ekki að gefa frá sér
neinar yfirlýsingar um Halldór sem
vektu sérstaka athygli. Hins vegar
væri hann hégómlegur og þráði við-
urkenningu utan raða kommúnista.
Og innan sendiráðsins væru menn
þeirrar skoðunar að hægt væri að
hafa áhrif á Halldór með því að
smjaðra fyrir honum. Ekki væru lík-
ur á því að hægt væri að gera Halldór
að óskoruðum stuðningsmanni
Bandaríkjanna eða andstæðingi Sov-
étríkjanna en þótt aðeins tækist að
milda afstöðu hans örlítið væri það já-
kvæð þróun.
Í skýrslunni kemur enn fremur
fram að Halldór Laxness hafi upp á
síðkastið lagt sig fram við að neita því
að hann væri kommúnisti. Höfundur
skýrslunnar lítur svo á að margar
hliðar Laxnessvandamálsins séu utan
verkahrings upplýsinga-
skrifstofunnar en þegar það sé rætt í
samhengi við William Faulkner leggi
hún áherslu á eftirfarandi: Í fyrsta
lagi eigi engin frétt eða grein um
Faulkner að lítilsvirða verk Laxness
með nokkrum hætti. Í öðru lagi eigi
að hvetja Faulkner, ef hægt sé, til að
taka hóflega en jákvæða afstöðu til
Laxness. Stórkostlegt hrós sé ekki
nauðsynlegt en Faulkner hafi þegar
lýst því yfir að hann hafi heyrt um
Laxness en ekki lesið verk hans og
myndi vilja hitta hann ef tækifæri
gæfist.
Skýrsluhöfundur veltir því fyrir
sér hvort Faulkner geti endurtekið
þessa yfirlýsingu með innilegum
hamingjuóskum með Nóbels-
verðlaunin; það mætti m.a. gera með
viðtali sem upplýsingaskrifstofan
tæki við hann eða grein sem hægt
væri að skrifa fyrir fram en hann
legði blessun sína yfir. Loks er tekið
fram að Faulkner hafi verið mjög
móttækilegur fyrir tillögum af þessu
tagi meðan á heimsókn hans stóð. Í
þriðja og síðasta lagi er því velt upp
hvort Faulkner, einhver stofnun eða
einstaklingur innan bókmennta-
heimsins, sem ekki teldist til með-
reiðarsveina Sovétríkjanna, ætti að
bjóða Laxness til Bandaríkjanna en
auðvitað þyrfti að kanna áður hvort
hann gæti fengið vegabréfsáritun.
Skýrslunni lýkur á þeim orðum að
það sé mat þeirra sem starfi á vegum
Bandaríkjastjórnar á Íslandi að þess-
ar aðgerðir myndu hafa jákvæð áhrif
á Íslendinga og styrkja þau áhrif sem
Faulkner hefði haft á íslensku þjóð-
ina.
Eitt af því sem Bandaríkjamenn
voru sérstaklega ánægðir með við
heimsókn Faulkners til Íslands var
sá góði hljómgrunnur sem hann fékk
í Háskóla Íslands en þar töldu
Bandaríkjamenn sig oft hafa mætt
fálæti eða jafnvel fjandskap. Árið
1955 voru raunar í burðarliðnum sér-
stakar aðgerðir til að öðlast ítök í há-
skólasamfélaginu, m.a. með því að fá
gestafyrirlesara hingað til lands. Átti
fyrirlesarinn að koma íslenskum
fræði- og námsmönnum í beint sam-
band við bandaríska menningu og
rannsóknir og stemma stigu við
áróðri frá kommúnistum og Sovét-
ríkjunum sem hefði tekist að nýta sér
þjóðernishyggju Íslendinga til að
koma hugmyndafræði sinni á fram-
færi. Bandaríkjamenn höfðu auga-
stað á málvísindamanni af norskum
ættum, Einari Haugen, sem kom
hingað til lands í ársbyrjun 1956 og
flutti um tug fyrirlestra um málvís-
indi, Henrik Ibsen, bandaríska há-
skólakerfið og fleira.
Á haustmisseri árið 1957 hóf
Hjalmar O. Lokengard, prófessor við
Minnesota State College, kennslu við
Háskóla Íslands. Vorið 1958 kenndi
hann fyrsta námskeiðið við skólann
sem eingöngu var helgað bandarísk-
um bókmenntum. Það var ætlað stúd-
entum eða öðrum með hliðstæða
enskukunnáttu, eins og fram kemur í
fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands
sem birtist í íslenskum dagblöðum,
þar með töldum Þjóðviljanum. Nærri
áramótum vantaði enn kennslugögn
og því óskaði sendiráðið eftir því við
utanríkisráðuneytið í Washington að
það sendi 25 eintök af eftirtöldum
bókum: Intruder in the Dust eftir
William Faulkner, Farewell to Arms
eftir Ernest Hemingway, McTeague
eftir Frank Norris, Giants in the
Earth eftir Ole Rølvaag og Grapes of
Wrath eftir John Steinbeck. Loken-
gard dvaldi eitt skólaár á Íslandi. Í
Árbók Háskóla Íslands kemur fram
að hann hafi verið Fulbright-
prófessor en Menntastofnun Banda-
ríkjanna á Íslandi auglýsti náms- og
ferðastyrki handa íslenskum há-
skólaborgunum á grundvelli
Fulbright-laganna í fyrsta sinn
haustið 1958.
Tvö Nóbelsskáld:
„the Laxness problem“
Bókarkafli Í bókinni Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu segir Haukur Ingvarsson meðal annars frá því er bandaríski
rithöfundurinn og Nóbelsverðlaunahafinn William Faulkner sótti Íslendinga heim haustið 1955. Kalda stríðið var í algleymingi
og í bókinni fjallar Haukur um ástandið í íslenskri menningu og menningarpólitík á þessum tíma.
Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Þórarinn Sigurðsson
Módernisti William Faulkner ásamt Guðrúnu Steingrímsdóttur flugfreyju um borð í flugvél Loftleiða eftir dvöl hans á Íslandi árið 1955.