Morgunblaðið - 02.04.2022, Síða 42
42 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. APRÍL 2022
VIÐTAL
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
„Síðustu áratugina hefur þetta verið
þannig að ég hef verið með ljóðabók á
svona sjö ára fresti. Ég yrki mjög
hægt og sjaldan og oft af einhverju
tilefni. Ég er beðinn um einhvern
texta, beðinn að hugsa um eitthvað
ákveðið eða það er eitthvað annað til-
efni sem veldur því að ég fer að hugsa
meira í ljóðformi og hlusta eftir því.
Þannig að ég leyfi þessu að gerast
hægt og bítandi,“ segir rithöfundur-
inn Sigurjón Birgir Sigurðsson, Sjón,
sem nýverið sendi frá sér sína þrett-
ándu ljóðabók. Sú ber titilinn Nætur-
verk.
„Ég byrjaði náttúrulega sem ljóð-
skáld, bara sem unglingur, og þá
skrifuðu ljóðin sig bara sjálf. Ég
skrifaði eiginlega frá upphafi á ritvél,
aldrei í stílabækur eða svoleiðis, og í
rauninni byrjaði mér að finnast ég
vera að ná tökum á ljóðforminu þegar
ég vann á hana. Ljóðin urðu svo skýr.
Ég upplifði ljóðin á blaðsíðunni meira
eins og þau ljóð sem ég var að lesa í
bókum. Það varð einhvern veginn
styttra þar á milli og það gaf mér
hugrekki til þess að hugsa að þetta
væri hægt. Til að byrja með virtist
nokkuð létt og eðlilegt að það kæmu
ljóð ef maður settist við ritvélina.
Þetta var frekar spurning um að
halda sig frá ritvélinni til þess að fá
einhvern frið fyrir þessu og að aðrir
fengju frið fyrir þessu.“
Sjón segir að síðan hafi hægst á
ljóðaframleiðslunni og þegar hann fór
að skrifa skáldsögur um 1990 þá hafi
það kallað á önnur vinnubrögð. „Öll
þessi heimildarvinna og efnisöflun og
hreina og beina handverk sem skáld-
sagan krefst tók svolítið yfir hugann.
Þess vegna hafa ljóðin bara komið
þegar þau vilja láta vita af sér. Og það
gleður mig alltaf mjög af því ég hef
alltaf litið á ljóðið sem æðsta form
bókmenntanna. Ég fer ekkert ofan af
því.“
Lítill geislavirkur kjarni
Þetta ljóðasafn varð til í kringum
stakt ljóð sem Sjón segir að hafi orðið
til fyrir nokkrum árum þegar hann
sat í flugvél á leið á bókmenntahátíð
erlendis. „Ég vissi alltaf að það ljóð
yrði eitthvert lykilljóð. Stemningin í
því, íhyglin í því og þessi nálægð við
fegurðina, dauðann og þörfina fyrir
skáldskapinn. Ég vissi að það yrði
kjarninn í næstu bók. Svo fór ég að
skoða hvað hafði orðið til á síðustu
árum og þá áttaði ég mig á því að það
var rétt hjá mér að þetta ljóð gat ver-
ið eins og lítill geislavirkur kjarni sem
kallaði til sín annað efni.“
Þetta ljóð bar titilinn „Næturverk“
og það varð líka titill ljóðabókarinnar.
Nóttin myndar því vissan kjarna.
„Nóttin er tími draumanna og svefns-
ins og sú vinna sem fer fram á næt-
urnar er einhvern veginn utan mann-
legs samfélags, ekki í takti við það. Sú
vinna er að sinna einhverjum grunn-
þörfum samfélagsins, halda ein-
hverjum ákveðnum hlutum gangandi.
Við þurfum að hafa fólk á vakt í raf-
stöðinni, á hjúkrunarheimilunu og í
höfninni. Svo stendur skáldið líka
vaktina í nóttinni. Á meðan aðra
dreymir framkvæmir skáldið þá at-
höfn sem er líkust draumnum af öll-
um sem maðurinn getur framkvæmt
og það er að skrifa ljóð. Og í hefð-
bundnum skáldskaparfræðum þá er
dagurinn tími prósans og sögunnar
og mannlífsins sem er að ganga sinn
gang og nóttin er tími ljóðsins,
draumsins og innra lífs mannsins.“
Skrifar þú á næturnar?
„Ég verð nú að viðurkenna að
þetta kemur til mín á öllum tímum.
En í gegnum tíðina hef ég unnið dálít-
ið á næturnar og mér finnst gaman að
vera í nóttinni þegar þögnin ríkir og
maður fær að lifa í þessu ástandi sem
skapast af fjarveru mannsins í sínu
eigin umhverfi. Þegar ég var yngri
skrifaði ég eiginlega bara á næturnar
og ég geri það enn þá þegar ég er í
svona skriftartörnum. Þá leysist bara
upp dagur og nótt. Ég vinn kannski í
16 tíma og það getur lagst hvar sem
er á sólarhringinn.“
Áhrifa heimsfaraldursins gætir í
nokkrum ljóðum í verkinu og spurður
út í það hvernig hann sem skáld
bregðist við slíku samfélagsástandi
segir Sjón: „Eitt af því sem er áhuga-
vert við ljóðið er að skáldið er alltaf
uppspretta þess. Það talar alltaf frá
sjálfu sér, yrðingin kemur frá skáld-
inu og persónu skáldsins. Og eitt af
því sem gerði það að verkum að ég
fór yfir í skáldsögurnar á sínum tíma
var að ég var orðinn þreyttur á þess-
ari miðjustöðu minnar persónu í ljóð-
unum. Mig langaði að skrifa í gegnum
aðrar persónur og skoða eitthvert
viðfangsefni frá fleiri vinklum.“
En hann segir ljóðskáldið þó ekki
komast hjá því að vera statt í sömu
atburðarás og aðrir. „Í þessu tilfelli
er það heimsfaraldurinn og það eru
tvö ljóð sem tala beint um það. Annað
gerist á gönguferð þegar göngur voru
leyfðar og hitt gerist í draumi þar
sem umgengnisreglur Covid-farald-
ursins minna á sig í draumi og að
sjálfsögðu er þetta, eins og allur minn
skáldskapur, byggt á sönnum atburð-
um,“ segir hann.
„En ég hef alla tíð streist gegn öll-
um skyldum skáldsins þegar aðrir
segja því hvað það á að skrifa um,“
segir hann og segist gefa lítið fyrir
það þegar fólk segi að kominn sé tími
til að skáldin tali því þá sé gert ráð
fyrir að skáldin tali á einhvern ákveð-
inn hátt. „Ég held að það sé svo mikil-
vægt að ljóðið fái að vera til á sínum
eigin forsendum og skáldið fái að tala
á sínum eigin forsendum. Fegurð
ljóðsins sem listforms felst einmitt í
því að ákveðnar kringumstæður geta
kallað á ljóð sem virðist koma algjör-
lega á skjön við þær. Eitt af frægari
dæmum um það eru ástarljóð Paul
Éluard í París þegar hún var her-
numin af nasistum. Þar eru ástarljóð
eina leiðin til þess að takast á við
ástandið.“
Heldur utan um það viðkvæma
Sjón rifjar upp þegar hann sótti
sýningu í Belgrad þar sem sjá mátti
list sem hafði orðið til á tímum Milos-
evic-harðstjórnarinnar.
„Það var svo merkilegt að skoða
hana vegna þess að margt af því var
augljóslega pólitískt og slagorða-
kennt en það sem snart mig mest
voru afar fíngerð verk sem á ein-
hvern hátt lýstu bara hversdagslegu
samneyti fólks. Þá áttaði ég mig á því
að eitt af því sem ljóðið getur gert, og
listin getur gert, er að halda utan um
hversdaginn og allt þetta viðkvæma í
lífinu sem slagorðin ná ekki yfir. Þess
vegna leyfi ég ljóðinu bara að láta vita
af sér á sínum forsendum ef það vill.
Hugurinn vill takast á við stóru málin
á þann hátt.“
Sjón nefnir að í ljóðabókinni megi
einnig finna tvo texta sem „segja má
að snerti beint á loftslagshamför-
unum, þeim breytingum sem eru
hafnar og hvaða þátt við eigum í því.
Bókinni lýkur á þeim orðum að við
eigum ekki afturkvæmt til þess heims
sem var og það á náttúrulega líka við
um heimsfaraldurinn. Við munum
aldrei geta snúið aftur og ljóðið minn-
ir á það.“ Hann segir ljóðið vera sí-
kvikt og að þar sé sífellt hægt að raða
veruleikanum upp á nýtt.
„Það sem er svo fallegt við ljóðið er
að það er smæsti gjörningur gegn því
ofurefli sem lífið er. Að ávarpa ver-
öldina í ljóði er eitthvað sem allir geta
gert, öllum er gefin sú gjöf við fæð-
ingu að ávarpa heiminn í ljóði. Ljóðið
er alltaf vonargjörningur andspænis
ofurefli tilverunnar og þess vegna
held ég að þegar það koma upp hrika-
legar kringumstæður þá eru skáldin
kölluð til.“
Þá leiðist samtalið að hörmung-
unum sem eiga sér stað í Úkraínu um
þessar mundir.
„Þar er verið að eyða heilum menn-
ingarheimi. Úkraínumenn eru að
berjast fyrir tilverurétti aldagamallar
menningar. Pútín gerði það alveg
ljóst frá upphafi að markmiðið sé að
brjóta á bak aftur það sem hann telur
ekki einu sinni vera sjálfstæða menn-
ingu. Hann ætlar að þurrka það út og
segir bara: „Þetta er Rússland.“ Og
við þekkjum það úr okkar sögu að
skáld skipta miklu máli þegar sjálfs-
mynd þjóðar og það er ekkert minna
hjá Úkraínumönnum. Þeir eiga gífur-
lega mikið af sterkum ljóðskáldum og
sterkri bókmenntahefð, bæði á rúss-
nesku og úkraínsku. Tungumálin
hafa alveg fengið að lifa hlið við hlið í
úkraínskri menninu og sögu. Mikhail
Búlgakov, sem ég lít á sem einn
mesta meistara 20. aldar bókmennta,
er til dæmis fæddur í Kiev.“
Sjón þótti því ánægjulegt að geta
tekið þátt í viðburði í Ráðhúsinu fyrir
stuttu þar sem ljóð voru lesin til
stuðnings Úkraínu.
„Þetta minnir okkur á að það dýr-
mætasta sem við eigum er menn-
ingin, að geta tjáð okkur og að það sé
ekki tekið af okkur. Þjóð er ekkert
annað en menning og þjóð hefur ekk-
ert annað verkefni en að halda við
sinni menningu. Við erum með 63
þingmenn á Alþingi og þeir hafa í
rauninni ekkert annað hlutverk, þeg-
ar á reynir, en að viðhalda íslenskri
menningu. Það er það eina sem þeir
eiga að gera og þeir eiga að hugsa um
það í öllum sínum störfum. Án menn-
ingarinnar erum við ekki neitt. “
Sjón er forseti samtakanna PEN á
Íslandi, sem er hluti af alþjóðlegum
samtökum rithöfunda, þýðenda og
ritstjóra sem vilja standa vörð um
tjáningarfrelsið.
„Þess vegna hef ég verið mjög upp-
tekinn af og áhugasamur um tækifæri
fólks á Íslandi til þess að tjá sig og við
erum núna að sjá æ fleiri höfunda af
erlendum uppruna,“ segir hann og
bætir við að við þurfum sífellt að hafa
í huga hvort við heyrum í öllum hóp-
um þjóðarinnar. „Og við verðum að
heyra í öllum því hvert einasta ljóð
skiptir máli til björgunar heiminum.“
Gerð af listrænum metnaði
Sjón stendur ekki aðeins í ljóða-
útgáfu þessa dagana heldur er hann
áberandi í hlutverki sínu sem hand-
ritshöfundur. Alþjóðlega stórmyndin
The Northman verður frumsýnd hér
á landi 14. apríl. Hún er byggð á
Amlóðasögu og skartar leikurum á
borð við Alexander Skarsgård, Nicole
Kidman, Anya Taylor-Joy, Willem
Dafoe og Björk. Sjón skrifaði hand-
ritið ásamt leikstjóranum Robert Eg-
gers. „Þetta er eitt stærsta kvik-
myndaverkefni sem Íslendingur
hefur lykilhlutverk í sem skapandi að-
ili og það er sérstaklega gaman að það
skuli vera saga sem byggir á okkar
gamla arfi,“ segir skáldið.
„Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjót-
andi að fá að taka þátt í nokkrum
kvikmyndaverkefnum með góðum
leikstjórum og góðu fólki. Ég hef allt-
af verið mikill kvikmyndamaður og
elskað kvikmyndir frá því ég var barn
og unglingur. Máni Steinn og ást
hans á kvikmyndum byggir á því.“
Hann segir það hafa verið mjög sér-
stakt að fá að taka þátt í The North-
man annars vegar og hins vegar
Dýrinu sem hann skrifaði ásamt
Valdimari Jóhannssyni leikstjóra.
„Þetta eru kvikmyndir sem gerðar
eru af listrænum metnaði sem full-
nægir mér sem virkilegum kvik-
myndaunnanda. Þetta er auðvitað
dásamlegt tækifæri til þess að fá að
leggja eitthvað af mörkum til list-
formsins sem hefur gefið mér svo
mikið í gegnum tíðina.“ Sjón segir
skemmtilegt hve ólíkar þessar tvær
kvikmyndir séu. Önnur sé lítil íslensk
kvikmynd með fáum leikurum og
sögu sem virðist einföld við fyrstu
sýn en hin sé með alþjóðlegum stór-
leikurum, tvö hundruð manna bar-
dagasenum og þar fram eftir götum.
„Ljóðið getur orðið til án nokkurra
tækja annarra en skáldsins og tungu-
málsins, það þarf ekki einu sinni
servíettu og blýantsstubb, en kvik-
myndin er heldur betur annað form.
Fyrir mig sem höfund hefur alltaf
verið hluti af minni stefnu að vera sá
sem kemur með tungumálið, söguna
og hina ljóðrænu hugsun inn í verk-
efni. Þannig þegar ég er kallaður til í
svona verkefni þá veit ég að það er
verið að kalla eftir ákveðinni tegund
af hugsun.“
Á næstu vikum mun Sjón hafa í
nógu að snúast við að fylgja kvik-
myndinni eftir en hann segist einnig
vera byrjaður að vinna í nýrri skáld-
sögu.
„Ég er alltaf að vinna í skáldsögu,
alltaf með tvær þrjár í gang,“ segir
hanni. „En það vill svo til að fyrir
tveimur vikum skrifaði ég fyrstu
þrjár blaðsíðurnar í því sem ég held
að geti orðið ný skáldsaga. Allt í einu
átta ég mig á því að mér hefur verið
rétt hendi og nú verði ég leiddur inn í
söguna. Svo er ég í kvikmyndaverk-
efni þar sem ég er að endurskrifa
Hamlet. Leikkonan Noomi Rapace
verður í hlutverki Hamlets og Ali
Abbasi, sem leikstýrði Gräns eða
Border, leikstýrir. Svo er ég alveg
viss um að það sé alla vega eitt ljóð
eftir.“
Morgunblaðið/Einar Falur
Næturskáld „Ljóðið er alltaf vonargjörningur andspænis ofurefli tilverunnar og þess vegna held ég að þegar það
koma upp hrikalegar kringumstæður þá eru skáldin kölluð til,“ segir Sjón um samband ljóðlistarinnar og hamfara.
Skáldið stendur vaktina í nóttinni
- Ný ljóðabók eftir Sjón, Næturverk, komin út - „Án menningarinnar erum við ekki neitt,“ segir
skáldið - Er annar handritshöfunda stórmyndarinnar The Northman sem frumsýnd verður í apríl