Strandapósturinn - 01.06.2018, Page 132
130
túni. Það var heilmikið verk að skrapa saman allt sem ekki bar
lengur áburð, og var það helst ætlað unglingum, strákum og
stelpum. Þennan úrgang varð að bera burt í pokum á bakinu.
Eftir þetta var túnið tilbúið undir slátt.
Meðan á þessu stóð var farið á sjó með handfæri. Fiskur var
oftast nógur úti á skerjagrunninu. Þangað var um 10 mín. róður
frá Kambi. Oftast fékkst þar ágætur þorskur og stundum ýsa og
fleiri tegundir. Svo ekki var undan því að kvarta. Ég man hve mik-
ið var af hnísu þarna úti á skerjagrunninu. Þær komu alveg að
bátnum eins og þær vildu heilsa manni, það var skemmtilegt.
Á Kambi byrjaði sláttur um mánaðamótin júlí-ágúst. Túnið var
fyrst slegið, þ.e. slétturnar. Túnið var rosalega þýft en inn á milli
voru sléttir blettir og þangað var borið heyið af þýfinni. Þetta var
þrældómur sem var ætlaður unglingum aðallega, ég man vel eftir
þessu. Túnið kom fljótlega í flekki á þeim blettum sem sléttir voru
og þar var taðan þurrkuð. Eftir margar rifjanir (snúning) á heyi,
var því rakað saman í lanir (þ.e. ef heyið var ekki orðið nógu
þurrt til að hirða mætti). Næsta dag, ef góður þurrkur var, var
aftur dreift úr lönunum og þetta gert þar til heyið var fullþurrk-
að. Þá var það sett saman í sátur sem síðan voru ýmist settar á
klakk á hesti eða bornar á bakinu inn í hlöðu. Það var talað um
kýrfóður hve mikið hlaðan tók af heyi. Kannski voru þau ekki svo
mörg á Kambi. En erfiðið var mikið við að afla þeirra. Síðan þurfti
að þurrka það hey sem við þurftum að bera af þúfunum út á
slétturnar. Það var okkur mjög erfitt en ekki þýddi að kvarta. Eftir
túnhirðingu og töðugildin sem ég man ekki eftir, hófst sláttur á
útengjum sem kallað var, það var heyskapur á óræktuðu landi.
Mýrlendi var slegið og hver grasblettur sem vænlegur var til nytja
upp um allar brekkur og niður um, allt til sjávar. Allstaðar varð að
afla heyfangs. Til að koma þessum heyfeng heim þurfti mikla
þrautseigju og erfiðið var mikið. Oftast var heyið flutt heim á tún
óþurrkað. Það var rakað saman og bundið í bagga og flutt heim á
hestum og þurrkað þar. Þegar heybandið var flutt þá var það kall-
að að fara með. Maður gekk með hestinum og varð að passa að
ekki hallaðist á reiðingnum. Þegar heim á tún var komið var
hleypt niður sátunum með því að losa um hnúta á þeim. Síðan var
að taka reipið af, gera það upp, setja á klakkinn og halda í næstu
ferð. Unglingar voru notaðir til að fara með og var það mitt hlut-