Morgunblaðið - 11.12.2021, Síða 44
44 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 11. DESEMBER 2021
F
ornaldarsögur Norður-
landa fengu þetta fræði-
heiti þegar Carl Christian
Rafn gaf út safn þeirra
1829-30, en sögurnar gerast í fjar-
lægri fortíð, fyrir landnám Íslands
og að miklu leyti á Norðurlöndum;
sumar reyndar á fjarlægum slóðum.
Þær hafa alltaf staðið í skugga
Íslendingasagna og öndvert við þær
gjarnan kallaðar lygisögur. Það er að
vísu svo að í fornaldarsögum getur
allt gerst, mönnum er bruggaður
óminnisdrykkur, þeir skipta um
ham, berjast við risa, stinga sér í
jörð niður og „þó að þeir klyfist í
herðar niður, þá stóðu þeir upp sem
áður og börðust“ (Sörla þáttur).
Ekki var fornaldarsögum mikill
gaumur gefinn þegar ég var í há-
skólanámi um 1970. Orkan fór eigin-
lega öll í Íslendingasögur, lítillega
vikið að Snorra og Sturlu frænda
hans, eddukvæðin allvel rýnd;
nokkrar dróttkvæðar vísur. Fornald-
arsögur sverja sig í ættina, eru ná-
skyldar öðrum miðaldabókmenntum
um frásagnarhátt og stíl og eru
sannarlega merkilegar bókmenntir
og bráðskemmtilegar þar sem list-
fengir menn hafa mótað eldgamlar
arfsagnir og kvæði í nýtt form,
stundum steypt saman í eina per-
sónu nafngreindum mönnum sem
voru til og goðsögulegum hetjum,
„afrek einnar hetju gátu auðveldlega
færst yfir á aðra(r)“ (II,20). Í bland
er mestallt efni sumra sagna hreinn
skáldskapur og e.t.v. eru fornald-
arsögurnar alþýðlegri en aðrar bók-
menntir tímans (I,17). Flestar voru
þær skráðar á 13. og 14. öld og jafn-
vel síðar og áreiðanlega einhverjar
seint á 12. öld. Ótal rímur voru ortar
þar sem efni þeirra var orðað í
bundnu máli og sýnilega eru margar
sögur týndar en lifa í rímunum. Fær-
eyingar ortu sér danskvæði upp úr
fornaldarsögum (II,145) og norrænir
sagnadansar sækja sér efni í 16 forn-
aldarsögur (II,151). Sums staðar er
texti sagnanna með votti af ljóð-
stöfum, jafnvel hrynjandi sem getur
vitnað um að kvæði hafi verið meðal
heimilda (I,74); gömul kvæði hafa
einnig geymst í nokkrum sagnanna.
Menn tóku við aldagömlum arfi
„juku við hann og skiluðu svo áfram
hver með sínum hætti“ (I,11). Nú eru
varðveitt á áttunda hundrað hand-
rita með einni eða fleiri sögum (I,
13), enn fleiri hafa týnst. Meðal
þeirra má nefna Sigurðar sögu
hrings og Huldar sögu (II;28, 123). Í
útgáfu Rafns var prentuð 31 saga, en
34 í útgáfu Guðna Jónssonar 1953.
Vonandi verða þær senn gefnar út á
vegum Hins íslenska fornritafélags,
þær eiga skilið þann sess og fræði-
lega umgjörð. Hefðin býður að
skipta sögunum upp í hetjusögur
(t.d. Völsunga saga), víkingasögur
(t.d. Ragnars saga loðbrókar) og loks
ævintýrasögur (t.d. Bósa saga og
Herrauðs; I,21-22). Tolkien fékk inn-
blástur úr hetjusögum að ekki sé nú
gleymt Richard Wagner og óperum
hans. Hér má nefna að Ragnars saga
sækir efnivið í rúmlega 20 rit frá
nokkrum löndum sem skráð voru frá
9. öld til hinnar 13. (II,31). Saxi mál-
spaki notar efni úr 13 fornaldar-
sögum í Danmerkurkróniku sinni
(II,102).
Skyggnst bak við sögurnar
Þau rit sem hér liggja fyrir eru fyrri
tvö bindin af fjórum í ritröð sem hef-
ur hlotið nafnið Arfur aldanna, því að
í þessum bókum er skyggnst bak við
fornaldarsögurnar, ef svo má segja,
fjallað um aðföng eða rætur þeirra
hvort sem eru annálar, kvæði, sagn-
ir, myndir, kröníkur, yfirleitt í mjög
knöppu formi, t.d. eddukvæðin
(II,18). Í Handan Hindarfjalls er far-
ið víða um Evrópu í þessu skyni, allt
frá 4. öld og fram yfir hámiðaldir en í
norðurvegi er sjónum beint að
Norðurlöndum frá 7. öld, jafnvel
fyrr, og fram til 13. aldar. Í báðum
bindum er einnig skyggnst eftir
myndefni, en atvik úr hetjusögum
voru meitluð í stein (einkum í Sví-
þjóð og á Gotlandi), mótuð í gull/
silfur á mynt eða ‚kingur‘, skorin í
tré (mest í Noregi) og slegin í vefn-
að; þessar minjar eru nú varðveittar
í mörgum þjóðarsöfnum víða í Evr-
ópu. Ekki er alltaf augljóst hvað býr
undir en margar myndir hafa fund-
ist þar sem maður í gryfju stingur
með sverði dreka sem skríður yfir
holuna (Sigurður að drepa Fáfni) og
af manni sem er í gryfju og að hon-
um sækja ormar (Gunnar Gjúka-
son). Sigurður og heilagur Georg
eru þekktustu drekadráparar sög-
unnar, að ætla má! Í báðum bindum
er rakin rannsóknarsaga þessarar
bókmenntagreinar.
Efniviður fornaldarsagna er sam-
an felldur úr „arfsögnum eða sagna-
sjóði sem var að grunni til sameig-
inlegur íbúum á stórum svæðum
Norður-Evrópu og varðaði annars
vegar fortíð Norðurlandabúa og hins
vegar germanskra þjóða og þjóðar-
brota í víðara samhengi“ (I,37). Bók-
menntaleg endursköpun þessa arfs
er að „miklu leyti bundin við Ísland“
(I,39). Dýpstar og mestar rætur
virðast standa undir Völsunga sögu,
hetjukvæði Eddu, Niflungaljóð hin
þýsku, Þiðriks saga af Bern sem
sver sig bæði í ætt fornaldarsagna
og riddarasagna, Bjólfskviða o.fl.;
efni tengt Völsungum er í níu kvæð-
um sem talin eru ort frá 7. til 13. ald-
ar á Englandi og í Þýskalandi o.v.
(II,161). Persónur í Völsunga sögu
birtast með dramatískum hætti í
mörgum fornum heimildum í ýmsum
löndum. Lærðar bækur hafa verið
samdar um tengsl þeirra við fólk
sem var til, Sigurð Fáfnisbana,
Gunnar og Högna, Brynhildi, Atla
o.fl. Ekki verður fjölyrt um þær hér;
Búrgundar býsna miðlægir og lykil-
orrusta á þjóðflutningatímum, árið
451 (II,11). Öllu þessu gerir Aðal-
heiður einstaklega góð skil og bendir
á að „sagnfræðilegur kjarni … getur
með tímanum færst yfir á aðrar per-
sónur og atburði“ (I,107).
Heiti og kenningar í dróttkvæðum
og öðrum kveðskap þurftu að vera
áheyrendum skiljanleg. Skáld sem
notar heitið ‚grimhildr‘ um fjölkunn-
uga konu þekkir Grímhildi úr Völs-
unga sögu og viðtakendur væntan-
lega líka (II,63). Það skáld sem
kennir gull sem ‚Rínar bál‘ er líka
vel að sér í Völsunga sögu – og ekki
gat hann boðið áheyrendum upp á
eitthvert bull sem hann einn skildi!
Í lokakafla II. bindis er fjallað um
hetjusögu í ræðu og riti (201-209).
„Hlutverk hetjunnar er að leiða sam-
félagið út úr þeim háska og hremm-
ingum sem steðja að hverju sinni og
saga hennar, hetjusagan sem slík,
einkennist því jafnan af afar fastmót-
aðri formgerð, frásagnarlega séð“
(203). Þetta hefur ekkert breyst og
nægir að benda á James Bond í nú-
tímanum. Hetjur fornaldarsagna
sættu þó oft grimmum örlögum,
ósköpum. Sagnamenn sögðu þessar
sögur og viðtakendur hafa væntan-
lega verið heimilismenn og gestir á
höfðingjasetrum; sagnamenn þurftu
að hafa eitthvað fyrir snúð sinn sem
ekki var í boði hjá þorra alþýðu. Ætli
ritun alls konar frásagna hafi ekki
haldist í hendur við samþjöppun
valds á þjóðveldisöld? Nokkru fyrir
1200 og fram eftir 13. öld söfnuðust
goðorð á hendur nokkurra ætta sem
héldu sig ríkmannlega og höfðingjar
höfðu um sig sveit manna. Þurfti
ekki að skemmta þeim á kvöldin?
Valdamenn hafa vafalítið látið skrifa
fyrir sig bækur til að láta lesa fyrir
sig og sína. Klaustrin hafa sennilega
verið miðstöðvar slíkra skrifa og
þangað hafa menn leitað, ýmist til að
læra leturgerð eða kaupa þessa
þjónustu.
Stórmerkilegt rit
Margar rammagreinar prýða bæk-
urnar með fróðleiksmolum og skýr-
ingargreinum, ríkulegt myndefni,
töflur sem sýna hvar tiltekin minni
koma fyrir, hvar ákveðnar samsvar-
andi myndir hafa fundist o.s.frv., allt
til léttis og yfirlits fyrir lesendur.
Bókin er fallega út gefin, meginmál
sett í tvídálk, myndir lagðar í letrið
þar sem við á, spássíur rúmar.
Þetta er stórmerkilegt rit. Aðal-
heiður hefur dregið að sér feiknin öll
af heimildum og unnið afar skipulega
úr þeim. Bækurnar eru enginn
áhlaupalestur, lesandi þarf að
staldra við og íhuga eitt og annað.
Sumir kaflar eru harðir undir tönn
en í heildina er þetta læsilegt og að-
gengilegt fræðirit sem lýkur upp
dyrum að eldgömlum tíma sem undir
liggur þessum bókmenntum; ritrýn-
ar draga þó jafnan úr stílþrifum, hef-
ur mér sýnst. Ég hafði ánægju af
lestrinum og fagna því mjög að nú,
loksins, loksins, hefur fornaldar-
sögum Norðurlanda verið sýndur sá
sómi sem þeim ber. Ég hlakka til að
lesa framhaldið!
Fornaldarsögur Norðurlanda endurlífgaðar!
Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Höfundur „…loksins, loksins, hefur fornaldarsögum Norðurlanda verið
sýndur sá sómi sem þeim ber,“ segir um skrif Aðalheiðar Guðmundsdóttur.
Fræðirit
Arfur aldanna I – Handan Hindar-
fjalls, Arfur aldanna II – Norðvegur
bbbbm
Eftir Aðalheiði Guðmundsdóttur.
Tvö innbundin bindi, 240+249 bls.,
útdráttur á ensku, skrár.
Háskólaútgáfan 2021
SÖLVI SVEINSSON
BÆKUR
Kvennakórinn Katla, Karlakórinn
Esja, Olga Vocal Ensemble og
Drengjakór Reykjavíkur sameinast
á þrennum jólatónleikum í Lang-
holtskirkju á morgun, sunnudag,
kl. 17 og 20, og á mánudagskvöld
kl. 20.
Í tilkynningu segir að samstarf
þessara kóra og sönghóps hafi haf-
ist fyrir þremur árum og voru þá
fyrstu sameiginlegu tónleikarnir og
svo aftur á aðventu 2019.
„Mikill stemning og gleði skap-
aðist í kringum undirbúning þess-
ara tónleika og svo voru tónleikarn-
ir sjálfir rúsínan í pylsuendanum
fyrir alla sem að komu. Jólaandinn
og augljós samheldni hópanna
skein í gegn og tónleikarnir slógu í
gegn,“ segir í tilkynningunni.
Efnisskrá tónleikanna er sögð af-
ar fjölbreytt, „allt frá himneskum
jólasöngvum yfir í smá popp og
ættu því allir að komast í stuð, þú
veist … svona jóla“.
Kórar og sönghópur saman á tónleikum
Morgunblaðið/Kristinn
Jólaandi Drengjakór Reykjavíkur er einn
kóranna sem koma fram á tónleikunum.
Verkið „Stjarnan
í austri“ eftir
Geirr Lystrup
verður flutt á að-
ventukvöldi Frí-
kirkjunnar í
Reykjavík annað
kvöld, sunnu-
dagskvöld, kl. 20.
Aðalsteinn Ás-
berg Sigurðsson
hefur íslenskað
verkið og er einn flytjenda, ásamt
söngkonunni Þorgerði Ásu Aðal-
steinsdóttur, Ásgeiri Ásgeirssyni
sem leikur á balalæku, píanóleik-
aranum Gunnari Gunnarssyni, Erni
Ými Arasyni sem leikur á kontra-
bassa og Sönghópnum við Tjörnina.
Norska söngvaskáldið og vísna-
söngvarinn Geirr Lystrup samdi
fyrir um tveimur áratugum þetta
nýstárlega tilbrigði við jóla-
guðspjallið. Verkið er samið fyrir
tvo vísnasöngvara, kór og litla
hljómsveit og sló í gegn og hefur
verið flutt margoft og víða.
Tónleikagestir þurfa að framvísa
neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi
eða PCR-prófi.
Flytja Stjörnuna í austri eftir Lystrup
Aðalsteinn Ásberg
Sigurðsson