Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 01.11.2021, Page 55

Læknablaðið - 01.11.2021, Page 55
L ÆKNABL AÐIÐ 2021/107 559 Yrsa Löve 06:45 Ligg vakandi, klukkan að nálgast sjö og enn er myrkur. Verð alltaf jafn svekkt yfir vetrarmyrkrinu en reyni að sannfæra sjálfa mig um að myrkrið sé hlýtt og mjúkt, enda ekkert annað að gera í stöðunni næstu mánuðina. Fer fram úr og sinni lágmarksviðhaldi á sjálfri mér enda bíða bæði hundur og barn eftir þjónustu. Eldri börnin sjá um sig sjálf, enda eru víst „fyrstu 20 árin verst”. Fleyg orð frá stjúpa. 07:00 Vek hvolpinn og fer með hann út í garð að pissa. Veðrið er gott, meira að segja roði í austri sem gefur fyrirheit um sól í dag. Hver hefði trúað því? Ég hélt að það yrði það erfiðasta við hvolpastand að rífa sig út næstum því á náttfötunum með hund að pissa löngu áður en löglegt er, en þetta eru vanmetin forréttindi. Að fá að anda að sér fersku súrefni splunkunýs dags á undan öllum öðrum. Nema auðvit­ að hinum hundaeigendunum. 07:15 Inn að vekja örverpið. Þessi hvolp­ ur er besta vekjaraklukka sem ég hef átt. Skelli hvolpinum í rúmið til sonarins sem vaknar með bros á vör þegar hann er sleiktur úr draumalandinu. Tek til morgunmat og nesti meðan prinsinn kem­ ur sér á fætur. Skellum í okkur Cheeriosi og svo út. Sem betur fer er lítil umferð. Þetta er eiginlega alltaf svona á mánudögum og föstudögum. Eru svona margir í fríi þá? 08:20 Komin í vinnuna. Fer yfir sjúklingalistann og les yfir tilvísanir þeirra sem koma í dag. Allir nýir nema einn. Svo mikið þægilegt að fá góðar tilvísanir og gerir alla tíma mun effektívari. Í dag eru sjúklingar með slæmt frjókornaofnæmi sem ég þarf að koma í afnæmismeðferð í vetur, einn greinist með bráðaofnæmi fyrir sólblómafræjum. Ég geri húðpróf og spírometríur hjá nokkrum. Einn er með slæman krón­ ískan sinusitis með astma og annar erf iða urticaríu sem endar mögulega á líftæknilyfi. Skrifa öll læknabréf sjálf og sendi rafrænt jafnóðum á heilsugæslur viðkomandi. Klárlega langpraktískasta sumarstarf mitt í læknadeild þegar ég vann sem læknaritari, enda keppnisfær á lyklaborðinu. 11:00 Unnur Steina rekur inn nefið, við ræðum tilfelli, svo ómetanlegt að vinna svona hlið við hlið enda gerum við mikið af því að ráðfæra okkur hvor við aðra sem og við aðra kollega hér. Hér er konsúlt fjölmargra sérgreina alltaf í seilingarfjar­ lægð. Sagði einhver að stofulæknar ynnu einir úti í horni? 14:00 Klára móttökuna, hef ekki gefið mér tíma fyrir kaffi eða matartíma enda á leið með hvolpinn til læknis. 15:00 Mætt með hundinn til hundatannlæknis, vígtönn særir góminn. Mælt með að fjarlægja tvær í þeirri von að fullorðinsvígtennurnar komi rétt upp. Annars eru tannréttingar framundan. Þetta verður dýrasti hundur Íslandssögunnar. Tölvuvasagæludýrin á 10. áratug síðustu aldar voru klárlega ódýrari í rekstri. 16:00 Ekki seinna vænna að borða há­ degismat. Kisi er feginn að fá smá athygli enda ekkert verið eltur af hvolpinum í dag. Örverpið er alsælt að fá að vera af­ skiptalaus í tölvunni með vinunum. Tek mig til í göngu. 17:00 Hitti nokkrar eðalvinkonur og hunda við Búrfellsgjá, göngum á Búrfell. Það er ennþá sól, svei mér þá ef þetta er ekki bara fimmti sumardagurinn í ár. Tökum okkur góðan tíma í blíðunni og spjöllum, helst sem minnst um heil­ brigðiskerfið samt, þótt flestar séum við heilbrigðisstarfsmenn. Það er mikið hlegið enda sumt sagt þar sem ekki verður sett á prent. Engar búbblur samt, kannski eins gott, enda við flestar akandi. 19:30 Legg af stað heim. Það eru nokkur „missed calls“ á símanum frá börnunum og „hvað er í matinn?“ SMS sem breytast í örvæntingarfull „verður matur?“ Kem heim og metnaðarfull föstudagspizzugerð breytist í Flateyjarpizzupöntun. Notalegt kvöld, Gísli Marteinn mættur aftur á skjáinn, hundurinn sofandi eftir erfiðið og börnin öll heima. Ég elska samt ekkert haustið, ég er sumartýpa. En þetta var góður dagur. Er sofnuð um ellefu, al­ veg slétt sama um hvort Þórólfur leyfi sölu vínveitinga til kl 22 eða 02. Dagur í lífi ofnæmislæknis Yrsa Löve í Læknasetrinu. Dagmar Guðmundsdóttir tók myndina.

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.