Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.2019, Blaðsíða 50
50 – Sjómannablaðið Víkingur
Ég lofaði ónefndum lesanda Víkings að
gera ögn gleggri grein fyrir skáldinu sem
í skírninni fékk nafnið Kristján Níels
Jónsson, fæddur á Akureyri í apríl 1859,
fluttist vestur um haf 1878 og átti aldrei
afturkvæmt til Íslands.
Í Norður-Ameríku átti Kristján heimili
fyrst í Winnipeg, þá borginni Duluth í
Bandaríkjunum en lengst af bjó hann í
Pembínasýslu í Norður-Dakóta og þar
andaðist hann hinn 25. október 1936.
Eldri bróðir Kristjáns var Jón Júlíus.
Gerðist hann einnig Vestur-Íslendingur
og er þá komin skýringin á ættarnafninu
Júlíus sem öll systkini Kristjáns sem
vestur fóru - tveir bræður og tvær systur
– tóku sér. Þannig titlaði skáldið sig í
blaðagreinum K. N. Júlíus - sem í fram-
burði enskumælandi verður Káen. Þar
með hafði okkar maður eignast skálda-
heiti og nefnist eftir það Káinn.
Káinn var skáld kímni og léttleika og tók
veröldina ekkert of alvarlega. Hann vildi
njóta dagsins en gerði sér ekki rellu út af
morgundeginum:
Að njóta lífsins gæða er náttúrunnar þrá
og nota tímann, meðan að við lifum.
Þó að maður drekki og stansi stúlku hjá,
það stendur ekki neinum fyrir þrifum.
Káinn stansaði þó aldrei lengi „stúlku hjá“. Hann var alla tíð
ógiftur, eignaðist ekki afkomendur og fannst mesta furða að
nokkur karl gæti búið jafnvel áratugum saman við sömu konu:
Ég gæti elskað átta,
ef engin væri stór,
en kysst og klappað fleirum
og kannski „loved some more“.
Mér finnst það næstum furða,
hvað fáir svíkja lit;
að eiga eina konu
er ekkert minnsta vit.
Kvenmannslaus veröld var Káinn þó ekki að skapi og var hann
þá ekkert endilega að hugsa um viðhald mannkyns:
Svarið þér ég sendi hér,
segi þér og skrifa,
kona mér það kenndi ber
hvað það er að lifa
En hið veikara kyn átti sér Akkilesarhæl
sem skáldið kom snemma auga á og varð
því afhuga sambúðarlífi:
Þó kvenfólk beri ljúfa lund
og lini sorg og þraut,
og karlmönnunum stytti stund
og styðji á lífsins braut,
og margar eigi menntagull,
sem meta ber til auðs,
og konan sé af kærleik full,
„hún kjaftar mann til dauðs.“
Þrátt fyrir þennan bitra sannleik, sem
Káinn fannst vera, varð niðurstaða hans
engu að síður þessi:
Kvenfólkinu ann ég enn
eins og fleiri kvennamenn
á því sé ég engan blett
ef að það er brúkað rétt.
Káinn þótti gott að fá sér í staupinu og
hélt uppi vörnum fyrir Bakkus sem var
útlagi í Norður-Dakóta lengst af þeim
tíma sem skáldið bjó þar:
Bindindismennirnir birta það hér,
að brennivín geri menn „crazy“,
en það get ég sannað, að orsökin er
oftast nær brennivíns-leysi.
Kirkjuþing var haldið í skólanum að Mountain í Pembínasýslu.
„Mun það flestra manna mál óvilhallra, að þing þetta hafi verið
eitthvert hið bezta og afkastamesta er haldið hefir verið á meðal
Vestur-Íslendinga“, las skáldið í blaðinu Lögbergi og tengdi
óðara við kamra sem stóðu að húsabaki við þingstaðinn:
Í lágri bygging búska hjá
bak við skólahúsið,
að minni hyggju mætti sjá
mikið eftir liggja þá.
Deilugirni landa vestan hafs endurspeglaðist í blöðunum
Heimskringlu og Lögbergi. Kom þar að Káinn var nóg boðið:
Þar er engin þjóðrækni
þaðan af síður guðrækni,
heldur íslensk heiftrækni
og helvítis bölvuð langrækni.
Endum þessa stuttu heimsókn til skáldsins á þessari sjálfslýs-
ingu:
Óviljandi aldrei laug, –
oft við Bakkus riðinn; –
af flestum, sem að fælast spaug,
fremur illa liðinn.
Kristján Júlíus. Ekki skal fullyrt hvenær myndin er
tekin en væntanlega hefur það verið í Winnipeg þar
sem skáldið bjó frá 1878 til 1891.